23.05.1942
Sameinað þing: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (1279)

153. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti ! Ég leyfi mér að tilkynna hinu háa Alþingi, að mér hefur borizt svolátandi bréf :

„Ríkisstjóri Íslands gjörir kunnugt:

Að ég, að tilskildu samþykki Alþingis, veiti forsætisráðherra umboð til þess að fresta fundum Alþingis þess, er nú situr, frá því er venjulegum störfum þess verður svo langt komið, að ekki þykir ástæða til lengra þinghalds að sinni, til þess dags, er almennar kosningar til Alþingis fara fram á þessu sumri.

Gjört í Reykjavík, 23. maí 1942. Sveinn Björnsson

(L. S.)

Ólafur Thors.“

Samkvæmt umboði því, sem í bréfi þessu felst, hef ég ákveðið að leita samþykkis Alþingis á heimild forsætisráðherra til handa til þess að fresta fundum Alþingis nú að loknum þessum fundi í Sþ. og til þess dags, er almennar kosningar fara fram á þessu sumri, og hef um það flutt þáltill. þá, sem nú hefur verið útbýtt á þskj. 509 og er til umr. Þau rök, sem að því liggja, að farið er fram á slíka heimild, eru fram færð í svohljóðandi grg. þessarar þáltill.:

„Með því að samþykktar hafa verið breytingar á stjórnarskránni og þing mun nú verða rofið frá þeim degi talið, er almennar kosningar til Alþingis fara fram í sumar, en þinginu má ekki slita nú samkv. ákvæðum 18. gr. stjórnarskrárinnar, hefur sú leið verið valin að leita heimildar til þess að fresta því til þess tíma, er þingið mun verða rofið.“