20.05.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (1248)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta mál var lagt fyrir búnaðarþing í vetur, og er nú gerð þál. um sama efni hér. Þegar Ísland og Stóra-Bretland gerðu með sér viðskiptasamning eftir hernámið, þá var það einn liður í þeim samningi, að Bretland skyldi leggja fram nokkurt fé til uppbótar á þær útflutningsvörur landsins, sem markaðir væru lokaðir fyrir til fulls. Nú varð sú niðurstaðan við úthlutun þessa fjár, að það hefðu verið nær eingöngu bændur, sem hefðu orðið fyrir barðinu á þessum markaðstöpum, og fé, sem Bretar lögðu fram í þessu skyni, var um 5 millj. kr. Af því fóru um 4 millj. til verðuppbóta á landbúnaðarafurðir. Það er óhætt að segja, að þessi uppbót gerði sitt til þess, að afkoma landbúnaðarins varð þolanleg á því ári. Nú liggur ekkert fyrir um það, að slíkar uppbætur fáist fyrir framleiðslu ársins 1941 frá Bretum, en hins vegar er það kunnugt, að nokkuð mikill hluti af útflutningsvörum landbúnaðarins er enn óseldur, og er ekki vitað, hvaða verð verður á þeim vörum. Hér er um svo háar upphæðir að ræða, að það verður ekki dregið lengur að veita bændum eitthvert öryggi um það, hvaða endanlegt verð þeir fá fyrir framleiðslu sína á árinu 1941. Nú er komið fram á árið 1942, og er eðlilegt, að bændur verði tregir til að stofna til kostnaðar vegna framleiðslunnar, ef þeir vita ekkert um það, hvaða verð verður á afurðum þeirra frá s.l. ári, hvað þá fyrir þetta ár. Nú sem stendur virðist því eðlilegt, að hæstv. Alþ, taki þetta mál fyrir og veiti framleiðslunni til sveitanna nokkurt öryggi. Eftir upplýsingum um sölu á framleiðsluvörum bænda á árinu 1941, er álitið, að nær allt kjöt muni vera selt, og a.m.k. má gera ráð fyrir því, að það muni seljast innanlands. En geymsla á kjötinu innanlands hefur alltaf í för með sér aukakostnað, þar sem þá verður að flytja kjötið langar leiðir á milli frystihúsa, til þess að unnt sé að geyma það. Hins vegar er það að segja um gærur, að aðeins helmingur af þeim er seldur fyrir sæmilegt verð, eða 4.25 f. u. b. Það hefur verið reynt að selja afganginn, og hefur hann verið boðinn út fyrir 3.55 kg, en sala hefur ekki tekizt enn, en samkv. þeim markaði, sem nú mun vera fáanlegur, er von um að geta selt gærurnar fyrir 2.00 kg, og er það tæplega hálfvirði á við það, sem búið er að selja. Ég skal geta þess, varðandi sölu á gærum, að sums staðar hafa komið fram skemmdir á þeim, sem ekki hefðu komið til greina, ef hægt hefði verið að selja þær strax í haust, og ætti því að taka tillit til þess, ef þáltill. yrði samþ., hversu miklu tjóni framleiðslan hefur orðið fyrir vegna skemmda, sem stafaði af þessum söludrætti. Garnir verkaðar á s.l. ári hefur enn ekki tekizt að selja, en verð á þeim var, samkv. verðskrá á s.l. ári, kr. 2.20 kg, en það mun vera mögulegt að selja þær fyrir 1.20 kg. Ullin er með öllu óseld enn, þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir í þá átt. Það hefur verið gerð tilraun til þess að fá markað fyrir hana í Englandi og Bandaríkjunum, og um tíma leit svo út sem unnt mundi að selja hana til Rússlands, en það virðist nú svo sem sú sala hafi strandað. Það er að vísu hægt að selja ullina til Bandaríkjanna fyrir verð, sem svarar til kr. 5.50 fyrir kg af fyrsta flokks ull, en það verð er of lágt til þess, að mögulegt sé að taka því, án þess að uppbætur komi einhvers staðar frá. Þessum tilraunum verður haldið áfram, og getur vel verið, að betur rætist úr, en okkur flm. virðist, að það þurfi að veita bændum meira öryggi um verð á þessum vörum en verið hefur.

Ég skal geta þess, að sú hugmynd hefur komið fram frá framkvæmdastj. S.Í.S., Jóni Árnasyni, að það gæti komið til mála, að ríkið keypti alla ullina, sem nú liggur fyrir og geymdi hana fram yfir stríð. Það mun vera til húsakostur, þar sem hægt væri að geyma alla ullarframleiðslu ársins. Líkur eru taldar fyrir því og jafnvel vissa, að eftirspurn muni verða eftir ull að stríðinu loknu, og það mundi því vera hættulaust fyrir ríkið og jafnvel hagnaður að geyma ullina. Það hefur verið talað um það, að rétt mundi vera að auka innflutning á vörum til landsins, og það jafnvel vörum, sem eru ekki bráðnauðsynlegar, til þess að binda þannig eitthvað af þeim verðmætum, sem við eigum erlendis. Þetta, ef ullin yrði keypt af ríkisins hálfu og geymd, yrði há sams konar ráðstöfun, sem sé að geyma þær innieignir, sem ella mundu safnast erlendis. Ég skýt þessu fram til athugunar.

Ég skal að lokum geta þess, að ef miðað væri við það verð, sem nú er hægt að fá fyrir þessar vörur í Bandaríkjunum, mundi uppbótarþörfin samkv. þáltill. verða 21/2–3 millj. kr., og er þar miðað við svipað verð og fékkst fyrir framleiðslu ársins 1940, að viðbættri dýrtíðaraukningu.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en vil vænta þess, að hæstv. Alþ. taki þessari þáltill. með skilningi.