08.04.1942
Neðri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Garðar Þorsteinsson:

Allar umr. um þetta frv. og tekju- og eignarskattsfrv. vilja blandast saman. Mér hafði skilizt á hæstv. ráðh., að samkomulag sé um það innan ríkisstj., að færa tekjuskattsstigann í það horf, sem lýst hefur verið, án þess að tilgangurinn væri að hækka skatt í raun og veru. Þannig var a.m.k. frá þessu skýrt í flokkunum, og skildist mér það eiga við tekjur upp að 200 þús. kr., en það, sem væri umfram 200 þús., yrði skattlagt um 90%, en 10% af því yrðu frjáls, jafnt undan útsvari sem skatti. Ég taldi mikla nauðsyn, að skýrt komi fram í l., að svo sé. En ég tel mjög hæpið, að frv. megi skilja þannig, eins og það er.

Það er hættulegt að vera á hverju þingi að breyta um skattstiga og mikilsverð ákvæði l. Ég og flestir héldu, að eins og gengið var frá skattal. í fyrra, mundu þau eiga að haldast nokkuð lengi, a.m.k. talsvert lengur en til næsta þings. Hvort sem stríð er eða stríðsgróði eða venjulegt árferði, eiga skattborgararnir nokkra kröfu á því, að ekki sé verið að hringla með þetta frá ári til árs.

Ein ívilnun skattal. er sú að heimila að leggja í varasjóð, en hagurinn af því er alveg undir því kominn, hvers eðl,is fyrirtækið er. Útgerðarfélög og mörg önnur hlutafélög hafa not af því, en ég veit, að það er síður en svo, að öll félög kæri sig um það. Og vilji félag leysa upp varasjóð eða borga eigendum út úr honum, er ekki nóg, að greiða verði fullan tekjuskatt af því fé, heldur með 20% álagi. Með því refsiákvæði er féð bundið. Ég hygg það nægja, þótt þessu ósanngjarna 20% álagi væri sleppt, og vildi heyra rök gegn þeirri skoðun minni, ef fyrir hendi eru. Það er ljóst, að beiting slíkra ákvæða þýðir, verulega skattahækkun í mörgum tilfellum, sem ég gæti nefnt um nóg dæmi.

Mér skildist, eins og ég sagði, að ekki ætti að hækka skatt undir 200 þús. kr. En nú er frádráttur afnuminn, og útkoman verður, að hækkun skattsins getur orðið 50%! Og að því er snertir 90% stríðsgróðaskattinn af því, sem er umfram 200 þús., segir 4. gr. þessa frv., að óheimilt sé að leggja tekjuútsvör á það, sein er umfram þá upphæð. Mér vitanlega er orðið tekjuútsvar hvergi skilgreint í l. og vandséð, við hvað er átt með þessu í 4. gr. Útsvarsl. segja, að leggja skuli á eftir efnum og ástæðum, minnast ekki á tekjurnar sérstaklega. Ég veit ekki, hvort um vangá er að ræða í frv. eða vísvitandi gert að hafa 4. gr. þannig: Samkv. henni virðist, þvert ofan í yfirlýsingar á flokksfundum og ræður hæstv. ráðh., vera hægt að líta svo á, að 10% af tekjum yfir 200 þús. séu alls ekki friðhelg, heldur nægi að leggja á eignaútsvör og jafnvel stórkostleg veltuútsvör til viðbótar við þessi 90%. Við skulum hugsa okkur félag, t.d. iðnfélag, sem græðir 400 þús. Velta ársins hlýtur þá að nema a.m.k. 1600 þús. kr. Eins og veltuútsvör hafa verið praktiseruð, hafa þau numið 11/2% eða allt að 2%. Sé reiknað með 11/2%, eru það 24 þús. veltuútsvar, eða 6% af hreinum tekjum í viðbót við 90%. Við þessi 96% bættist svo eignaútsvar, því að í árslok ætti eftir l. að mega skattleggja þessar 400 þús. í 3. lagi sem eign. Hvað yrði eftir af 4%, þegar búið væri að borga eignaútsvarið af þessum 400 þús.? Eins og 4. gr. er orðuð, eru engin takmörk fyrir álögunum. Nú vildi ég spyrja hæstv. ríkisstjórn: Er það þá ekki af vangá, að 4. gr. er orðuð þannig? — Vill ríkisstj. ekki skýra afstöðu sína bæði um eignaútsvörin og veltuútsvörin?

