08.04.1942
Neðri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Einar Olgeirsson:

Það er sérstaklega eitt atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni, en það eru þau ákvæði, þar sem sett er inn í um útsvör til bæjarfélaga. Það hefur verið nokkuð minnzt á þetta atriði áður af ýmsum þm. í umr. um tekjuskattsfrv. og ég held, að nauðsyn sé á því, að þau ákvæði, sem eru í þessu frv. verði rædd ýtarlega.

Fyrir 3–4 árum fengu stórútgerðarmennirnir á Íslandi því framgengt; að þeir yrðu gerðir skattfrjálsir og útsvarsfrjálsir með þeim afleiðingum, sem . það hafði. Nú virðist mér, að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé beinlínis stefnt að því að gera stórútgerðarvaldið, a.m.k. alla þá, sem mest græða, útsvarsfrjálsa. Nú vitum við það, að útsvarslöggjöfin, sem hér er til, er mjög róttæk löggjöf gagnvart auðmannastéttinni í landinu. Bæjarfélögum hefur verið gefinn réttur til þess að ganga svo langt í útsvarsálagningu, að það mætti telja, að það gengi eignarnámi næst gagnvart auðmönnum landsins. Auðmannastéttin íslenzka hefur alltaf óttazt þetta vopn, og margar tilraunir hafa verið gerðar á ýmsan hátt til þess að höggva skarð í þessa löggjöf, en mér virðist aldrei hafa verið gengið eins langt í því eins og einmitt nú með þessu stríðsgróðafrv., því að það á bókstaflega að losa mestan hluta af milljónafyrirtækjum landsins undan því að greiða nema hverfandi lítið útsvar til bæjarfélaganna. Fyrst er með tekjuskattsl. tryggt að 40% af tekjunum séu skattfrjálsar, og síðan á með ákvæðum 2.–4. gr. að tryggja þessi sömu félög gegn því, að bæjarfélögin geti lagt á þau.

Ég get vel skilið það, að hinir nýju milljónamæringar vilji gera samning um skatt á sinn stríðsgróða. Það er annars eftirtektarvert, að í hvert sinn, sem á að leggja nýja tolla á nauðsynjavöru, þá hefur því verið borið við, að þetta væri gert vegna sérstaklega slæmra kringumstæðna. hjá ríkissjóði, og því jafnframt lofað, að þessi tollur yrði fljótlega látinn niður falla. En svo hefur reyndin orðið sú, að þessir tollar hafa verið látnir halda sér, og svo mun enn fara. Ef bæjarfélög verða svipt réttinum til þess að leggja útsvör á gróða atvinnufyrirtækja og ákvæði verða sett um það í tekjuskattsl., mun erfitt að fá slíkt numið burt úr skattal. aftur, ef það er einu sinni komið þar inn. Í 2. gr. er það tekið fram, að það, sem ríkissjóður á að greiða, megi aldrei fara fram úr 40% á því ári. Þar með er verið að tryggja það, að t.d. hér í Rvík megi ekki nema 10% af þessum skatti renna til bæjarfélagsins. Með þessu verður bæjarfélagið neytt til þess að leggja á verkamenn milljónaskatta í stað þess, að þeir ættu að koma beint frá viðkomandi stríðsgróðamönnum. Svo er 4. gr. sérstaklega eftirtektarverð í þessu efni. Þar er talað um, að ekki megi leggja nein útsvör á gróða, sem verður hjá félögum. Það mun hafa verið minnzt á Kveldúlf í þessu sambandi. Ég veit ekki, hvaða tekjur Kveldúlfur hefur haft 1940, en ég gæti gizkað á 25 millj. kr., sem skattskyldar væru og næsta ár enn meira, og þá sér maður, hvað mikið það verður, sem Rvík fær af þeim gífurlega gróða, samkv. þessum l. Ég sé þess vegna ekki betur en sú verzlun, sem fram á að fara um skattafrv. þetta, geti haft verkanir í þá átt, að stórútgerðarvaldið fái tryggt sig gegn álagningarrétti bæjarfélaganna. Ég álít þess vegna, að þetta ákvæði þurfi sérstakrar endurskoðunar við, því að það getur í rauninni ekki gengið, að hægt sé að semja um það af hálfu hins opinbera við nokkra menn hér í þinginu, hvernig ráðstafa eigi stórmálum eins og þessu, og mér finnst, að ekki ætti að koma til mála að samþykkja þetta frv., fyrr en búið væri að leita álits bæjarfélaganna í landinu um frv. Mér finnst fjhn. eiga að láta málið koma til umsagnar bæjarstjórnar Reykjavíkur og annarra bæjarfélaga í landinu.

Það er ekki forsvaranlegt að láta ekki mál eins og þetta koma til álits þeirra aðila, sem það snertir mest.

Ég mun ekki fara nánar út í einstakar gr., en vildi aðeins minnast á þetta, áður en málið fer til nefndar.