20.05.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (1300)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eysteinn Jónsson:

Áður en ég kem að þeim atburðum í íslenzkum stjórnmálum, sem nú eru efst á baugi manna á meðal og tvímælalaust hafa vakið meiri undrun og óhug með þjóðinni en flest annað, sem skeð hefur á síðari árum, tel ég nauðsynlegt að fara örfáum orðum um aðdraganda þeirra. Rétt áður en styrjöldin brauzt út, höfðu þrír aðalflokkar Alþingis komið sér saman um að mynda þjóðstjórn. Þetta var gert til þess að koma í framkvæmd stóru átaki, sem gera þurfti til bjargar öðrum aðalatvinnuvegi landsins, — gengislækkuninni og þeim ráðstöfunum, sem stóðu í sambandi við hana, en þó raunar jöfnum höndum vegna ófriðarbliku þeirrar, sem þá var á lofti.

Þjóðstj. starfaði frá þessum tíma og fram að síðustu áramótum. Aðalhlutverkið í samstarfinu var vitanlega að sjá þjóðinni borgið í stríðinu, bæði pólitískt og fjárhagslega, og mun síðar verða talið, að hún hafi leyst af hendi merkilegt starf í þeim efnum.

Svo var að heyra á hæstv. forsrh. í gærkvöld, að sá hefði verið ljóður á, að ekki hefðu verið nægilega vel notaðir möguleikarnir til þess að flytja inn vörur framan af styrjöldinni.

Hæstv. forsrh. veit það þó, að frá því löngu fyrir stríð var allt gert, sem unnt var af hálfu ríkisstj. til þess að afla birgða af helztu nauðsynjum til landsins, og var gengið eins langt í því og greiðslugeta, skiprúm og aðrar ástæður frekast leyfðu, enda hefur niðurstaðan orðið sú fram að þessu, að fáar þjóðir í veröldinni hafa átt að búa við slíkar allsnægtir og við Íslendingar.

Undir eins og styrjöldin hófst, var Framsfl. það ljóst, að í innanlandsmálum mundu tvö meginviðfangsefni verða til þess að marka höfuðdrættina.

Annars vegar blasti við nauðsyn þess, að fylgt væri skynsamlegri stefnu í verðlags- og peningamálum þjóðarinnar, — stefnu, sem tryggði það, að peningaflóð og verðbólga stríðsins skapaði ekki hrun gjaldmiðilsins, stöðvun atvinnuveganna og almenna erfiðleika að stríðinu loknu. Hins vegar og í nánu sambandi við þetta aðalverkefni, var svo nauðsyn þess, að stríðsgróði þjóðarinnar, sem þegar í upphafi var sýnt, að mundi verða mjög verulegur hjá einstökum mönnum og fyrirtækjum, yrði ekki látinn leika lausum hala, heldur festur til þess að standa að baki framleiðslunni, þegar á þyrfti að halda og ríkissjóði og opinberum sjóðum tryggður hæfilegur hluti stríðsgróðans, til þess að bera kostnað af þeirri stórfelldu aukningu og endurnýjun atvinnutækjanna, sem framkvæma þarf að styrjaldarlokum.

Jafnframt varð með skynsamlegum ráðstöfunum að koma í veg fyrir, að auður safnaðist um of á hendur einstakra manna, sem gætu þannig náð óhæfilega miklum ítökum í fjármála- og atvinnulífi landsins. Slík auðsöfnun einstakra manna gat gerzt með tvennum hætti. Í fyrsta lagi, ef stríðsgróðinn sjálfur væri ekki hæfilega skattlagður. Í öðru lagi, ef verðbólgan væri látin leika lausum hala, grafa undan verðgildi peninganna og safna þannig stríðsgróðanum í hendur þeirra manna, sem áttu atvinnutækin og fasteignirnar í landinu í ófriðarbyrjun, þannig að þeir, sem vinna sér inn fé á stríðsgróðatímanum, sætu eftir með tvær hendur tómar.

Til þess að koma í veg fyrir óhæfilega söfnun stríðsgróða í hendur einstakra manna, og til þess að halda jafnvægi í fjárhags- og atvinnulífi þjóðarinnar, var því hvort tveggja jafnnauðsynlegt, — framsýn stefna í dýrtíðarmálunum og róttæk skattalöggjöf.

Hvernig voru þá möguleikar framsóknarmanna til þess að koma þessari stefnu í framkvæmd? Öðrum megin var Sjálfstfl., sundurlaus, reynslulítill í flestu öðru en því að úthúða verkum annarra, sjálfum sér ósamþykkur, en þó sammála um eitt undir niðri, og þetta eina áhugamál var auðvitað að tefja og koma í veg fyrir, að svo miklu leyti sem unnt væri, skattlagningu stríðsgróðans.

Hinum megin var Alþfl., nýklofnaður, með hrörnandi fylgi, dauðhræddur við samkeppni kommúnista um kjörfylgið og ráðinn í því frá upphafi, eftir því, sem nú verður helzt ályktað, að taka ekki þátt í neinum meiri háttar framkvæmdum, sem kommúnistar væru andvígir.

Sú skoðun ríkti í landinu, að þjóðarnauðsyn krefðist samstarfs, og var þessi þjóðarnauðsyn miskunnarlaust notuð af flokkunum til þess að skapa stöðvunarvald í löggjöf og framkvæmdum. Menn yrðu að sætta sig við þetta eða hitt, samstarfið væri fyrir öllu, — það yrði að haldast, hvað sem öðru liði.

Það væri full ástæða til að segja ýtarlega söguna af þeirri viðureign, sem Framsfl. hefur átt við þessa tvo svo kölluðu samstarfsflokka sína í ríkisstj. til þess að koma fram áhugamálum sínum. Ég hef ekki tíma til þess að segja þá sögu að sinni, — hún er einnig í sumum atriðum kunn, en þó vil ég minna hér á nokkra þætti með örfáum orðum, af því að það getur hjálpað mönnum til þess að skilja, hvernig innbyrðis sundurlyndi í flokkunum, lýðskrum og undanbrögð, hafa getað skapað það ófremdarástand, sem nú er orðið í stjórnmálum landsins.

Fyrsta verulega átakið í dýrtíðarmálunum var gert á aðalþinginu 1941, þegar Framsfl. lagði fram frv. sitt um það mál. Upphaflega hafði verið lofað af ráðh. Sjálfstfl., að þeir skyldu fylgja þessu frv., en það brást að verulegu leyti, þegar á hólminn kom. Frv. var limlest í þinginu, en nokkrir meginþættir þess voru samþykktir, og taldi Sjálfstfl. þessa löggjöf þó stórmerka og Alþfl. sömuleiðis. Þrátt fyrir þetta gerðu ráðh. Sjálfstfl. ekkert annað í þessum málum allt sumarið 1941 en að koma í veg fyrir, að þessi I. yrðu framkvæmd, og voru l. þá talin til einskis nýt. Þá ákvað Framsfl. að láta til skarar skríða og lagði til, að aukaþingið 1941 yrði kvatt saman, og voru ráðh. hinna flokkanna því fylgjandi. Þá var því lýst yfir af ráðh. Sjálfstfl., að þeir vildu fylgja nýrri löggjöf í dýrtíðarmálunum, er festi kaupgjald og verðlag í landinu. En ráðh. Alþfl. lýsti yfir því, að hann gæti ekki verið með því að binda kaupgjaldið með l. Hins vegar væri það sitt áhugamál að binda verðlag á landbúnaðarafurðum.

