23.05.1942
Sameinað þing: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (1272)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Emil Jónsson:

Hv. 4. þm. Reykv. spurðist fyrir um það, hvaða skilning bæri að leggja í þessa till., hvort átt væri við þá, sem hefðu aflað fisksins, eða hina, sem seldu hann. Fisksins er aflað að langmestu leyti undir hlutaskiptafyrirkomulagi, og þá eru framleiðendur þeir, sem taka sinn hlut á þessum skipum. Og í till. er vitanlega átt við þá menn.

Þá spurði hv. þm., hve háa upphæð væri um að ræða. Það get ég ekki sagt. Það kostar allmikla vinnu að finna það. En ég býst við, að það geti verið um álíka upphæð að ræða eins og fyrir var í till. og með álíka möguleikum til að breytast eins og þar eru, og innan þeirra takmarka, sem flm. telja fyrir uppbótinni samkv. sinni till.

Hv. þm. Mýr. var að segja, að mín till. væri ekki annað en visst form af neii. Þetta er ekki rétt nema að nokkru leyti. Ég var á móti till. og gerði grein fyrir því. En úr því að hún var samþ., þá finnst mér ekki ósanngjarnt að þetta komi fram líka. Og ég hef fært rök fyrir því, að það er alveg eins mikil ástæða til að taka þessa menn með eins og bændur. En það er rangt, að ég sé alveg á móti því, að bændum sé einhver uppbót greidd, það hef ég aldrei sagt. En ég er á móti því að gera það nú þegar og það á þann hátt að ákveða það áður en maður veit, hve mikillar uppbótar er þörf, þannig að þeir fái fyrst það hæsta verð, sem greitt hefur verið hér á þessu landi, og svo í viðbót fulla uppbót.

Svo sagði hv. þm., að ég hefði kórónað allt þetta með því að koma með till., sem ómögulegt væri að áætla, hvað gilti fyrir ríkissjóð. Þetta er ekki rétt nema að nokkru leyti. Það er einfalt skrifstofuverk að fá upp, hve mikinn kostnað till. mín hefur í för með sér, því að það er skráð og vitað, hve miklu þessar sölur allar nema. Það er ekkert annað að gera en leggja það saman og hve mikil verðlagsuppbótin er á hverjum tíma.

Ég skal viðurkenna, að bændur hafa að vísu misst mikinn hluta af markaði sínum erlendis. En hvað um síldina? Vill hv. þm. ganga inn á þá braut, að ef engin er síldveiði á þessu ári, að bæta upp það tjón, sem þeir menn verða fyrir, sem ekki geta stundað þessa veiði? Ég sé ekki annað en það sé nokkuð hlíðstætt. Eftir því, sem mér er sagt, eru ekki eftir nema einn sjötti til einn sjöundi af þeim mörkuðum, sem áður voru til fyrir saltsíld. Hvað á að gera við hitt? Og hvernig á að bæta þeim mönnum, sem lifa af síldveiðum, það tjón, sem þeir verða fyrir með því að geta ekki stundað veiðina? Á að slá því föstu fyrir fram, að greiða skuli fullar bætur fyrir það að geta ekki stundað þessa atvinnuvegi? Yfirleitt finnst mér svo mikið skyndihandbragð vera á þessari till., að ekki væri óeðlilegt, þó að hún yrði athuguð í 1–2 mánuði. Ég skal ábyrgjast, að það verður málefninu aðeins til góðs, en ekki til tjóns.