Í öðru lagi vildi ég minnast á, að engin ákvæði eru um, að sá hluti stríðsgróðaskatts, sem bæjar-og sveitarfélög fá, skuli dreginn frá heildarupphæðinni, sem jafnað er niður á gjaldendur. Sá hluti skatts, sem til þeirra hefur runnið síðustu árin, hefur stundum verið talinn aukatekjur, sem ekki þyrfti að telja með aðaltekjunum, útsvarstekjunum, í fjárhagsáætlunum bæjarfélagsins eða sveitar. Þetta varð m.a. ljóst af upplýsingum hæstv. fjmrh. Þetta er engin meining. Afleiðingin er miklu þyngri gjöld á miðlungstekjum eða tekjum neðan við 200 þús. Þegar gerð er sameiginleg skrá fyrir bæði útsvar og skatt, ætti að vera leikur að vinza úr þau félög, sem eiga að greiða stríðsgróðaskatt, og áætla nokkurn veginn, hve miklar tekjurnar verði af honum, og taka þær síðan með í fjárhagsáætlun.

Þá langar mig til þess að vita, hvort það er af yfirlögðu ráði gert, að talað er um bæjarfélög í annarri gr. en í hinni er talað um sveitarfélög. Er það meiningin að greina þarna á milli sveitarfélaga og bæjarfélaga? Eftir þessu ættu þeir bæir, sem ekki hafa kaupstaðarréttindi, ekkert að fá. Mig langar til þess að vita, hvort þetta er af ásettu ráði gert, eða hvort hér er aðeins um prentvillu að ræða.

7. gr., b. liður, tekjuskattsl. hefur verið skilin þannig, að hagnaður, sem yrði af hlutabréfum, miðaðist við mismunandi kaupverð og söluverð, en hér er bætt við, að sá hagnaður skuli ekki miðast við það, sem gefið er fyrir bréfin, heldur við nafnverð þeirra. Mér skilst, að þetta geti rekizt á annað ákvæði í tekjuskattsl., þar sem sagt er á þá leið, að ef einstaklingur eignist hlutabréf, þá skuli það ekki teljast tekjur til hans, ef hann hefur átt bréfið í 3 ár. Ef nú í þessu tilfelli verða eigendaskipti á hlutabréfinu og hluthafi hefur átt bréfið lengur en í 3 ár og sýnt er, að fram fara félagsslit í félaginu, hvort á. þá að ráða ákvæði 7. gr., að þetta skuli teljast arður, eða hitt ákvæðið í tekjuskattsl., þar sem segir, að þetta skuli ekki teljast arður, ef aðili hefur átt bréfið lengur en 3 ár? Ef 7. gr. takmarkast við þetta ákvæði, mætti þetta teljast réttlátt, en það er a.m.k. ekki réttlátt að láta þetta ákvæði verka aftur fyrir sig þannig, að þeir, sem hafa keypt hlutabréfin fyrir sannvirði, langt fyrir ofan nafnverð, og keypt þau í þeirri trú, að hagnaður kynni að verða af bréfunum, verði að greiða fyrir þau hærra söluverð heldur en nafnverð bréfsins, eins og það var í upphafi. Þess vegna vildi ég spyrjast fyrir um það, hvort n. vildi ekki athuga þetta ákvæði og girða fyrir, að það gilti aftur fyrir sig.