20.04.1942
Neðri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Jón Pálmason:

Mér þykir hlýða að segja nokkur orð við þessa umr., enda þótt ágreiningur sé ekki mikill.

Mér virðist hér vera komið svo langt í skattakröfum, að furðu gegnir, að hv. þm. Seyðf. skuli leyfa sér að fara fram á meira. Þessi hv. þm. er kominn lengra í skattkröfum sínum en að taka 100% af skattskyldum tekjum, hefði verið miðað við frádráttarregluna. Þegar það er athugað, að ef skattar og útsvör frá f. á. voru dregnir frá, er ekki eftir meira en til þess að fullnægja kröfunum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Breytingin á frádráttarreglunni orkar mjög tvímælis, en að svo komnu máli þýðir ekki að fást um það. En þegar svona langt er komið, gegnir furðu, að hv. þm. Seyðf. skuli fara fram á, að 4. gr. sé niður felld. Það, sem þessi hv. þm. sagði, að bæirnir væru sviptir rétti til þess að leggja útsvar á tekjur, er fara fram úr 200 þús. kr., er ekki rétt nema að nokkru leyti. Það er til heimild til þess að leggja á eigna- og veltuútsvar. Það er líka rangt hjá honum, að ósamræmi sé í skattaálagningunni á almenning. Sveitar- og bæjarfélögin fá 45% af stríðsgróðaskattinum. Ég geri ekki ráð fyrir því, að útsvarsupphæðin verði það há, að meira en 45% verði tekið af neinum borgara af tekjunum. — Það er því fjarstæða að afnema takmörkunina í 4. gr.

Varðandi brtt. hv. 7. landsk., þá fæ ég ekki betur séð en nægilega vel sé séð fyrir rétti sveitar- og bæjarfélaga með þeim brtt., sem hv. fjhn. hefur lagt fram. — M.ö.o., hér ber allt að sama brunni. Ég tel fjarstæðu að afnema takmarkanir 4. gr. þessa frv. Ég hef enn ekki tekið ákvörðun um brtt. fyrir 3. umr., en ég vænti þess, að háttv. þm. verði sammála breytingu þeirri, er meiri hluti fjhn. leggur nú með á 2. gr. þessa frv. og sammála um að fella brtt. þá, er háttv. 6. landsk. ber fram við sömu gr.