08.04.1942
Neðri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil fyrst segja það um 2. gr. í tekjuskattsfrv., sem hv. 7. landsk. (GÞ) gerði að umræðuefni, að það er ekki gert ráð fyrir, að í þeirri gr. sé neitt nýmæli frá því, sem er í gildandi 1. Ég hef skilið gildandi l. um þetta efni þannig, svo að ég taki dæmi, að þegar félag væri leyst upp og fé útborgað úr félaginu, sem græðzt hefði, þá væri skattskylt það fé, sem hluthafi fengi út úr fé, laginu umfram upphaflegt hlutafjárframlag. Það stendur í gildandi l., að skattskyldur sé sá arður, sem félag greiðir umfram upphaflegt hlutafjárframlag. Og þegar ég var skattstjóri, þá var þessu hagað á þá lund. Og því hef ég litið svo á, að það skipti ekki máli, þó að hlutabréf gengju kaupum, og sölum. Bréfin ganga kaupum og sölum með upphaflegri skattkröfu á. Til þess að gera þetta ljóst orðað í l. var þarna bætt við orðunum „nafnverð hlutabréfanna“ í staðinn fyrir, að áður stóð aðeins „umfram upphaflegt hlutafjárframlag“. Ef þetta væri ekki tvímælalaust, þá mætti kannske hafa það þannig, að menn þyrftu ekki að borga skatta af þessum arðsútborgunum, og þá væri það sama sem að nema það burt, að hlutafjárarður yrði skattskyldur yfirleitt, því að þá væri ekki annar vandinn til þess að komast hjá skattinum en að selja hlutabréfin með skinsölu til annars manns áður en félagið væri leyst upp, og þá væri alveg gengið á snið við ákvæði skattal. um að hlutafjárarður skyldi skattskyldur. — Hér er aðeins gert skýrara orðalag.

Eftir íslenzkri löggjöf hafa tekjur, sem hlutafélag hefur grætt, alltaf verið tvískattaðar, ef þær hafa gengið frá félagi til eiganda hlutafjár, það sem þannig hefur verið greitt umfram 5%. Og þessi tvísköttun kemur að nokkru leyti á móti þeim sérhlunnindum, sem hlutafélög hafa.

Það hefur verið rætt nokkuð um það hér, bæði af hv. 4. þm. Reykv. (EOl) og hv. þm. Seyðf. (HG), að með þessari löggjöf væri tekin upp algerlega ný regla í þá átt að binda hendur bæjar- og sveitarfélaga meir eimerið hefur, og eins og hv. 4. þm. Reykv. orðaði það, að gera útgerðarvaldið skattfrjálst. Þetta mun nú meira vera meint sem orðaleikur að því leyti, að gjöldin, sem lögð eru á stórútgerðina, eru ekki kölluð í þessu frv. útsvör. Þau eru kölluð stríðsgróðaskattur. Þetta er vitaskuld orðaleikur, því að með þessum l. eru útsvörin að verulegu leyti felld inn í stríðsgróðaskattinn. Svo geta menn hins vegar deilt um það, hvort skalinn sé hæfilega hár.

