20.04.1942
Neðri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Emil Jónsson:

Ég gat þess við 1. umr. um tekjuskattsfrv., að mér þætti gengið nokkuð nærri bæjar- og sveitarfélögunum með þessum frv. Hv. fjhn. hefur að nokkru leyti tekið undir þetta og hækkað þann hluta, er bæirnir mega fá af stríðsgróðaskattinum. Þeir fá nú 662/3 % í stað 40% áður. Ég hef þó leyft mér að koma með brtt. á þskj. 204, er gengur heldur lengra en till. hv. fjhn.

Vil ég nú taka dæmi máli mínu til sönnunar, og vel ég Hafnarfjörð, en þar er ég málunum kunnugastur. Áætluð útsvör í Hafnarfirði eru nú 1,5 millj. kr., og sýnir það, að bæjarbúar hafa ekki ætlað sér að skjóta sér undan útsvari, því að útsvarsupphæðin hefur sexfaldazt síðan 1940. Stafar það af því, að undanfarið, fyrir stríðið, gat útgerðin ekki greitt há útsvör, og hefur bærinn þess vegna safnað skuldum. Þess vegna er það nú yfirlýstur vilji bæjarstj. að leggja á svo há útsvör, að bærinn greiði upp skuldir sínar. Þessi upphæð, 1.5 millj. kr., er að mestu leyti lögð á útgerðarfélögin. Ég gæti hugsað mér, að 2/3 hluta bæri útgerðin, en almenningur 1/3. Stríðsgróðaskattur er áætlaður 300 þús. kr. Útsvar og stríðsgróðaskattur nema því samtals 1.8 millj. kr. Samkv. þessum l. er ekki hægt að leggja svona mikið á útgerðarfélögin. Við lauslega athugun sýnist mér það ekki vera meira en 1/2 millj. Það vantar því 1/2 millj., og verður hún að fást með stríðsgróðaskatti. Það þýðir, að við verðum að gera ráð fyrir, að stríðsgróðaskatturinn nemi 800 þús. kr. eða 80% af útsvörunum. Þetta kemur bænum og niðurjöfnunarnefnd í meiri vanda, því að útsvörin eru ákveðin nákvæmlega í fjárhagsáætluninni, en þegar um þetta er að ræða, er það meira undir hælinn lagt, hve miklar tekjur bærinn fær. Tekjuöflunarkerfi bæjarins er í meiri óvissu. Þegar líður á árið, sést þetta betur, og möguleikar eru á því að færa á milli útsvars og stríðsgróðaskatts, en þetta er því aðeins hægt, að bærinn hafi þar um óbundnar hendur. Það er því nauðsynlegt, að ekki sé ákveðið fyrirfram, hve stríðsgróðaskatturinn má vera mörg % af útsvarsupphæðinni. Ég vil þess vegna mælast til, að þessi till. verði samþ., enda gerir hún engan skaða fyrir neinn, en gerir bæjunum mögulegra að standa við fjárhagsáætlun sína.

Það eru fleiri atriði í þessum l., sem þyrfti að athuga nánar, t.d. ef í sömu sveit eru 2 togarafélög, annað hefur 1 togara, en hitt 2–3, og jafnar tekjur séu á hvert skip. Nú má ekki leggja á nema fyrstu 200 þús. kr. hjá hvoru þeirra. Virðist því félagið með 3 togara bera sama útsvar og félagið með 1 togara. En til þess að jafnt sé greitt, verður mismunurinn á stríðsgróðaskattinum að vera jafnmikill. En það er alls ekki víst. Það hefur heyrzt hér í deildinni, að ef þetta atriði yrði gefið frjálst, gætu sum bæjarfélög sloppið við að leggja á útsvar. Þetta er ekki rétt. Allir bæir í landinu hafa nóg með sínar tekjur að gera. Þeir fá að vísu miklar tekjur í bili, en þeim veitir ekki heldur af því að fá fjárhag sinn bættan.

Ég fer nú ekki að sinni frekar út í frv. hér, en vil mælast til þess, að brtt. mín verði samþykkt.