Þegar á aukaþingið kom, henti það, sem frægt er að endemum og lengi mun minnzt í stjórnmálasögu landsins, að Sjálfstfl. lagði á flótta í dýrtíðarmálunum og gekk í berhögg við það, er áður hafði verið heitið fylgi. Var því nú haldið fram, að gömlu dýrtíðarl. væru ágæt og fullnægjandi, — sömu lögin, sem ráðh. sjálfstæðismanna höfðu sumarlangt staðið gegn framkvæmdum á, en því, sem ekki yrði með l. náð, skyldi ná með hinni „frjálsu leið“, sem frægt er orðið. Blöskraði þá öllum landslýð svo mjög vinnubrögð Sjálfstfl., að sjálft Alþingi beið ómaklega álitshnekki í augum þjóðarinnar fyrir úrræðaleysi flokksins.

Það sýndi sig svo auðvitað um áramótin, að þessi svokallaða „frjálsa leið“ var gersamlega óframkvæmanleg, enda aldrei nema gaspur eitt. fyrir dyrum stóðu stórfelldar grunnkaupshækkanir, sem hefðu gert allar frekari tilraunir til þess að ráða við dýrtíðina, þýðingarlausar. Þá var Sjálfstfl. einu sinni enn kominn í fullkomna sjálfheldu. Nú var hins vegar fyrir hendi afarsterkt almenningsálit með úrlausn Framsfl. í dýrtíðarmálunum. Mikill hluti sjálfstæðiskjósenda sýndi flokksforustunni beina andúð fyrir hringlandahátt og úrræðaleysi í dýrtíðarmálunum á aukaþinginu. Hér var því um tvennt að velja fyrir sjálfstæðismenn, — annað hvort að horfa á það aðgerðalaust, að dýrtíðaraldan í landinu rísi hærra en nokkru sinni fyrr, samkvæmt hinni „frjálsu leið“ og á þeirra ábyrgð, eða þá að snúa inn á leið Framsfl. í málinu. Þá snerist Sjálfstfl. í fimmta sinn í stærsta máli þingsins, og gerðardómsl. voru gefin út, sem gerðu ráð fyrir óbreyttu grunnkaupi og verðlagi sem meginreglu.

Það var ekki fyrr en Sjálfstfl. á Alþingi hafði tekizt að stöðva allar framkvæmdir í dýrtíðarmálunum í tvö ár, — ekki fyrr en flokksforustan var gersamlega króuð inni og engin ný undanbragðaleið var fyrir hendi, að þjóðstjórnin gat komið nokkru til leiðar í dýrtíðarmálinu, og þá þannig, að Alþfl. hljóp undan merkinu.

Svipaða sögu er að segja um skattamálin. Forkólfar sjálfstæðismanna reyndu allt, sem þeir gátu til þess að halda því skattfrelsi, sem útgerðinni hafði verið veitt á erfiðu árunum, eins lengi og mögulegt var, en varð þó lítið ágengt í því efni, vegna þess hve málið varð fljótt óvinsælt.

Framsfl. var það hins vegar ljóst við upphaf styrjaldarinnar, að til þess að tryggja skattlagningu stríðsgróðans, varð að breyta algerlega um aðferð við skattálagningu.

Skattar hafa verið lagðir þannig á, að frá tekjum hafa verið dregin útsvör og skattar fyrra árs, áður en skattur er reiknaður.

Reyndin varð því sú, að þótt skatt- og útsvarsstigi væru látnir nema t.d. 98% af tekjunum, þá borguðu menn ekki nema 49% af gróða sínum, ef þeir höfðu jafnan stórgróða frá ári til árs.

Framsfl. byrjaði að berjast fyrir afnámi frádráttarreglunnar á þingi 1941. Hvorugur hinna aðalflokkanna vildi fallast á breytinguna, en því var hins vegar lýst yfir af Framsfl., að hann mundi berjast fyrir þessu máli, unz hann kæmi því fram á Alþingi.

Á aukaþinginu haustið 1941 tóku framsóknarmenn mál þetta upp að nýju, og var málinu nú tekið skár af Alþfl., en sjálfstæðismenn á þingi urðu ókvæða við. Fjmrh., Jakob Möller, og þm. A.-Húnv., Jón Pálmason, sögðu flutning þessa máls svík á skattasamkomulagi flokkanna frá aðalþinginu 1941, fóru hinum hörðustu orðum um málið og kváðu Sjálfstfl. aldrei mundu sætta sig við slíka breytingu.

Sjálfstæðismenn vissu vel, að ef þeir gætu hindrað þessa grundvallarbreytingu á skattal., þá var þeim óhætt að fylgja háum skattstigum. Háa stríðsgróðanum yrði hlíft samt. Stórgróðamennirnir mundu njóta skattfrelsisins fyrir mikinn hluta stríðsgróðans eigi að síður, vegna frádráttarreglunnar.

Umr. á þingi um þetta mál urðu mjög harðar, sérstaklega var hv. þm. A.-Húnv., Jón Pálmason, sem telur sig fulltrúa húnvetnskra bænda á Alþingi, afarreiður út af því, að milljónagróði stríðsgróðamannanna í Reykjavík skyldi ekki njóta skattfrelsis í skjóli frádráttarreglunnar.

Við framsóknarmenn lýstum yfir því á Alþ., að við hefðum óbundnar hendur og mundum ekki hætta sókninni í þessu máli fyrr en sigur væri unninn.

Eins og ég tók fram áðan, skapaðist alveg nýtt viðhorf í dýrtíðarmálunum í janúarmánuði 1942. Þá varð Sjálfstfl. að taka hreina afstöðu til málsins, en fulltrúi Alþfl. fór úr stjórninni. Þá stóðu fyrir dyrum bæjarstjórnarkosningar um allt land. Fóru þá fram samningar milli Sjálfstfl. og Framsfl. um þau málefni, sem fyrir lágu til úrlausnar.

Framsóknarmenn tóku skattamálin inn í þessar umr. og tryggðu sér með skriflegum samningi við ráðh. sjálfstæðismanna, að stefna Framsfl.

Í skattamálum skyldi framkvæmd, — frádráttarreglan afnumin, skattstigarnir á hæstu tekjunum hækkaðir, varasjóðshlunnindi gróðafélaganna minnkuð.