Nú var um tvennt að velja, þegar ákveða átti hvernig skattskylda skyldi stríðsgróðann, annars vegar að ríkisvaldið liti aðeins á ríkissjóðinn sjálfan og setti skattalöggjöf, sem einungis væri miðuð við það, hvað ríkissjóður vildi fá af stríðsgróðanum handa sér, og þá væri skattstiganum hagað þannig, að, bæjar- og sveitarfélög hefðu frjálsar hendur til að leggja á útsvör. Þetta hefði þýtt það, að skattstiginn hefði ekki getað gengið nema upp í 50%–60% af gróðanum. Mér er hins vegar óhætt að segja, að allir þeir, sem athuguðu þessi mál í fyrra, komust fljótlega að þeirri niðurstöðu, að þessi afgreiðsla væri óviðunandi, og það þegar af þeirri ástæðu, að bæjar- og sveitarfélögum væri ekki treystandi til þess að taka í sinn hlut það af stríðsgróðanum, sem þau ættu að gera. Sum bæjarfélög kannske, af því að þau hefðu ekki vilja á því, en önnur bæjar- og sveitarfélög, af því að þau hefðu ekki tök á því eftir gildandi l. Þar, sem útgerðarfélög eiga heima í þorpum, gæti þörfin fyrir útsvör verið svo lítil, að álag á stríðsgróðann gæti orðið sáralítið, og þar slyppu stórgróðamenn því betur en annars staðar. Verulega mikill hluti stríðsgróðans hefði þannig með því fyrirkomulagi legið algerlega á lausu án þess að geta verið tekinn. En samkv. útsvarsl. mega sveitarfélög ekki leggja meira á í útsvörum en eftir útgjaldaþörf. Þess vegna,, þar sem lítil þörf er á útsvörum vegna útgjaldaþarfa í bili, en gífurlegur gróði, var þeim fyrirmunað að leggja útsvör á stríðsgróðann, svo sem þyrfti. Og því varð Alþ. að taka þetta mál að sér að ákveða, hve mikið yrði tekið af stríðsgróðanum. Á síðasta þingi voru sett l. um stríðsgróðaskatt og þá gert til þess að tryggja 15% álag á tekjur yfir visst mark, til þess svo að skila til sveitarfélaga nokkrum hluta stríðsgróðaskattsins. Nú var spurningin: Átti að tryggja jafnt álag á stríðsgróðann, hvar sem er á landinu? Þá varð ofan á, að höfð væri sú aðferð, að sameina skattstiga ríkis og bæjar- og sveitarfélaga á hæstu tekjur, til þess að þær væru ekki látnar leikalausum hala. En svo er hv. 4. þm. Reykv., eftir orðum hans að dæma, áhyggjufullur yfir því, að þarna sé verið að takmarka rétt bæjar-. og sveitarfélaganna. En nú er þess að gæta, að þarna stendur í frv.: „Meðan ákveðið er í lögum, að greiða skuli 90% — níutíu af hundraði — samtals í tekjuskatt og stríðsgróðaskatt af skattskyldum tekjum yfir 200 þús. krónur, er óheimilt að leggja tekjuútsvör á þann hluta af hreinum tekjum gjaldenda, sem er umfram 200 þús. krónur.“ Við hv. 4. þm. Reykv. gætum, vænti ég, orðið sammála um það, að bæjar- og sveitarfélög gætu varla riðið feitum hesti frá því að eiga að taka útsvör af þessum 10%, sem eftir eru, þegar hin 90% eru tekin.

Ef hér er um ágreining að ræða, þá hlýtur hann að vera um það, hvort það sé réttmætt að hafa varasjóðshlunnindin eins og þau eru ákveðin í frv. og hvort það sé réttlátt, að bæjarfélögunum sé varnað að leggja útsvör á þessi varasjóðshlunnindi. Þetta er eina atriðið, sem er til athugunar og mismunandi skoðanir eru um, hvort þessi varasjóðshlunnindi séu hæfilega metin. Hitt skulum við ekki fara í orðaleik um, hvort það sé skerðing á rétti bæjarfélaga og sveitarfélaga, að þau megi ekki eltast við þessi 10%, sem eru eftir skilin af hátekjunum. Það getur verið stigmunur á skoðunum manna í því efni, hve langt eigi að leyfa félögum að ganga í því að leggja fé til hliðar í varasjóði, þannig að það sé skattfrjálst. Þarna hefur verið gert ráð fyrir því, að útgerðarfélög megi leggja til hliðar 33% af tekjunum — áður var það 50% sem skattfrjálst í varasjóði. Ég hygg nú, að þau hlunnindi eftir þessari löggjöf, sem félög fá, séu verulegum mun minni heldur en samkv. þeim l. um þetta, sem nú eru í gildi, er sett voru í fyrra. Og mér finnst hæstv. Alþ. vera vorkunnarlaust að gera það upp við sig, hvað það telur, að stríðsgróðaskatturinn eigi að vera og hve miklar undanþágur eigi að veita viðvíkjandi varasjóðunum; og síðan eigi ríkið að skila til sveitar- og bæjarfélaganna hæfilegum parti af þeim álögum, sem það telur, að þurfi á að leggja.

