08.04.1942
Neðri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Munurinn á skattinum samkv. þessu frv. annars vegar og gildandi l. hins vegar er náttúrlega miklu meiri heldur en hv. þm. Seyðf. heldur fram. Þar sem hann ber saman 75% samanlagðan stríðsgróðaskatt og venjulegan tekjuskatt eftir gildandi l. og 90% samanlagðan skatt eftir þessum frv., þá gætir hann þess ekki, að í fyrra tilfellinu er heimild til frádráttar á sköttum og útsvörum næst liðins árs frá tekjum, áður en skattur er á lagður, en í síðara tilfellinu ekki, svo að 75% álag á tekjur er í þessu sambandi í raun og vera ekki nema að nafninu til það hátt álag á tekjurnar, og mundi, ef ekki væri leyfður frádrátturinn, heldur skattur lagður á eftir reglum frv., ekki verða nema 40%–50% af tekjunum. Svo að náttúrlega er þarna um stórfellda hækkun að ræða. Hitt er rétt, að með ákvæðum 4. gr. frv. um stríðsgróðaskatt, að ekki megi leggja tekjuútsvar á þann hluta teknanna, sem eru undir 90%, þegar um hærri en 200 þús. kr. tekjur er að ræða, er takmarkaður réttur sveitarfélaga til að leggja á útsvör. En þá er þess að gæta, að sveitarfélögin eiga að fá fast að . helmingi af stríðsgróðaskattinum. En eigi að síður er með þessu ákvæði gengið á rétt sveitarfélaga til að leggja á útsvör. Það er ljóst mál. Það er að nokkru leyti til hagsbóta fyrir ríkissjóð, sem kemur þarna inn í og tekur það, sem margir mundu segja meira en honum bæri. En þá er hins vegar að líta á tilganginn. Tilgangur inn er að safna í sameiginlegan sjóð, sem notast á til almenningsþarfa, þegar að þrengir. Og það er sú einasta réttlæting, sem ég tel, að sé á því.

Hv. 7. landsk. (GÞ) gerði hér fyrirspurn um nokkur atriði, sérstaklega um það, hvernig, stæði á því, að í 4. gr. frv. um stríðsgróðaskatt er aðeins bannað að leggja tekjuútsvör á þann hluta gjaldanna, sem er yfir 200 þús. kr., en ekki útsvör yfirleitt. Það er af því, að við samningu þessa frv. þótti ekki fært að ganga lengra í því að binda hendur sveitarfélaga heldur en um það að leggja tekjuútsvör á þennan hluta. Hitt er annað mál, að ég fyrir mitt leyti hef lýst yfir því, að ég geng út frá því, að bæjar- og sveitarfélög mundu hliðra sér hjá því að leggja á rekstrarútsvör, sem notuð hafa verið á undanförnum árum, enda munu þau ekki hafa þörf fyrir það, eins og verið hefur.

Sami hv. þm. (GÞ) fann líka að því, að með þessu fyrirkomulagi mundi verða stuðlað að því, að sveitarfélög fengju þennan hluta tekjuskattsins sem aukatekjur, og vitnaði til þess, sem ég hafði sagt um þetta, að árið 1941 mundu þessar tekjur hafa orðið aukatekjur fyrir sveitarfélögin. Og það var alveg rétt. Hitt er svo annað mál, hvort það verður talið fært að taka það sem aukatekjur einnig í framtíðinni. Ég hef gengið út frá því, að það yrði meira eða minna reiknað með þessum tekjum í fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna. En úr því sker reynslan væntanlega, hvort það verður talið. nauðsynlegt, vegna þess að nauðsynlegra tekna verði ekki aflað með álagningu á þær tekjur, sem eru frjálsar til álagningar, og verði þess vegna að taka einhvern hluta stríðsgróðaskattsins til venjulegra ársútgjalda. En þó að svo yrði, að bæjar- og sveitarfélög gætu tekið þennan hluta stríðsgróðaskattsins sem aukatekjur, er meiningin, að þau safni í sjóð á sama hátt og gert er ráð fyrir um ríkissjóð viðkomandi stríðsgróðaskattinum, því, sem inn kemur af honum fram yfir árlega eyðsluþörf. Og þar sem svo er, þá sé ég ekki annað en það sé réttlætanlegt alveg á sama hátt eins og það mun líka vera talið réttlætanlegt, að ríkissjóður safni þannig í sjóð til erfiðari ára. Það yrði þá vitanlega til þess, að skemmra þyrfti að ganga í álagningu á gjaldendur til sveitarfélaganna, þegar harðnar í ári. Og að því leyti mætti líta á það sem sjóðsöfnun gjaldenda til sveitaþarfa, og því hægt að ganga vægilegar að þeim á erfiðari tímum, auk þess sem á slíkum tímum yrðu e.t.v. óviðráðanlegir erfiðleikar á því að afla sveitarfélögunum þess fjár, sem þau þá þyrftu.

