22.05.1942
Sameinað þing: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (1255)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Meiri hl. fjvn. taldi rétt að afgreiða þessa till. til þál., enda hefur hæstv. ríkisstj. lýst yfir því, að hún vilji verðbæta afurðir landbúnaðarins.

Nú liggur fyrir bændum að fá til sín fólk, og fer eftir því, hvernig það gengur, fjöldi búpenings næsta sumar og vetur, en ég vona, að úr þessu rætist.

Aftur var það, get ég tekið fram, að önnur till. lá fyrir n., en var ekki eins aðkallandi og gat beðið næsta þings, en nauðsynlegt var að afgreiða þessa till. strax. Um leið og hún er afgreidd, er rétt að athuga, hve miklu verðuppbæturnar muni nema. Um það er allt í vafa, en þó eru líkur til að fara eftir. Hér eru ýmsar leiðir með afurðasölu, og fer það mikið eftir sölu landbúnaðarafurðanna frá 1941, hve háa uppbót þarf að greiða.

Gærur voru árið 1940 um 11/2 millj. kg, og svipað mun verða 1941. Eftir verðlagi 1940 og því, sem gærur frá 1941 hafa verið seldar fyrir, eru ekki líkur til, að bæta þurfi þær meir en 50 aura pr. kg, eða um 7–8 hundruð þús. kr. Aftur leikur á tveimur tungum með ullina. Sumir búast við að fá kr. 8.00 pr. kg. af henni, og gangi maður út frá því, þarf ekki nema aðeins 360 þús. kr. til þess að bæta þá vöru upp. En gangi maður út frá verði samkvæmt fyrirliggjandi tilboðum, getur farið svo, að verðuppbótin nemi um 2 millj. kr. En ríkisstj. mundi þá fremur kaupa ullina og geyma hana fyrir betri markað, og drægist þá frá uppbótinni sá gróði, er kæmi fram við það, er mundi verða hátt á aðra milljón kr. Verðuppbót á ull getur því hlaupið frá 1 milljón upp í allra mest 21/2 millj. kr.

Ég hef ekki reiknað út uppbót fyrir minni háttar vörur.

Ég tel nauðsynlegt að tryggja þetta, svo að bændur fái að vita, hvaða styrk þeir fá sem uppbót frá fyrra ári. Eftir því geta þeir því hagað búskap sínum, tekið fólk og því um líkt, og öllum er nú ljóst, að það er þjóðarnauðsyn, að landbúnaðarframleiðslan sem önnur framleiðsla sé sem allra mest.

Í fáum orðum sagt erum við 6 nm. fylgjandi þessari till., þó, að í stað þess „að fela“ viljum við láta koma „að heimila“ ríkisstj. að veita verðuppbætur. Fjarverandi þm. er einnig samþykkur till.

Ég legg því til f. h. meiri hluta n., að till. verði samþ. með þeirri breyt., er ég hef lýst.