08.04.1942
Neðri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Haraldur Guðmundsson:

Ég ræddi þetta frv. samtímis frv. um breyt. á tekjuskattsl. og get að mestu vísað til þess, sem ég þá sagði um málið. Eins og ég þá drap á, tel ég það höfuðagnúa á þessu frv. ákvæðið í 4. gr., sem í raun og veru sviptir sveitar- og bæjarfélögin þeim rétti, sem þau hafa og eiga að hafa til þess að ákveða útsvör eftir reglum um niðurjöfnun útsvara. Ég gerði grein fyrir því í þeim umr., hvernig þetta kemur til með að verka, og endurtek það ekki nú. En hæstv. fjmrh. lét þau orð falla um þessi frv. nú, að hér væri um verulega hækkun á skatti að ræða, þar sem samanlagður tekjuskattur og stríðsgróðaskattur væri 94% af hátekjum, en eftir gildandi l. gæti hann orðið hæstur 75%. Hér kann að lita svo út sem um verulega hækkun sé að ræða. En sé það rétt, þá er hitt víst, að hér er um að ræða stórfenglega lækkun þeirra útsvara, sem þessum fyrirtækjum er gert að greiða. Og í ýmsum tilfellum gerir sá 15% munur á skattinum ekki mikið meira en að vega á móti því, sem sveitarfélögin eru svipt rétti til að leggja á útsvör.