Ég held, að það sé fjarri sanni, að réttur bæjar- og sveitarfélaga sé fyrir borð borinn með þessu frv., því að þeim eru ætluð 45% af öllum skattinum, sem fæst yfir 22% af skattinum. Og svo hafa þau náttúrlega möguleika til þess að leggja eignaútsvör á allar eignir, svo og allar tekjur undir 200 þús. kr. og möguleika til þess að leggja rekstrarútsvör á fyrirtæki, ef hitt ekki hrekkur. Bæirnir og sveitarfélögin hafa því mikla álagningarmöguleika enn.

Svo kemur ágreiningurinn um skattfrelsið í sambandi við varasjóðina. En þegar tekið er tillit til þarfa félaga til þess að leggja í varasjóði og nýbyggingarsjóði og þess, hve miklu dýrara verður að byggja skip eftir stríðið en verið hefur fyrir stríð, þá held ég, að við munum hika við að hafa þau hlunnindi öllu minni heldur en gert er hér ráð fyrir.

Við höfum haft tvö stríðsgróðaár. Fyrra árið var mönnum leyft að leggja til hliðar af ársarði félaga í varasjóð með skattfrjálsum helmingi þeirrar upphæðar. En þú er hér till. um, viðkomandi síðara árinu, að sum félög hafi skattfrjálsan hluta af varasjóðstillaginu, sem nemi 1/5 af tekjunum, en önnur, sem nemi 1/3 af tekjunum. Ef þetta þykir ekki rétt, kemur til álita, hvort ekki eigi að takmarka þessi hlunnindi meira, ef mönnum þykir félögin nægilega sterk til að taka því, sem búast má við eftir styrjöldina.

Þegar hv. þm. Seyðf. talaði hér áðan, var hann hryggur yfir því, að þó að skattarnir hækkuðu þarna, þá væru lækkuð útsvörin. Ég get ekki annað, þegar ég heyri menn tala svona um þetta, en sagt það, að það er ekki hægt að taka sömu peningana tvisvar, bæði sem útsvar og skatt. Og það er ekki nema orðaleikur að tala um, að stórt fyrirtæki sé útsvarsfrjálst. Þetta, sem með stríðsgróðaskattinum á eftir frv. að taka fyrir bæjar- og sveitarfélögin, heitir reyndar skattur, en ekki útsvar, — það er satt. En um það getur ekki verið ágreiningur, að það er sama, hvort þetta, sem tekið er sem stríðsgróðaskattur fyrir bæjar- og sveitarfélögin, er kallað skattur eða útsvar.

Viðvíkjandi því, hvort skattar eru meiri eða minni eftir þeim till., sem hér liggja fyrir eða gildandi l., þá hafa verið færð fram ýmis dæmi, og aðallega hafa menn þá rætt um hærri tekjurnar. Ég sýndi fram á, að vegna þess að tekin er upp ný aðferð í þessum málum, þá margfaldast skatturinn á hærri tekjunum. Og því skulu menn gera sér grein fyrir nú, sem mér virðist menn leggja lítið upp úr í þeim umr., sem fram hafa farið, að samkv. þeirri aðferð, sem notuð hefur verið hingað til, en ekki verður framvegis, þá var aldrei hægt að skattleggja stórgróða, ef hann stóð frá ári til árs, hærra en 50%. Þó að skatturinn hefði verið settur upp í 100% af tekjunum„ þá var hann dreginn frá hitt árið, svo að það var ekki hægt að leggja á nema sem svaraði 50% af tekjunum bæði með skatti og útsvari samanlagt.