Þannig tókst Framsfl. að tryggja framgang skattamálanna, og er það mesti sigur í skattamálum, og mun þetta gerbreyta allri skattálagningu á stórgróða í landinu, bæði nú og þá ekki síður framvegís, þar sem nú er fenginn öruggur grundvöllur til þess að byggja á. Hins vegar hafa sjálfstæðismenn unnið þann „sigur“ í skattamálunum, að þeim hefur tekizt að koma í veg fyrir það frá styrjaldarbyrjun, að útflutningsgjald væri lagt á þann ísfisk, sem seldur hefur verið með stórgróða úr landinu beint til Englands, og var sú leið þó frá byrjun sjálfsögðust allra leiða til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð til þess að vinna gegn dýrtíðinni.

Framkoma Alþfl.forkólfanna í dýrtíðarmálunum hefur ekki verið ólík framgöngu sjálfstæðismanna, að því undanskildu, að þeir hlupu nokkrum mánuðum fyrr undan merkjum. Framkoma þeirra er mönnum í fersku minni vegna þess, að hún hefur verið aðaldeiluefnið undanfarna mánuði, og verður því stuttlega rakin hér.

Þeir töluðu mikið um nauðsyn þess að stöðva dýrtíðina, — alveg eins og sjálfstæðismenn. Þeir kenndu of háu verðlagi landbúnaðarafurða um dýrtíðina, alveg eins og sjálfstæðismenn, og kröfðust þess, að kaup bændanna yrði bundið með lögum. Þeir þóttust vera með „frjálsu leiðinni“ og sögðu, að grunnkaupið ætti að breytast sem minnst, á meðan kommúnistar ekki kröfðust grunnkaupshækkana —, en rufu stjórnarsamvinnuna í janúar í vetur vegna þess, að gerðardómurinn var settur til þess að hafa eftirlit með grunnkaupinu, og kóróna svo framkomu sína með því að styrkja formann Sjálfstfl. til þess að framkvæma sama gerðardóm. Þeir stofnuðu til þjóðstjórnar með því að lögbinda kaupgjaldið og banna fulla verðlagsuppbót. Þeir fóru úr sömu stjórn vegna þess, að það átti að hafa eftirlit með grunnkaupi og tryggja fullar verðlagsuppbætur. Fyrri l. voru ágæt fyrir verkalýðinn, af wí að þá var búið að kjósa, — hin síðari voru kúgunarl., af því að kosningar voru fram undan.

Alþfl.-menn hafa reynt að afsaka fráhvarf sitt í dýrtíðarmálunum með því, að flokknum hafi verið illvært í ríkisstj. vegna þess, hve linlega væri tekið á skattamálunum. Þessi ástæða er fundin upp á eftir.

Alþfl. gerði aldrei neina tilraun til þess að taka forustu um lausn skattamálanna.

Sjö vikur liðu af þessu þingi, án þess að flokkurinn legði fram nokkrar till. í skattamálum. Hér við bætist svo, að framsögumaður Alþfl. í skattamálum, hv. þm. Seyðf., Haraldur Guðmundsson, lýsti yfir því við 1. umr. málsins í neðri deild, að hann þyrfti að taka sér frest til þess að gera það upp við sig, hvort hann ætti að vera með afnámi „frádráttarreglunnar“ eða ekki. Lengra var nú þessi forvígismaður stríðsskattanna ekki kominn í byrjun þriðja stríðsgróðaársins. Hann hafði ekki enn þá áttað sig á, að afnám frádráttarreglunnar var undirstaða þess, að stríðsgróðinn yrði hæfilega skattlagður. Hann gat skreytt sig með tillögum um háa skattstiga á stríðsgróðann, en gallinn var aðeins sá, að helmingur stórgróðans var skattfrjáls eftir sem áður.

En það verður að virða til vorkunnar, að um þetta leyti höfðu forkólfar Alþfl. eignazt annað áhugamál, sem þeir mátu meira en skattlagningu stríðsgróðans og önnur slík mál, og mun ég bráðlega víkja að því hugðarefni flokksins.

Ég hef nú rakið þessa sögu ofurlítið. Hún gefur mönnum nokkra hugmynd um heilindi þeirra tveggja flokka, sem nú eiga það báðir sameiginlegt að hafa hlaupið frá þeim viðfangsefnum, sem þeir höfðu marglofað þjóðinni að leysa. Hún gefur mönnum nokkra hugmynd um, hvers muni vera að vænta af forustunni, eftir að þeir, sem báru ábyrgð á aukaþinginu í haust, — mennirnir frá aukaþinginu 1941, — hafa nú tekið við stjórn með stuðningi þeirra, sem rufu samstarfið í janúar í vetur.

Hún sýnir, hvernig vinnuskilyrði Framsfl. hafa verið á undanförnum árum. Þau hafa ekki verið ánægjuleg, en þrátt fyrir það hafði flokknum þó tekizt að fá hafna framkvæmd þeirrar stefnu í fjárhagsmálum þjóðarinnar, sem hann taldi rétta. Dýrtíðin hafði verið stöðvuð, — að vísu of seint, — og skattlagning stríðsgróðans er tryggð í megindráttum á þá lund, sem flokkurinn hafði barizt fyrir. Þó skyldi enginn halda, að nokkru lokatakmarki væri náð. — Hvarvetna blasa við ný verkefni, sem vinna þarf, og mörg þeirra er aðkallandi að leysa, til þess að tryggja árangur af þeim ráðstöfunum í fjárhagsmálum, sem þegar hafa verið gerðar. Verði þessum verkefnum ekki sinnt, er hægt að gera að engu á stuttum tíma allt það, sem unnizt hefur.

Þannig er ástatt, þegar nýtt tímabil hefst í stjórnmálum landsins, — ekki tímabil starfs og friðar, heldur tímabil ráðleysis og sundrungar.

Síðan ráðh. Alþfl. hrökklaðist úr ríkisstj., hefur flokkurinn hugsað um eitt, aðeins eitt: Hvort ekki væri hægt að finna eimhvern fleyg, sem skapað gæti glundroða og Alþfl. ofurlítið skárri vígstöðu en honum hafði tekizt að afla sér með baráttu sinni fyrir dýrtíðinni.

Nokkru eftir að Alþýðuflokksráðh. fór úr stj., höfðu menn heyrt Alþfl.- menn pískra um það, að nú væri tímabært að leysa kjördæmamálið, og jafnframt, að sjálfstæðismenn mundu hafa alveg bundnar hendur í málinu. Þetta pískur höfðu stjórnarflokkarnir heyrt, og það var báðum flokkunum vel ljóst, að það var grundvallarskilyrði fyrir samstarfi þeirra, að slíkt ágreiningsmál yrði ekki tekið til afgreiðslu nú í vetur. Þetta gerðu menn sér sérstaklega ljóst vegna þess ávænings, sem heyrðist um fyrirætlanir Alþfl. Annars skal það hreinlega játað, að hefði ekki þessi orðrómur verið á sveimi, þá hefði engum dottið í hug, að nokkur stjórnmálaflokkur væri svo lítilsigldur og ábyrgðarlaus að hefja deilur um mál eins og kjördæmamálið á tímum eins og þeim, sem nú standa yfir.