Sami hv. þm. (GÞ) spurði um það, hvernig stæði á þeim geysimun, sem gerður væri á sveitarfélögum í 2. gr. þessa frv. og sýslu- og bæjarfélögum í 3. gr. En það liggur í því, að í 2. gr. þýðir orðið sveitarfélag bæjar- eða hreppsfélag; það er sameiginlegt heiti fyrir bæjar- og hreppsfélögin að kalla þau sveitarfélög. Og hv ort sem það er bæjarfélag eða hreppsfélag, þar sem skatturinn er á lagður, á það að fá þennan hluta stríðsgróðaskattsins, sem um gefur í 2. gr. Hins vegar er í 3. gr. ekki hægt að nota orðið sveitarfélag í staðinn fyrir sýslu- og bæjarfélög, vegna þess að þar er til þess ætlazt, að þau 5%, sem þar um ræðir, skiptist á milli bæjar- og sýslufélaga, en ekki hreppsfélaga. Annars er þetta sett hér inn samkv. samþykkt síðasta Alþ., að sýslufélög, — þar sem einhver stríðsgróðaskattur fellur til —, skyldu fá til skipta 6% af stríðsgróðaskattinum, sem til fellur í landinu. Og þótti sýnt, að eins og þetta var sett í l. í fyrra, þá yrði einnig að setja það í l. nú, þó að það væri ekki þannig úr garði gert frá ríkisstj. hendi.

Hv. 7. landsk. gerði fyrirspurn viðvíkjandi 2. gr. frv. um tekjuskatt og eignarskatt, hvort það væri ekki rétt skilið hjá honum, að þarna væri um tvísköttun að ræða. Og þessi hv. þm. taldi, að þarna væri stofnað til tvísköttunar. En svo er ekki, því að slík tvísköttun, sem þarna er um að ræða, er á öllum fyrirtækjum. Ef fyrirtæki úthluta arði fram yfir 5% af stofnfé til hluthafa, þá verða þeir, sem fá það greitt, að borga skatt af því, sem er fram yfir 5%. En þetta er í samræmi við gildandi reglur um þetta. Og hv. þm. veit, að afstaðan hefur verið þannig í þinginu, að það hefur ekki náðst samkomulag um neina breyt. á þessu fyrirkomulagi.

Hv. 4. þm. Reykv. (EOl) sló á trumburnar og sagði, að með þessu frv., sérstaklega með ákvæðum 4. gr., væri verið að tryggja stórútgerðarvaldið fyrir álagningarrétti sveitarfélaganna. Og þessi hv. þm. talaði um þessa stríðsgróðaskattslöggjöf, eins og hún ætti að vera frambúðarlöggjöf. En það er ekki gert ráð fyrir því, að svo verði. Þess vegna er heldur ekki um það að ræða, sem hann gerði ráð fyrir, að þetta eigi að vera framtíðartrygging fyrir neinn aðila. Það er aðeins á meðan samanlagður tekjuskattur og stríðsgróðaskattur nemur 90% af tekjum yfir 200 þús. kr., að óheimilt er að leggja tekjuútsvör á þann hluta af hreinum tekjum, sem eru umfram 200 þús. kr. Þetta er aðeins bráðabirgðaákvæði, en engin framtíðartrygging eins og hv. þm. talaði um.

Það má náttúrlega deila um það, hvaða ástæða sé til þess að heimila atvinnufyrirtækjum að tryggja rekstur sinn í framtíðinni. Hér er lagt til, að þau fái skattfrjálsan 1/2 hluta tekna sinna. Eins og umr. bera með sér, er litið mjög misjöfnum augum á það, hve langt eigi að ganga í því efni. Sumir telja of skammt farið, aðrir allt of langt. Og af því mætti ráða, að það mun vera erfitt að gera öllum fullkomlega til hæfis í því efni. Ég skal fúslega játa fyrir mitt leyti, að ég er með þeim flokki manna, sem telur full skammt gengið í því að tryggja framtíðarrekstur fyrirtækja með því að ákveða þeim aðeins 1/3 teknanna skattfrjálsan eins og gert er ráð fyrir í frv., en það sé sízt of mikið.

Hv. 5 þm. Reykv. (SK) setti upp dæmi af útgerðarfyrirtæki á borð við Eimskipafélag Íslands, sem hefði 7 skip í rekstri og mundi fá 4 millj. kr. afgangs sem hreinar tekjur, og um 1 millj. kr. skattfrjálsar tekjur. Það er að að vísu svo, að það félag hefði skattfrjálsan l~i hluta teknanna. Og hv. þm. gæti hafa misreiknazt sá gróði, sem slíkt félag mundi hafa í árferði eins og nú, þannig að það yrði nokkru meira til þess að tryggja með rekstur sinn í framtíðinni en hann gerði ráð fyrir. En þó að slíkt félag hefði 1 millj. kr. til þess að leggja í varasjóð og nýbyggingarsjóð, mundi það ekki hossa hátt til þess að endurnýja skipastól þess að stríðinu loknu.

Svo skal ég vekja athygli á því, að þar sem hv. þm. hefur slegið á þá strengi, að þessi skattfrjálsi hluti teknanna ætti að vera til frjálsrar ráðstöfunar fyrir félög og hluthafa þeirra, þá fer því fjarri, að svo eigi að vera. Helmingnum af þessu er ráðstafað í nýbyggingarsjóð, sem ekki má verja til annars en til nýbygginga á útgerðarfyrirtækjum. Og auk þess eru mjög strangar reglur um það, hvernig með allar eignir varasjóðs skuli farið.