01.04.1942
Efri deild: 26. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

*Sigurjón Á Ólafsson:

Ég ætlaði ekki að taka til máls, en af því að meiri hl. allshn. er við málið riðinn og á hann er deilt, vildi ég taka fram nokkur atriði. En fyrst vil ég leiðrétta þrennt í ræðu hv. þm. Hafnf., sem ekki var alls kostar rétt.

Hann vildi halda því fram, að báðir aðilar, læknafél. og félag læknanema, væru á móti þeim tveim frv., sem hér liggja fyrir, en í viðtali við formann læknafél. og tvo fulltrúa læknanema kom engin rödd fram um að gera breyt. á frv. (BSn: Það er alveg rétt, en það hefur verið sagt af hv. frsm., að þetta frv. sé gagnslaust, nema hitt komi með.) Hitt, að ekki megi hrekja mál á milli d., á ekki við nema í lok þings. Ef komið er að þinglokum, er hætt við, að mál dagi uppi, ef þarf að hrekja þau á milli d. Því er ekki til að dreifa um þetta mál.

Í þriðja lagi talaði hv. þm. um einn nm., sem hefði ekki átt kost á að fylgjast með málinu í n., en það er ekki nema að hálfu leyti rétt. N. átti öll viðtal við formann læknafél., en í morgun, er við töluðum við læknanemana, var sá nm. ekki viðstaddur, enda komu læknanemarnir okkur að óvörum, og við nm., sem vorum hér af tilviljun, töluðum við þá. Annars er mér ókunnugt um afstöðu þessa nm. til málsins.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um þessi 2 mál í heild. Hv. frsm. hefur þegar lýst sjónarmiði n. Hún telur það eitt gerlegt, að ef öll sund lokast, megi reyna sem öryggisráðstöfun að gera þetta að skilyrði. Frsm. hefur fært rök að því, að ástandið úti á landi — er ískyggilegt. En ég skal játa, að ég hefði kosið, að ekki hefði þurft til þessa að grípa.

Ég get ekki komizt hjá að benda á, hver er aðalkjarni deilunnar. Hjá hv. þm. Hafnf. kom það fram, að aðalatriðið sé að tryggja læknum þau laun í útkjálkahéruðum, að þeir séu fúsir til að taka þau að sér. Ég skil vel þessa afstöðu og er honum þar að mestu sammála. En n. hefur lýst yfir því, að það sé ekki á valdi þriggja manna þingn. að gera beinar till. um það, hvernig skuli endanlega ráðið fram úr launamálinu.

Við áttum ýtarlegt tal við hina ungu menn, og ég fann, að undiraldan í óskum þeirra voru launaákvæðin. Þeir vildu að vísu losna við allar þvingunarráðstafanir, en aðalatriðin hjá þeim voru launin. Við bentum þeim á, að það væru möguleikar fyrir byrjendur í þessum héruðum að fá allt að 8000 kr., en ef hin reglan væri höfð, sem landlæknir gerir till. um., gætu launin orðið 10 þús. kr. Ég er ekki viss um, að þetta sé fullnægjandi. Eitt hefur verið bent á, en það er, að læknar, sem koma skyndilega að embættum, eiði að fá til frjálsra afnota lyf og þess háttar og þurfi ekki að stofna til skulda í því skyni. Ríkið legði þetta fram, og væri það vitanlega töluverður stuðningur. Nú benda læknanemarnir á, að nám þeirra í háskólanum tekur 7 ár og er alltaf verið að þyngja það. Þá er lögð á þá sú skyldukvöð, að þeir verða að vinna á sjúkrahúsi í heilt ár, en þau laun, sem kandídatar búa við þetta skylduár, eru óheyrilega lág. — Mér þykir leitt, að hæstv. forsrh., sem þessi mál heyra undir, skuli ekki vera hér. — Þessi laun eru 150 kr. á mánuði. Hvaða vit er í því að borga þessum mönnum sömu laun og hjálparkokkar á togara fá? Ég skil það vel, að þegar þetta er skorið við neglur sér, komi uggur í piltana við að eiga von á nýjum skyldukvöðum. Þetta ætti ríkisstj. að taka til athugunar. Fylgi mitt við málið byggist á því, að ég treysti ríkisstj. til að ráða svo fram úr launamálinu, að ekki gæti gífurlegs misræmis.

Þá er það eitt atriði, sem kemur fram sem ótti hjá hinum ungu mönnum. Jafnframt skyldukvöðinni eru þeir skyldaðir til að inna af hendi störf fastráðinna héraðslækna, og hvernig er þá búið að þeim? Eiga héraðslæknarnir að skammta þeim eftir sinni vild, eða eiga þeir að fá ákveðin laun? Þessa hlið málsins má taka upp á öðrum vettvangi hér á þingi, það getur hv. þm. Hafnf. gert, t.d. í sambandi við launal.