Meðan formaður Alþfl. sat í ríkisstj., raskaði kjördæmaskipunin ekki ró hans, þá var kjördæmaskipunin viðunandi. Enda var enginn flokkur ákafari en Alþfl. í því að ákveða á Alþingi í fyrra frestun stjskrbreyt. til styrjaldarloka.

Alþfl. hefur ýmist átt fulltrúa í ríkisstj. eða stutt ríkisstj. í 8 ár, án þess að hreyfa við kjördæmamálinu.

Formaður Alþfl. hafði lýst hátíðlega yfir frammi fyrir allri þjóðinni, þegar hann lýsti yfir fylgi flokks síns við kosningafrestunina vorið 1941, að Alþingi, sem framlengdi umboð sjálfs sín, hefði ekki heimild til þess að taka til afgreiðslu nein önnur mál en þau, sem styrjöldin gerði óhjákvæmilegt að leysa.

En hvaða máli skipta orð og fögur heit? Hvaða máli skiptir það, þótt landið sé í hers höndum og þannig ástatt, að Alþfl. og hinir tveir aðalflokkar þingsins töldu fyrir einu ári óhjákvæmilegt að fresta kosningum til Alþingis? Allt þetta er einskis virði fyrir ábyrgðarlausa stjórnmálamenn, sem hafa það eitt áhugamál að bjarga sér frá pólitískum dauða. Alþfl.forkólfarnir töldu sig geta smíðað vopn úr kjördæmamálinu. En til þess að gagn gæti orðið að því vopni, mátti Alþfl. ekki taka upp tillögur sínar eða hugðarefni sín í því máli, heldur tillögur sjálfstæðismanna, til þess að auðveldara væri að ráðast á þá fyrir að vísa málinu frá.

Það, sem gerir leik Alþfl. með kjördæmamálið á þessum tímum lítilfjörlegri en allt annað, er það, að flokkurinn reiknaði með því, að sjálfstæðismenn mundu hljóta að vísa málinu frá, — og þeir fóru ekki dult með það sjálfir. Þeir treystu því, ef nota má það orð í þessu sambandi, að sjálfstæðismenn væru ekki eins ábyrgðarlausir og þeir reyndust og að þeir mundu ekki rjúfa samstarf sitt við Framsfl. á svo blygðunarlausan hátt, eins og nú er komið á daginn. Til vara reiknaði Alþfl. með því, að ef í harðbakkann slægi, mundi Framsfl. og hluti af Sjálfstfl. taka upp kosningafrestun að nýju með veikum meiri hluta þings. Hinir hugkvæmu Alþfl.menn sáu hilla undir glæsilegt tímabil fyrir sig í stjórnarandstöðu, þegar svo væri komið. Þá væri hægt að saka sjálfstæðis- og framsóknarmenn um einræði og gera kosningafrestunina að stórfelldu deilumáli, gera Framsfl. beran að því að verzla með kosningafrestunina, til þess að kaupa frest í kjördæmamálinu, og sjálfstæðismenn bera að því að fresta kosningum til þess að komast hjá að afgreiða „réttlætismálið“.

Þetta voru þá hugsjónir Alþfl.foringjanna og áhugamál „friðarvinanna“ í flokki þeirra.

En margt fer öðruvísi en ætlað er.

Það hefði ekki átt að vera erfitt fyrir Sjálfstfl. að standast hinar ómerkilegu veiðibrellur Alþfl., sem í 10 ár hafði verið í stjórn eða stutt stjórn án þess að rumska í „réttlætismálinu“ og án þess að taka undir tilboð íhaldsmanna um lausn málsins á þeim tíma.

Síðasta Alþingi hafði lýst yfir lýðveldisstofnun á Íslandi í stríðslok, og er þó skilið svo, að hún ætti að fara fram í síðasta lagi 1944. Þá þarf að gerbreyta stjórnskipunarl. landsins, og þangað til eru aðeins tvö regluleg þing. Til þess að koma fram þeirri árás á dreifbýlið í landinu, sem hér er stofnað til, þarf tvennar alþingiskosningar og margra mánaða heita kosningabaráttu. Kjördæmamálið hefur verið og er enn í dag heitasta deilumál landsmanna. Engum hafði dottið í hug fyrir nokkrum mánuðum, að nokkur flokkur mundi leyfa sér að taka það upp á þessum tímum. Sjálfstæðismenn höfðu nýlega stofnað til samstarfs við Framsfl. um lausn aðkallandi vandamála, og allir vissu, að þetta samkomulag var byggt á því, að deilumál eins og kjördæmamálið yrði ekki tekið upp að svo stöddu. Alþfl. bauð upp á rangláta kákbreytingu á kjördæmaskipun landsins, en vildi skilja eftir lýðveldismálið, og var það sjálfsagt gert meðal annars til þess að storka Sjálfstfl., um leið bráðabirgðabreyt. á kjördæmaskipuninni var sérstaklega miðuð við flokkshagsmuni sjálfstæðismanna.

Rökin fyrir að vísa frá frumvarpsóskapnaði Alþfl.- manna voru svo sterk og svo mörg, að engum hugsandi manni í þessu landi mundi hafa verið unnt að villa sýn í því máli. Leiðin var opin til þess að forkólfar Alþfl. sætu einir að þeirri óvirðingu, sem verða hlaut hlutskipti þeirra, sem standa að hráskinnaleik um stjórnarskrá landsins á þessum tímum.

Landsmenn biðu áreiðanlega með nokkurri óþreyju eftir því að vita, hversu sjálfstæðismenn snerust við tilræði Alþfl. við innanlandsfriðinn. margir munu þó hafa verið þess fullvissir, að flokkurinn gæti ekki brugðizt við þessu nema á einn veg, og studdi það marga í þeirri skoðun, að hæstv. fjmrh., Jakob Möller, taldi það fjarstæðu við fyrstu umr. málsins á Alþingi, að fara nú þvert ofan í allt, sem fyrirhugað hafði verið, að afgreiða þetta mál og slíta friðnum gersamlega. Ýmsir munu þó hafa minnzt framkomu sjálfstæðismanna í dýrtíðarmálunum, og þeir spáðu engu góðu.

Það voru þessir menn, sem reyndust sannspáir. Sjálfstfl. hefur nú til fulls gleypt agnið, sem Alþfl. lagði fyrir hann.

Hann hefur valið stríð í stað friðar, og svo bætir formaður Sjálfstfl. gráu ofan á svart með þeim blekkingum, að hann hafi viljað friðinn.

