01.04.1942
Efri deild: 26. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég gat nú ekki sannfærzt af rökum hv. þm. Hafnf. um það, að nein brýn þörf væri á að taka þessi tvö mál út af dagskrá nú, því að það er öllum hv. þingheimi ljóst, að þessi ágreiningur hefur verið milli hv. þm. Hafnf. og n. um 2. málið og jafnvel bæði málin að nokkru leyti. Ég held því, að bann hafi haft tíma til að gera sínar brtt. (BSn: Þetta mál hefur alls ekki verið tekið af dagskrá nema til þess að fylgja hinu málinu.) Tíminn, sem þetta mál hefur ver ið fyrir þinginu, hefur lengzt við það, að þess var óskað við 2. umr., að málið yrði ekki tekið fyrir, fyrr en formanni Læknafélags Íslands gæfist kostur á að tala við n. N. átti tal við formann læknafélagsins í gær, og meiri hluti n. tók á móti sendinefnd frá félagi læknanema við háskólann í morgun og átti langt tal við þá, þannig að n. hefur nú fengið þá þekkingu um málið, sem hún býst við að fá. Úr hinu geri ég ekki mikið, að hv. þm. Hafnf. hafi ekki haft tíma til að gera brtt. við frv. hingað til, vegna þess að það var ljóst frá byrjun, að hann var andvígur báðum þessum frv. að meira eða minna leyti. Og ég verð að skilja þetta, að hann gerir ekki ráð fyrir brtt. við frv. fyrr en við síðustu umr. málsins í d. og óskar þá eftir, að málinu verði frestað, þannig, að þetta sé a.m.k. jöfnum höndum gert til þess að tefja málið. Þá finnast mér röksemdir hans fyrir því, að málið verði ekki tafið við að taka það nú af dagskrá vegna páskahelginnar, hæpnar. Ég lít þveröfugt við hann þannig á, að ekki sé þörf á að taka málið af dagskrá nú. Það er hægt að koma brtt. fram við málið í Nd. Ef þetta hefði verið síðari d., þá hefði ég gefið hv. þm. Hafnf. kost á að koma með brtt. En eins og sakir standa sé ég ekki ástæðu til þess, og mæli ég því á móti því, að málin verði tekin af dagskrá.

Ég get getið þess strax, að a.m.k. meiri hluti n. — ég get ekki alveg sagt um einn nefndarmanninn — hefur ekki getað sannfærzt af þeim rökum, sem fram hafa verið borin sem andmæli gegn frv., bæði frá formanni Læknafélags Íslands og þessari sendinefnd frá Félagi læknanema við háskólann. Ég hef ekki getað sannfærzt um, að andmælin væru það sterk, að málin ættu að falla niður af þeim sökum. En hitt hygg og hafi komið fram hjá báðum þessum aðilum, sem d. er kunnugt um, að þeir telja, að launakjör lækna í lakari héruðum landsins séu of lág. Þessu hefur af engum verið mótmælt hér í hv. d. En það hafa líka komið fram hér í d. till. í þá átt að bæta úr þessu. Og meira að segja hefur mér skilizt, að það hafi verið bent á leið til þess að bæta úr þessu á þann hátt, að ekki þyrfti að koma til lagabreyt. Og ef ég hef skilið hæstv. forsrh. rétt, þá taldi hann það geta komið til greina. Og það er langt frá því, að n. sé því mótfallin að bæta kjör læknanna úti á landi. Hins vegar hefur n. ekki talið sér fært að leggja út í að koma fram með breyt. á launal.

Til þess að flýta fyrir umr. vil ég taka það fram að gefnu tilefni, að n. lítur þannig á, að heimild sú, sem gefin er í frv. á þskj. 92, um að ráðh. geti sett það að skilyrði fyrir fullkomnu lækningaleyfi, að kandidatar hafi unnið annaðhvort sem aðstoðarlæknar hjá héraðslæknum eða gegnt störfum í læknishéraði, að heimild þessa eigi alls ekki að nota, nema brýna nauðsyn beri til. Þess vegna tók líka n. heldur heimildarformið heldur en að setja þetta sem fast skilyrði í l. Og túlkað á þennan hátt sé ég ekki annað en að þessi kvöð, sem með þessu frv. væri lögð á læknanemana, ef samþ. verður, sé ekki meiri en það, að svo vægilega sé þar í sakirnar farið sem kostur er á. En af viðtali við sendin. frá Félagi læknanema við háskólann virtist okkur í n., að þeir legðu megin áherzlu á þessa kvöð og að þeir vildu fá hana afnumda. En ég verð að segja það, að eins og reynzt hefur erfitt að fá lækna bæði til þess að gegna aðstoðarlæknisstörfum og til þess að þjóna í læknishéruðum landsins, þá sé ég ekki betur en að það sé full ástæða fyrir þingið til þess að reyna þessa leið að hafa þessa heimild til. Nefndinni hefur verið skýrt frá því, og ég skal ekki segja neitt um það, hvaða heimildir eru fyrir því, að það muni alls ekki koma til þess, að það þurfi á þessu að halda, því að þetta muni lagast. Og sérstaklega var það formaður Læknafélags Íslands, sem taldi, að það mætti laga þetta með því að liðka til án þess að notkun þessarar heimildar þyrfti að koma til. Það er nú allt gott og blessað. Ef svo verður, þá verður heimildin bara ekki notuð. Og ég sé ekki, að sérstaklega sé ráðizt á þessa læknanema svo að þeir þurfi að firrast við, þó að þessi frv. verði samþ., ef þeir líta á það, að hins vegar ber þess að gæta, að hér er úr mjög miklum þjóðarvandræðum að ráða. En ég skil það hins vegar mjög vel, að bæði læknafélagið og félag læknanema vilja vera á varðbergi um það, að réttur stéttar þeirra sé ekki skertur, og ég hef ekkert við það að athuga. Og ég get lýst yfir því, að þessi samtöl þessara aðila við n. hafa farið fram ákaflega prúðmannlega á allan hátt. En þar er ekki nema annar aðilinn. En við sem þjóðfulltrúar verðum að líta á hinn aðilann, sem er þannig settur, að hann getur ekki með viðræðum haft nein áhrif á afgreiðslu þessa máls á Alþ. Við fulltrúarnir utan af landi verðum að taka upp þeirra málstað.

Þó að þessi frv. séu, eins og öll önnur mannaverk, ekki svo, að ekkert megi að þeim finna, þá álít ég ekki skaða skeðan, þó að þau verði nú afgr. til Nd. Og ég er sannfærður um, að þetta er sú hóflegasta tilraun, sem hægt er að gera til þess að bæta úr þessu ákaflega aðkallandi vandamáli landsbúa.

Ég verð því að mælast til þess, að þessi frv. fái að ganga eðlilegan gang, og get ég ekki fallizt á röksemdir hv. þm. Hafnf. fyrir því að taka málin af dagskrá nú. — Ég verð að biðja bæði hæstv. forseta og hv. þd. velvirðingar á því, að ég hef hér í raun og veru rætt bæði málin, 1. og 2. á dagskránni, en ég tel, að það saki ekki, vegna þess að þessi bæði mál hanga saman.