23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það er að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. N.-M. og hv. þm. Hafuf., að ég finn ástæðu til þess að bæta nokkrum orðum við það, sem ég sagði hér áðan. Mér skildist á þeim báðum, að þeir taki þessu frv., sem. hér liggur fyrir, mjög vel, tvímælalaust m. 2. þm. N.-M., er mér virtist hafa fullan skilning á því, að ástandið í læknaskipun í héruðum landsins væri óviðunandi eins og það er nú. En báðir komu þeir inn á það atriði, að það væri ekki hægt að bæta úr þessu ástandi með öðru móti en því, að launakjör læknanna yrðu bætt, eða svo skildist mér þeirra ummæli falla. Og hv. 2. þm. N.- M. skoraði á allshn. að athuga þetta mál og óskaði sérstaklega eftir, að hún kæmi með lagabreyt., sem réðu bót á launum héraðslæknanna úti um landið.. Ég skal strax lýsa því yfir, að þó að allshn. hafi minnzt á þetta launaspursmál, þá get ég ekki lýst neinu yfir fyrir n. hönd. En frá mínu sjónarmiði verð ég að segja, að þó að yfirstandandi tímar séu kannske svo, að það séu sæmilega góð fjárráð í landinu, þá held ég samt sem áður, að þeir séu , ekki heppilegir til þess að hrófla á þeim við launalögunum. Það er rétt, sem hv. 2. þm. N.-M. hélt fram, að laun héraðslækna í erfiðum héruðum eru of lág. En ég óttast mjög, ef farið verður af einni þingn., sem ekki hefur neina sérstaka sérþekkingu á meðferð launalaga, að byrja á að leggja til, að þeim l. verði breytt, og n. verður þess valdandi, að þeim verði breytt, snertandi aðeins eina launastétt í landinu, þá fáist með því litill árangur. Ég skal ekki um það segja, hvað allshn. gerir í þessu efni. En ég tel mig algerlega vanbúinn því að koma fram með slíkar till. En hitt finnst mér alveg sjálfsagt — þó að allir kunni að játa það, að launaspursmálið sé stórt spursmál — að gera þá tilraun, sem farið er fram á í þessu frv., sem ég gat um áðan. Ég hef talað við reyndan héraðslækni um þetta atriði, og ég held, að læknum landsins sé vel ljóst, að ástandið með héraðslæknana úti um land sé mjög óviðunandi. Og þessi reyndi héraðslæknir sagði við mig: Veiztu, hvað læknar segja fyrst, þegar þeir eru spurðir um, hvers vegna þeir vilji ekki fara í héruðin út á landi? Það er ekki launamálið, sem þeir bera fyrst fyrir. Þeir segja fyrst: Við viljum það ekki vegna þess, að ef okkur er veitt slíkt hérað, erum við hræddir um, að okkur verði gleymt. Þetta eru orð hins merka læknis, og ég hygg, að þau séu sönn. Og þá kemur maður að öðru atriði, sem hv. þm. Hafnf. benti á, að honum virtist það hafa komið fram, að það væri lítils metið við þá lækna, sem færu í þessi erfiðu og lélega launuðu héruð. Má vel vera, að svo sé. En ég sé ekki, að það sé gott að finna lagfæringu á þessu með lagaboði. Ég hugsa, að þetta sé framkvæmdaratriði, sem ég verð að bera það traust til heilbrigðisstjórnarinnar um, að hún reyni að laga í hendi sér. Ég held, að það sé ekki hægt að búast við því, að allshn. eða Alþ. geti lagfært þetta. Ég vildi láta þetta koma fram hér vegna þess, að ég hygg, að meðal lækna sé það tilfellið, að það séu ekki aðeins launin, sem þeir horfa á, heldur líka það, að þeir hafa áhuga fyrir starfi sinu og vilja gjarnan, að þeim gefist kostur á að fullkomna sig í því. Og einmitt þetta frv., sem hér liggur fyrir, er spor í áttina til að greiða fyrir því, að læknar, sem eru í lélegri héruðum, geti, með góðum velvilja heilbrigðisstjórnarinnar, fengið frí nokkra mánuði í einu, kannske heilt ár, til þess að geta gefið sig betur við því að þroska sína læknishæfileika.

Mál þetta er ákaflega mikið vandamál. Og mér finnst sjálfsagt að láta ekkert af þeim atriðum vera óleyst, sem maður kemur auga á, að er til bóta í málinu, og rétt að sjá svo, hvort það þolir ekki bið, að þessi eina stétt af launastéttum landsins sé tekin út úr og bætt kjör hennar með breyt. á launal. Ef farið verður að hreyfa við launakjörum þessarar stéttar á þann hátt, hygg ég, að fáar launastéttir finnist, sem ekki sé hægt að segja um, að hafi of lág laun. Ég hygg, að það séu 15 ár síðan því var hreyft að endurskoða launal. landsins, og það er ekki farið til þess enn. Og ég hygg, að það sé of hörð krafa til einnar þingn. að ætlast til þess, að hún sé þess umkomin að leysa þann vanda.

Ég læt svo útrætt um þetta að sinni. Og eftir þeim undirtektum„ sem málið hefur fengið hér í hv. d., vona ég, að það fái greiðan gang gegnum þingið.