Ráðh. Sjálfstfl. var það fullljóst þegar í upphafi samstarfsins, að til þess að það gæti haldizt, yrði að vísa kjördæmamálinu frá í vetur, og jafnframt, að kosningar voru framundan.

Hv. þm. Str. upplýsti í gærkvöld, að við hefðum rökstudda ástæðu til að ætla, að kjördæmamálið yrði afgr. á þessu þingi. Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, staðfesti þetta fullkomlega. Þegar þessi vitneskja lá fyrir,. víssu allir ráðh. í fyrrv. ríkisstj., að kosningar urðu að fara fram í vor, eins og komið var.

Það er fyrst, þegar forustumenn Sjálfstfl. fara að búa sig undir að rjúfa stjórnarsamvinnuna með því að afgreiða kjördæmamálið, að forkólfar flokksins fara að tala um frestun kosninga á nýjan leik, og gera málamyndatilboð um frestun þeirra með framsóknarmönnum einum. En jafnframt fengum við óyggjandi upplýsingar um, og það var mikill minni hluti þingflokks sjálfstæðismanna, sem fylgdi slíkri frestun.

Þennan skrípaleik léku sjálfstæðismenn til þess að reyna að þvo hendur sínar, áður en þeir hófu ófriðinn.

Þessi framkoma sýnir mætavel stjórnmálasiðgæði Sjálfstfl. En hún sýnir þó um leið, að sá flokkur, sem ófriðnum veldur, er hræddur við dóm kjósendanna um friðrof hans, og það mun sýna sig, að sá ótti er ekki ástæðulaus.

Hæstv. forsrh. sagði í gærkvöld, að ef ástæðar væru óbreyttar frá í fyrra, hefði hann orð hv. þm. Str. fyrir því, að ekki væri hægt að kjósa. Ef ekki var hægt að kjósa í fyrra, þá er það ekki hægt nú, — sagði ráðh.

Hver er það, sem var að tala? Er það ekki forsrh. þeirrar stjórnar, sem hefur það eitt hlutverk að láta kjósa ekki einu sinni, heldur tvisvar á sama árinu.

Hvað á þessi loddaraleikur að þýða? Finnst mönnum það ekki skörungsskapur af manni, sem þykir ófært að láta kjósa einu sinni, að láta hafa sig til þess að rjúfa stjórnarsamvinnu í henumdu landi og mynda stjórn til þess að láta kjósa tvisvar á sama árinu?

Allir ábyrgir menn í þessu landi vita, að kosningar í vor var búið að gera óhjákvæmilegar, ef skapa átti starfsfrið í landinu.

Allir vita, að tvennar alþingiskosningar um kjördæmamálið skapa pólitíska upplausn í landinu og fullkominn ófrið.

Einar almennar alþingiskosningar um venjuleg mál, til þess að skapa starfsfrið, og tvennar alþingiskosningar, sem skapa ófrið og stórháskalega upplausn, eru ekki hliðstæður, heldur fullkomnar andstæður.

Þetta er alþm. og þjóðinni allri vel ljóst, og af því leiðir, að fyrirhugaðar kosningar í vor gáfu enga ástæðu né siðferðilegan rétt til þess að stofna til ófriðar um kjördæmamálið, og til viðbótar má taka það fram, að engum datt í hug að afgreiða kjördæmamálið í vor sem leið, og áttu kosningar þó að fara fram þá.

Hvernig sem farið er að, verður aldrei hægt að afsaka þetta frumhlaup með fyrirhuguðum kosningum.

Hver er skýringin á því, að annað eins og þetta skuli geta komið fyrir? Þjóðin stendur höggdofa af undrun.

Það, sem hér hefur skeð, er þó í raun réttri aðeins framhald þess, sem átt hefur sér stað undanfarið. Sjálfstfl. getur ekki komið sér saman um neitt. Mikill hluti flokksins hefur í raun og veru verið á móti jákvæðu samstarfi og gert allt til þess að spilla því. Flokkurinn getur ekki borið ábyrgð á neinni ákveðinni stefnu. Hann stefnir í dag suður, á morgun norður, og gerir enga tilraun til þess að hafa forustu um nokkurt mál.

Sjálfstfl. fékkst ekki til þess að taka afstöðu til dýrtíðarmálsins, fyrr en hann var innikróaður og gat ekki komizt undan. Hann varð að láta undan síga í skattamálunum. Sjálfstæðismenn taka ekki afstöðu tif kjördæmamálsins nú á þennan hátt af því, að þeir séu samstilltir um að leggja í þessa baráttu nú. — Þeir eru að vísu samhuga um að draga úr rétti dreifbýlisins, og þetta er aðeins fyrsti áfanginn á þeirri leið, — en þeir eru auðvitað lafhræddir við dóm kjósendanna um þetta athæfi nú á þessum tímum. En þeir eru bara enn þá hræddari um kjörfylgið í Reykjavík, ef þeir vísa málinu frá.

Þess vegna hrindir Sjálfstfl. þjóðinni út í eina hörðustu kosningabaráttu, sem farið hefur fram hér á landi. Þess vegna lætur hann hafa sig til þess að mynda stjórn, sem hann þó veit, að getur ekki stjórnað.

Hörmulegt er, að þjóðin skuli dæmd til þess að deila um mestu ágreiningsmál sín á hættulegustu tímum, sem hún hefur lifað. Þó er hitt enn hörmulegra, að ástæðan til þess er ekki sú, að verið sé að berjast fyrir tímabæru stórmáli, sem krefst úrlausnar, heldur er þannig komið vegna pólitískra hrekkjabragða auvirðilegustu tegundar og ókleift að greina á milli, hvorir hafa sýnt meira manndómsleysi, þeir, sem beittir bragðinu, eða hinir, sem féllu á því.

Það er talað um réttlætismál. Það verður að virða okkur það til vorkunnar, sem kunnugir erum á Alþingi, þótt við drögum í efa, að það sé brennandi áhugi á réttlæti, sem knýr þá menn sporum, sem fyrir þessu máli standa. Við vitum, hvernig með þetta mál hefur verið farið undanfarið og hvernig það er — og hefur verið notað.

Það hefur sem sé verið tízka upp á síðkastið, að ef annar hvor flokkurinn, sem unnið hefur með Framsfl., hefur ætlað að leysa með honum stórmál, sem ágreiningur var um, þá hefur verið hótað af hinum flokknum, að ef hann hefði sig ekki hægan, þá skyldi „réttlætismálið“, þ.e. kjördæmamálið, verða lagt fram í því formi, sem honum kæmi „bezt“, en það þýðir í þessu sambandi verst — og hann gæti ekki neitað, — þannig sundrað samstarfi hans við Framsfl. og því máli komið fyrir kattarnef, sem leysa átti. Það mun hafa verið óspart látið skína í það í haust við Alþfl.menn af sjálfstæðismönnum, að ef Alþfl. féllist á skattastefnu Framsfl., þá skyldi „réttlætismálið“ flutt í því formi, sem Alþfl. gæti ekki neitað. Sú aðferð, sem Alþfl. hefur nú notað við Sjálfstfl., er því ekki einu sinni frumleg, — hún er í nákvæmu samræmi við sameiginlega „formúlu“ þessara flokka fyrir því, hverjar séu skyldur stjórnmálamanna við réttlætismál og hvernig með þau skuli fara.

