22.05.1942
Sameinað þing: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (1260)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Eins og ég sagði í byrjun máls míns, ætlaði ég ekki að teygja umr. mjög í þessu máli. En það var hv. 5. þm. Reykv., sem mér þótti heldur teygja umr., þar sem hann aðallega fór að tala um aðra till. en þá, sem hér liggur fyrir til umr. og er miklu seinna á dagskránni.

En ég vil taka það fram, út af því, sem hv. 6. landsk. þm. sagði, að um þessa þáltill. varð að hafa hraðan á. Hún var fyrir mjög stuttu komin til fjvn., og annaðhvort var um að gera að afgreiða hana í n. í gær eða láta hana sofna á þessu þingi. En ef tími hefði verið til, þá hefði verið sjálfsagt að verða við till. þessa ágæta manns. En hann sagði, að ekki hefði verið geð tilraun til þess að sanna, að nauðsyn væri á að samþ. nú þessa fjárveitingu, sem hér er farið fram á. Það er nú þvert á móti. Við, sem mælt höfum fyrir þáltill., höfum sýnt fram á, að undir því vær í kominn heyskapur hjá bændum að verulegum hluta, hvernig um þessa þáltill. færi, og um leið, hve mikinn bústofn væri hægt að setja á. Og þetta hefur svo áhrif á það öryggi, sem verða mun um matvælaframleiðslu í landinu, sem ég tel ekki lítil rök fyrir því, að nauðsynlegt og sjálfsagt sé að samþ. þessa þáltill. nú.

Það hefur ekki verið hægt að færa hér fram nákvæmlega, hversu mikið fé ríkissjóður verði að greiða vegna þessarar þál., vegna þess að ekki eru enn seldar allar þær afurðir, sem á að bæta upp verð á. En hitt er það, að ríkisstj. hefur aðeins heimild til að ganga frá þessu máli. Og hún mun, áður en greiddar verða uppbæturnar, athuga þetta allt og láta reikna út kostnaðinn við það áður en greiðslan fer fram.

En um það, sem báðir andmælendur þessarar þáltill. sögðu, þegar þeir báru saman sjávarútveginn og landbúnaðinn, þá getum við nefnt til athugunar því viðkomandi, að nefnd sú, sem skipuð var af fulltrúum atvinnuveganna til að skipta því enska fé, sem kom hér inn í landið og átti að jafna hlut atvinnuveganna, hún sá sér ekki fært annað en að láta það ganga allt til landbúnaðarins. Og það var einnig svo næsta ár á undan. Og ég hygg, að þegar óhlutdræg nefnd hagar þessu svo, þá sýni það, að þetta er réttlátt. Og þó að sjávarútvegurinn hafi ekki alls staðar haft góða útkomu, þá hefur á síðasta vetri bætzt svo hagur útvegsmanna, að nú mundi mörgum bónda þykja það feikna fé, þó að þeir fengju ekki í tekjur yfir árið nema helming af þeim hlut, sem þessir menn hafa fengið aðeins yfir vertíðina. Hér er mikill kjaramunur.

Ég ætla ekki að deila um þessa hluti. En mér finnst þeir menn, sem nú vilja standa á móti því, að þessi þáltill., svo hógvær sem hún er og sennilega ekki mjög fjárfrek, verði samþ., vilji koma fram sem hálfgerðir dragbítar á það að styrkja landsmenn til þess að halda við bústofni sínum og reyna að hafa öryggi í matvælaframleiðslu og matvælaforða innanlands, ef erfiðleikar koma um siglingar.

Ég ætla ekki að fara að gefa tilefni til lengri umr. En ég sé ekki, hver munur er á því að vísu málinu til ríkisstj. og hinu að heimila ríkisstj. að greiða uppbætur samkvæmt þáltill. En mér finnst það hins vegar ekki nema kák að vera endilega að breyta um form á afgreiðslu þessa máls á þann hátt að vísa þáltill. til ríkisstj., sem við vitum, að hún er ákveðin í að framkvæma, þegar hún hefur rannsakað málið. Hins vegar set ég ekki neitt fyrir mig, hvort formið verður á þessu haft.