08.04.1942
Neðri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Garðar Þorsteinsson:

Hæstv. viðskmrh. sagði, að þær umr., sem hér hefðu farið fram, mundu hafa verið nokkuð þokukenndar og sumt af þeim kannske lítt skiljanlegt. Þetta kann vel að vera. En ég held, að hæstv. viðskmrh. hafi talað þokukennt, a.m.k. um eitt atriði, 90% skattinn á tekjur yfir 200 þús. kr. Hann sagði, að það þyrfti enginn að hugsa sér, að bæjar- og sveitarfélög færu að „fitla“ við þessi 10%, sem eftir væru af tekjunum, þegar 90% af þeim hefðu verið tekin í skatta. Verður að skilja það þannig, að hann telji, að samanlögð álagning á tekjur, hærri en 200 þús. kr., hvort sem það heitir skattur eða útsvar, eða það samanlagt, eigi undir engum kringumstæðum að vera meiri en svo, að skattþegnar hafi eftir þessi 10%. Nú segir hæstv. viðskmrh. hins vegar, að ríkisstj. hafi ekki treyst sér til að binda hendur bæjar- og sveitarfélaganna meira en svo að miða þetta við tekjuútsvar. M.ö.o., hann segir, að bæjarfélögin og sveitarfélögin megi ekki leggja tekjuútsvar á þennan 10% hluta teknanna, en bætir því við, að möguleiki sé fyrir þau að leggja á eignarútsvar og rekstrarútsvar. En eru bæjar- og sveitarfélögin þá ekki farin að fitla við þessi 10%, sem þau mega ekki leggja tekjuútsvar á? Nú veit hæstv. ráðh., að félög, sem græða nokkur hundruð þús. kr. á ári, skila efnahagsreikningum, sem sýna svo og svo mikla eign. Og þegar búið er að leggja eignarútsvar á þá eign, þá skilst mér, að það geti farið svo, að farið sé meira en að „fitla“ við þessi 10%, heldur séu þau tekin hreint og beint með þessum útsvörum.

En ef hæstv. viðskmrh. hefur álitið, að undir engum kringumstæðum ætti að ganga lengra í skatta- og útsvarsálögum en svo, að gjaldendur ættu að hafa eftirskilin þessi 10% af tekjunum — vill þá hæstv. viðskmrh, ekki koma með ákvæði í frv., sem útiloka frekari álagningu? Þegar þessum till. var lýst fyrir mér, þá skildist mér, að ekki væri hægt að leggja á, hverju nafni sem nefndist, meira en sem svaraði 90% af tekjunum á tekjur yfir 200 þús. kr., og skildist mér þetta líka á hæstv. viðskmrh. áðan. En hann dró úr því og hvarf frá því að lokum. En mér virðist fjarstæða að ætlast til þess, að félag, sem hefur mikinn rekstur, er kannske skuldugt og hefur mikla áhættu, sé látið sæta því, að tekið sé af því meira en 90% af hreinum tekjum þess. Og það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að menn verða að gera sér það ljóst, að samkv. gamla fyrirkomulaginu, þegar frádráttarreglan var höfð, var aldrei hægt að taka meira en 50% af tekjunum í skatt og útsvar samanlagt til jafnaðar á ári. Nú er eftir frv. skattur og útsvar ekki frádráttarhæft. Afleiðingin er sú, að aðstaða þeirra, sem við þessi l. eiga að búa, verður margfalt verri heldur en áður var. Og ég hef skilið það þannig, að skattar, hverju nafni sem nefndust, ættu ekki að hækka úr 90% af tekjum yfir 200 þús. kr. Ég hef skilið það þannig, að skatturinn ætti ekki að vera hærri, en það kann að vera misskilningur. Samkv. gömlu l. átti stríðsgróðaskatturinn að vera 75%, en nú á að taka 90% af því, sem er frádráttarhæft. Þetta kemur að sjálfsögðu sérstaklega óeðlilega hart niður á félögum, sem hafa haft lítinn skatt árið áður. Ég skal nefna dæmi um fyrirtæki, sem á árinu 1940 hafði eftir af tekjum sínum 136 þús. kr„ þegar það hafði greitt tekju- og eignarskattinn. 1941 græðir þetta félag 210 þús. kr., þegar frá var dreginn skattur, 170 þús. Það hafði sem . sé 380 þús. kr. brúttótekjur árið, sem leið. Með þeim sköttum, sem nú eru á lagðir, á það að borga samtals 344 þús. kr., m.ö.o., ef félagið yrði gert upp á þessu ári, þá yrði það nærri eignalaust. Ég er ekki að segja, að þessi yrði útkoman hjá öllum félögum, en sjálfsagt verður þetta niðurstaðan hjá þeim, sem ekki hafa lagt í varasjóð.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði í sambandi við 7. gr. frv., þá vil ég taka það fram, að mér finnst alveg óþarfi að vera að setja þessa viðbót. Mér hefur t.d. verið sagt það af skynugum manni frá skattstofunni, að af skattayfirvöldunum hefði þetta orðalag verið skilið þannig, að það ætti að miða við kaupverð bréfanna í landinu. Nú vil ég líka benda á það, að þessi bréf ganga kaupum og sölum, og þó að hér sé ekki kauphöll, sem verðleggur bréfin, gera menn sér þó af efnahagsreikningi félaganna grein fyrir raunverulegu verðmæti þeirra. Mönnum dettur ekki í hug, að það eigi að borga skatt af mismunandi nafnverði eða því, sem kemur inn fyrir bréfin. Eðlilegra hefði verið að hækka hlutabréfin í verði, síðan hefði hluthafi borgað skatt af þessari hækkun. Nú skilst mér, að með þessari gr. sé verið að girða fyrir þetta, og ætti hún að lagfæra þetta gamla ranglæti. En hvers vegna er þá verið að setja ákvæði í 2. gr., sem er ekki tvímælalaust? Ég fæ heldur ekki séð, að það sé ekki nægilegt að hafa það ákvæði, sem áður stóð í l., að ef hluthafi á hlutabréfið í 3 ár, megi hann nota verðhækkunina, án þess að borga til skatts. Hvers vegna á hlutabréfshafinn að búa við tvenns konar skatt? Ég skil ekki samræmið í þessu, en mér finnst, að aðalatriðið ætti að vera það, að þess sé gætt, að framfylgt sé þeim skattaákvæðum, sem gilt hafa í þessu efni, en sé enga ástæðu til þess fyrir löggjafann að setja ný ákvæði um þetta efni.