Allir landsmenn spyrja nú: Hvað rak svo á eftir að breyta kjördæmaskipuninni, að allt verður að víkja fyrir því. — Það er von, að menn spyrji, en hver getur gefið fullnægjandi svar?

Samkvæmt þeirri kjördæmaskipun, sem frv. gerir ráð fyrir, gæti það að vísu komið fyrir, að sjálfstæðismönnum tækist að fá hreinan meiri hluta á þessum tveimur þingum, sem halda skyldi, þangað til stjórnskipunarl. yrði breytt, með því að stofna sérstakan flokk, til málamynda, og fá minnihlutaþm. kjörna í tvímenningskjördæmunum, án þess að minnka með því líkur sínar fyrir uppbótarþingsætum, en ekki er það þó líklegt vegna þess, hve. sá flokkur gengur nú saman. Mönnum hefur skilizt, að svo miklu leyti sem á þessu frumhlaupi eru gefnar nokkrar skýringar, að hin mikla þjóðarnauðsyn sé í því fólgin, að fækka þm. Framsfl. En hvers vegna gat þetta ekki beðið, þangað vit önnur atriði stjórnarskrármálsins voru leyst? Hvers vegna þurfti að stofna til ófriðar í hernumdu landi í miðri heimsstyrjöld, til þess að koma þessu í kring?

Ekki hefur Framsfl. meiri hluta á Alþingi, sem brýna nauðsyn beri til að hnekkja. Ég veit ekki betur en að þeir flokkar, sem að þessu standa, hafi algeran meiri hluta á Alþingi og það sé óþarfi fyrir þá að ráðast í öll þessi umbrot til þess að sækja sér slíkan meiri hluta. Geta þessir flokkar ekki ráðið eins og nú er, án þess að spyrja framsóknarmenn? Þurfa þeir að stofna til 6 mánaða kosningabaráttu til þess?

Allir landsmenn sjá, hvers þessir flokkar eru megnugir á Alþingi, eins og sakir standa nú, og til hvers þeir nota þann þingmeirihluta, sem þeir hafa. Þeir hrósa sér beinlínis af því, að þótt þeir hafi myndað stjórn, eigi þeir ekkert sameiginlegt áhugamál annað en að breyta kjördæmaskipuninni. Finnst mönnum ekki glæsilegt og tímabært að stofna til harðrar kosningabaráttu í marga mánuði til þess að styrkja þessa flokka enn meir? Finnst mönnum ekki skiljanlegt, að flokkar þessir eigi erfitt með að þreyja tvö ár enn eða svo eftir því, að þessi glæsilegi, samstæði meiri hluti þeirra á Alþingi verði efldur?

Þjóðin mun aldrei sætta sig víð, að henni sé hrundið út í tvennar alþingiskosningar samsumars, eins og nú stendur, nema hún fái skýlaus svör um það, hvers vegna það er nauðsynlegt, og því fer alls fjarri, að slík svör hafi fengizt. Þjóðin krefst skorinorðs svars um það, hvað lá á að leysa kjördæmamálið, fyrr en um leið og önnur atriði stjórnarskrárinnar verða endurskoðuð innan fárra ára, og ekki seinna en í ófriðarlok. Þjóðin mun ekki gera sig ánægða með neitt málamyndasvar. Hér duga engin undanbrögð.

Auðvitað gat ekki hjá því farið, að þeir, sem beita sér fyrir kjördæmamálinu og friðslitum, yrðu varir við sterka almenna andúð gegn þessum starfsháttum. Sannleikurinn er sá, að í landinu munu fáir menn finnast, sem mæla þessu frumhlaupi bót. Ofan á allt annað hafa flutningsmenn kjördæmamálsins gert sig bera að algeru áhuga- og skeytingarleysi um sjálfstæðismálið með því að knýja fram bráðabirgðabreyt. á hinu viðkvæmasta atriði stjórnarskrárinnar án þess að skeyta nokkuð um lausn þess. Það mátti bíða, hitt varð að knýja fram.

Nú eru aðstandendur þessa máls hins vegar orðnir skelkaðir og byrjaðir að gera sér grein fyrir þeirri gífurlegu gremju, sem þeir hafa vakið með virðingarleysi sínu við stjórnarskrána og sín eigin heit.

Nú eru gerðar tilraunir til þess að sefa þessa óánægju. Halda menn, að það sé þá með því að taka upp þá einu málsmeðferð, sem sæmandi væri sjálfstæðismálinu, að afgreiða allar fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni vel undirbúnar í einu lagi, eins og Framsfl. og meginþorri þjóðarinnar vill og Alþingi ákvað í fyrra? Auðvitað ekki. Þess var ekki af þeim að vænta, til þess eru aðstandendur stjórnarinnar búnir að ríða netið of þétt að höfði sér. Þá skyldu menn halda, að þeir, úr því sem komið er, tækju rögg á sig og afgreiddu sjálfstæðismálið á þessu þingi og létu það ekki henda Alþingi Íslendinga að afgreiða breyt. á stjórnarskrá ríkisins, nema fullveldismálin væru tekin með. Þeir virðast hvort sem er ekki líta svo á, að vandaðan undirbúning þurfi til þess að breyta stjórnarskránni. En til þessa hafa þeir auðvitað ekkert þrek — og engan vilja. Áhuginn nær ekki lengra en til þess að verzla um kjördæmaskipunina eftir því, sem flokkunum kemur bezt.

Með hverju er þá reynt að klóra yfir lítilsvirðinguna við sjálfstæðismálið? Eftir að Framsfl. hefur krafizt milliþinganefndar, sem undirbúi ýtarlega endurskoðun allra stjórnskipunarl., á leggja þeir til, að milliþinganefnd skuli taka sjálfstæðismálið til meðferðar og hafa lokið störfum fyrir Alþingi í sumar, og segjast þeir ætla að afgreiða lýðræðismyndunina á sumarþinginu.

Hafa menn trú á, að forustumenn í stjórnmálum gefi sér sérstaklega gott næði til þess að undirbúa og þaulhugsa tillögur um gerbreytingar á stjórnskipunarl., frá því að þessu þingi lýkur og þangað til næsta Alþingi kemur saman, þegar að loknum kosningum?

