23.05.1942
Sameinað þing: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (1273)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Einar Olgeirsson:

Út af svari hv. 6. landsk. við fyrirspurn minni, vildi ég, að því væri slegið föstu, að átt sé við þá í till., sem hafa unnið sjálfir að þessari framleiðslu, mestmegnis með hlutaskiptum, enda séu menn ekki taldir framleiðendur, sem hafa eignazt fiskinn með því að kaupa hann af öðrum og síðan selt upp í brezka samninginn. Það er vitanlega alltítt að kaupa afla af bátum, þegar lagt er á land. Ég held það sé nauðsynlegt, að þetta komi alveg skýrt og greinilega fram. Það er vitanlegt, að orðvenja hjá sumum mönnum í Alþ. er svo slæm, að það er talað um togaraeigendur sem framleiðendur, menn, sem aldrei hafa komið nálægt því að framleiða fisk, en það er alls ekki átt við togarasjómenn, þegar framleiðendur eru nefndir. Þess vegna vildi ég leggja áherzlu á þetta og álít, að þessi skilgreining, sem hv. 6. landsk. gaf, sé sú, sem eigi að vera, ef till. verður samþ.