Þá er það ekki heldur mjög ósmekklegur eða ólíklegur inngangur að því, að þjóðin sameinist um hina merkustu framkvæmd, sem nokkru sinni hefur legið fyrir Alþingi Íslendinga, að hrinda henni út í margra mánaða kosningabaráttu um þann óþinglegasta pólitíska verzlunarsamning, sem nokkru sinni hefur verið gerður.

Auðvitað veit það hver heilvita maður, að eftir 11/2 mánuð verður sjálfstæðismálið jafn óundirbúið og það er nú. Þessi káktillaga er því verri fyrir málstað friðslitamannanna en þótt þeir hefðu ekki nefnt sjálfstæðismálið, eða hvers vegna afgreiða þeir ekki sjálfstæðismálið nú, ef þeir sitja ekki á svikráðum við það?

Þessi till. sýnir betur en nokkuð annað, hvernig kjördæmamálið er til komið. Ráðleysisfálmið með fullveldismálið sannar, svo sem bezt verður á kosið, hvernig verið er að leika pólitískan skollaleik með sjórnarskrána. Alþfl. tekur kjördæmamálið út úr sem agn í refskákinni, sem átti að tefla án þess að hugsa nokkuð um aðrar breyt. á stjórnarskránni. Sjálfstfl. ætlaði sér ekki að breyta stjórnarskránni í vetur og hafði því ekkert undirbúið afstöðu sina, — ekki fyrir það, að flokkurinn væri ekki jafnfíkinn og áður í það að draga úr áhrifum dreifbýlisins á Alþingi, heldur vegna þess, að honum mun hafa hrosið hugur við að leggja út í baráttu um það, einmitt nú, — en sakir sundrungar og vanmáttar sogast hann út í hringiðuna, — veit síðan ekki sitt rjúkandi ráð og sízt af öllu, hvernig takast megi að láta líta svo út, sem unnið sé af viti og eftir áætlun að heildarendurskoðun stjórnskipunarl.

Getur nokkur hlutur sýnt þetta glögglegar en þáltill. um, að framtíðarskipulag ríkisins skuli undirbúið í milliþinganefnd, á meðan barizt er um kjördæmamálið?

Hver er svo lausnin í kjördæmamálinu? — Það á að afnema ranglæti og sérréttindi, segja menn. Aðalbreytingin er að fyrirskipa hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum sex. Auk þess á svo að fjölga þingmönnum um þrjá. Það er ekki réttlátt, að meiri hlutinn í tvímenningskjördæmunum fái báða þingmennina, segja vinir réttlætisins, — og þeir eru ekki í vandræðum með að finna réttlætið, sem vantar í stjórnarskrána. Réttlætinu á að fullnægja með því, að meiri hlutinn í tvímenningskjördæmunum fái annan þingmanninn og minni hlutinn hinn, vinir réttlætisins eru klökkir yfir því, hvað þeir séu réttlátir og hvað úrlausnin sé snjöll.

Einn þriðji skal hafa jafnan rétt og tveir þriðju. Meiri hlutinn í tvímenningskjördæmunun skal með þessu einfalda úrræði rétt og slétt sviptur öllum rétti og tvímenningskjördæmin öllum áhrifarétti á stjórnmál, — það er hin einfalda lausn réttlætismálsins.

Ég held, að tímabært væri fyrir hv. alþm., sem mest tala um réttlæti og ranglæti í sambandi við þetta mál, að rifja upp fyrir sér ofureinfalda staðreynd: Réttlætinu verður aldrei fullnægt með því að fremja ranglæti.

Með hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmunum er framið óverjandi ranglæti í garð kjósendanna í tvímenningskjördæmunum, sem alls ekki verður þolað. Flytjendur þessa máls ættu að tala sem minnst um réttlæti. Sé það ásetningur manna að bæta úr þeim ágalla, sem tvímenningskjördæmin að ýmsu leyti eru á kjördæmaskipuninni, þá er til á því máli einföld lausn, sem hægt var að fá samkomulag um, sem er í samræmi við kosningafyrirkomulag okkar að öðru leyti og hægt var að framkvæma án þess að breyta stjórnarskránni. Þessi einfalda og réttláta lausn er í því fólgin að skipta tvímenningskjördæmunum í einmenningskjördæmi, — en þetta er heimilt að gera með einföldum l.

Hvers vegna var ekki sú lausn valin? munu menn spyrja. Svarið liggur opið fyrir, og það sýnir um leið betur en nokkuð annað, hvað það er, sem nú er verið að gera með breyt. á stjskr. Það var ekki hægt að taka þessa einföldu, réttlátu lausn, af því að hún tryggði ekki nógu vel flokkssjónarmið þeirra, sem hér eru að verki. — Af því að hún tryggir Sjálfstfl. ekki jafnmarga þm. og hlutfallskosningarnar.

Hvaða flokkslega þýðingu hafði það fyrir þá, sem hér á að þjóna, að skipta tvímenningskjördæmunum í einmenningskjördæmi í dreifbýlinu, þegar það blasir við, að áður en varir verður málstaður þeirra í minni hluta alls staðar eða nær því alls staðar í dreifbýlinu? Nei, — ekkert annað kom að nokkru gagni til frambúðar.

Það er opinbert orðið, að þessi breyt. á kjördæmaskipuninni er hugsuð til bráðabirgða fyrst um sinn. Því er margyfirlýst af formælendum málsins.

Með minnihlutaþingmönnum hlutfallskosnum á að tryggja það, að dreifbýlið geti ekki fenbið stöðvunarvald, þegar lokahöggið í kjördæmamálinu verður greitt. Þeim er ætlað hlutverk flugumannanna. Til þess var ekki fulltreystandi nema minnihlutaþingmönnum úr dreifbýlinu. Þess vegna var það engin úrlausn, þótt tvímenningskjördæmunum væri skipt. Fengi meiri hlutinn að ráða, yrði fljótlega kosið eitthvað af mönnum, sem fyndu upp á því að stinga við fótum, þegar tímabært þætti að stiga lokaskrefið í kjördæmamálinu.

Aðstandendur þessa frv. þykjast svo sem ekki vera að skerða rétt gömlu kjördæmanna eða draga úr rétti dreifbýlisins. Öðru nær. Þeir eru þvert á móti að auka rétt dreifbýlisins, segja þeir, og verða fjálgir í máli, þegar þeir lýsa umhyggju sinni fyrir dreifbýlinu og umfram allt gömlu kjördæmunum.

Kannast kjósendur landsins annars nokkuð við þessa menn. Muna þeir nokkuð eftir viðskiptum sínum við þá árið 1931?

Þeir, sem standa að kjördæmamálinu, muna eftir þeim viðskiptum, svo mikið er alveg víst. Þeir hafa lært svo mikið af þeim, að þeir ganga ekki beint framan að íbúum dreifbýlisins, eins og þeir gerðu þá. Það gera þeir ekki fyrr en minnihlutaþingmennirnir hafa fengið rétt sinn samkv. stjórnarskrárbreyt., sem nú á að gera.

Þykir mönnum ekki líklegt, að mennirnir, sem háðu baráttuna gegn dreifbýlinu 1931, séu nú fullir umhyggju fyrir rétti þess?

Nú hefur verið gripið til sauðargærunnar, en þó mun enn sem fyrr sjá í úlfseyrun.

Nú hefur verið tekinn sá kostur að ganga aftan að og mæla vinmálum, í stað þess að hreint var gengið til verks I931.

Þessi aðferð mun þó ekki gefast betur en sú, sem notuð var 1931, enda þótt þeir, sem fyrir þessari árás standa, hafi í fyrstu gert sér vonir um betri árangur.

Þeir, sem þessa árás gera nú, munu verða þess varir, að þeim mun lævíslegri sem aðferðin er, þeim mun harðara viðnám verður veitt.

Nú eru þeir flokkar, sem standa að kjördæmamálinu, ráðnir í því að styðja þá ríkisstj. sjálfstæðismanna, sem mynduð hefur verið. Þetta er tvímælalaust einkennilegasta stjórnarmyndun, sem átt hefur sér stað hér á landi, og sennilega þótt víðar væri leitað. Þetta er áreiðanlega veikasta stjórn, sem nokkru sinni hefur tekið við völdum í þessu landi, en tímarnir, sem við lifum á, hinir hættumestu og örlagaríkustu fyrir íslenzku þjóðina, sem komið hafa. Þeir flokkar, sem styðja stjórnina, segja það beinlínis, og þarf þó ekki litla óskammfeilni til, að samstarfið sé ekki um neitt annað en að láta kjósa tvisvar og leysa kjördæmamálið. Sá flokkur, sem myndar stjórnina, er meira að segja svo ósvífinn að leggja á þetta alveg sérstaka áherzlu.

Stjórnin er skipuð af ósamstæðasta og úrræðalausasta flokki þingsins, studd af fullkomnum óheilindum og fláttskap á alla vegu, og er ekki farið dult með það. Ófær er hún til alls nema eins, að kynda haturs- og ófriðareld í landinu. Er þetta það, sem þjóðin þarfnast?

Þegar Framsfl. myndaði hreina flokksstjórn síðast, árið 1938, flutti formaður Sjálfstfl. vantraustsyfirlýsingu á stj. og færði henni það til foráttu, að hún væri of veik, hún hefði ekki styrk eða stuðning í þinginu til þess að koma fram þeim málum, sem aðkallandi þörf var að leysa. Honum fórust orð á þessa leið m.a.:

„Við sjálfstæðismenn vantreystum þeirri stefnu, er forsrh. hefur lýst yfir, að hin nýja stjórn muni fylgja.

Við teljum stjórnina myndaða á óþingræðislegan hátt.

Við teljum, að hún sé ekki lýðræðisstjórn. Við teljum, að hún muni ekki einu sinni geta leyst nein venjuleg verkefni á sviði löggjafarinnar, sem máli skipta.

Við teljum, að enn síður geti hún þó leyst hin stórvægilegu og óvenjulegu verkefni, er víst þykir, að hennar bíði.

Við teljum, að slík stjórn sé aldrei fær um að fara með völd.

Aldrei hefur þörf þjóðarinnar á sterkri stjórn verið jafnaðkallandi og augljós og einmitt nú.

Aldrei hefur jafnveik stjórn farið með völdin í landinu og einmitt nú.

Með þessum rökum berum við sjálfstæðísmenn fram þá kröfu, að ný stefna verði upp tekin og nýrri stjórn fengin aðstaða og styrkur til að framkvæma hana.“

Þetta sagði formaður Sjálfstfl. 1938.

Þessar ásakanir formanns Sjálfstfl. voru rangar og tilhæfulausar, eins og þá stóð á. Stjórnin hafði styrk til þess að leysa þau mál, er að kölluðu, og hún gerði það. En það þarf meira en litla dirfsku til þess af manni, sem gagnrýndi á þennan hátt stjórnarmyndun Framsfl. á friðartímum, þótt erfiðir væru á marga lund, að taka sér fyrir hendur að „löðrunga sig“ með því að mynda stjórn á þann hátt, sem hann nú hefur gert.

Það vita allir, að þótt byrjunarskrefin hafi verið stigin í dýrtíðarmálunum, þá er enn þá margt óleyst í þeim málum. Það er vitað, að skortur á vinnuafli stendur framleiðslunni stórkostlega. fyrir þrifum, og það liggur fyrir, að hún bíði hnekki og dragist stórkostlega saman, ef ekki eru sérstakar ráðstafanir gerðar til þess að leysa það mál. Þær ráðstafanir yrðu meðal annars að vera fólgnar í takmörkun á verklegum framkvæmdum ríkis og einstaklinga, til þess að vinnuaflið leitaði til framleiðslunnar á nýjan leik. Fjöldamörg önnur verkefni og af svipuðu tagi blasa við, sem þessi ríkisstj. er gersamlega ófær um að leysa. Auk, þess skapar sambúðin við her þann, sem í landinu dvelur, og ófriðurinn stöðugt og nær því daglega ný og erfið úrlausnarefni. Þrátt fyrir þetta skirrist Sjálfstfl. ekki við að fleygja frá sér öllu ábyrgu starfi og mynda stjórn, sem hann veit vel, að er engin stjórn og ekkert getur gert að gagni, aðeins hangið fram yfir kosningar.

Sumum kann að finnast, að nú sé svo komið fyrir tilstuðlan þeirra flokka, sem stofnað hafa til ófriðarins, að ekki verði reist rönd við upplausninni og þjóðinni verði ekki bjargað undan ráðleysi þeirrar ríkisstj., sem við hefur tekið, og þess þingmeirihluta, sem styður hana og situr á svikráðum við hana um leið. — Þetta er þó hinn mesti misskilningur. Umboðslausir þm. hafa að vísu bundizt samtökum um að segja slitið innanlandsfriðnum og hlaupa frá þeim verkefnum, sem vinna þarf, — en þjóðin á eftir að segja sína skoðun.

Enn er hægt að bjarga málinu við með einföldu móti, — með því að menn fylki sér um frambjóðendur framsóknarmanna við kosningarnar og veiti flokknum stöðvunarvald á Alþingi í sumar, — ekki til að stöðva til frambúðar allar breytingar á kosningafyrirkomulagi og stjórnarskrá — heldur til þess að skapa starfsfrið, á meðan styrjöldin og hernámið varir, og undirbúa rækilega framtíðarstjórnskipun ízlenzka ríkisins.

Með þessu móti er hægt að setja niður deilurnar og skapa á ný forustu um atvinnu- og fjárhagsmálin, sem nú krefjast úrlausnar.

Með þessu eina móti er hægt að komast hjá tvennum kosningum á sama árinu og stöðva svo að segja í fæðingunni þá upplausn, sem nú er verið að stofna til.