20.05.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (1306)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ísleifur Högnason:

Hv. 1. þm. S.-M, Eysteinn Jónsson, stóð hér fyrir framan hljóðnemann og æpti til þjóðarinnar: Hvers vegna er verið að hrinda þjóðinni út í tvennar harðvítugar kosningar?

Þjóðin spyr á móti: Með hvaða rétti framlengdi þessi þm. sjálfur þingmennskuumboð sitt, þverbraut alveg að ástæðulausu stjórnskipunarl ríkisins og hefur setið með stolin völd í heilt ár? Hún spyr enn fremur: Með hvaða rétti setur þessi geðvonda frekjudós lög, sem ræna 9/10 hluta þjóðarinnar sínum helgasta og frumstæðasta rétti, sem stjórnarskráin heimilar, en það er sjálfsákvörðunarréttur verkalýðsins um að semja sjálfur um kaup sitt og kjör? Og þjóðin svarar: 1. þm. S.-M. er ekki annað en gerviþingmaður með stolinn rétt til valda. Slíkur maður hefur ekki hinn minnsta rétt til þess að spyrja í nafni þjóðarinnar. Þjóðin mun svara honum og öðrum honum líkum, ósvífnum valdaránsmönnum, að hún telur ekki eftir sér að fara á kjörstað í sumar og afneita þar, í eitt skipti fyrir öll, þeim mönnum, sem svíkjast að henni með þrælalög og annað svipað góðgæti.

Frá því er þýzku auðmennirnir útþurrkuðu Weimarstjórnarskrána 1933 og fengu Hitler og nazistaflokknum í Þýzkalandi öll völd í hendur, hefur afnám hinna borgaralegu lýðréttinda verið dagskrármál auðmannastétta allra landa og þá einnig hér á landi.

Markaðsleysi innlendrar framleiðslu og í kjölfar þess atvinnuleysi og hvers konar bágindi undirstéttanna hafa auðmennirnir og málpípur þeirra jafnan kennt stjórnarformum sínum, spillingu, þingræðis- og lýðræðisskipulaginu, en gætt þess vandlega að dylja hina einu sönnu orsök ófarnaðarins, sem er sjálft hagkerfi auðvaldsþjóðfélagsins, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða til markaðskreppna og atvinnuleysis, árekstra milli hinna sundurvirku afla innan auðvaldsþjóðfélagsins og loks til vopnaðra árekstra út á við í samkeppninni við önnur auðvaldsríki í baráttunni um markaði.

Nauðsynlegur undirbúningur undir árekstrana út á við, styrjöldina, er friðurinn inn á við. Þessum friði, þessari þvinguðu samstillingu, kom Hitler á í Þýzkalandi með því að hefta allt persónufrelsi verkalýðs, bænda og millistétta með ógnarstjórn og með því að sýkja hugarfar mikils hluta þjóðarinnar og þá fyrst og fremst æskulýðsins með kynþáttahroka og þýzkum þjóðernismetnaði, sem hvergi á sinn líka. „Stétt með stétt“ var kjarni stefnu þeirrar, sem Hitler boðaði með þeim árangri, sem nú er að verða æ augljósari, en það er eigi aðeins tortímingu og limlesting á kjarna þýzku þjóðarinnar, heldur og hin villimannlegasta og viðbjóðslegasta grimmd í öllum styrjaldarrekstri, sem gervallt mannkynið stynur nú undir og sjómannastéttin íslenzka hefur ekki farið varhluta af.

„Stétt með stétt“ var kjörorð það, sem Sjálfstfl. barðist undir við alþingiskosningarnar árið 1937. Hinir lyktnæmu foringjar Framsóknar- og Alþfl. fundu fyrir þessar kosningar, að frelsisunnandi íslenzk alþýða til sjávar og sveita var ekki ginnkeypt fyrir hinni einræðissinnuðu stefnu afturhaldsins í íhaldsflokknum, og tóku upp kjörorð það, sem Kommúnistaflokkurinn hafði frá öndverðu barizt undir og Sósíalistaflokkurinn berst nú undir og átti enda líf sitt og tilveru undir komið. Þetta kjörorð er verndun lýðréttinda alþýðunnar og aukning þeirra.

Í kosningunum 1937 sigraði stefna lýðræðisaflanna í landinu, þótt naumlega væri, en tapaði eftirminnilega, þegar til kasta Alþingis kom, eins og saga þingsins sannar bezt. Sögu þessa kjörtímabils rakti hv. 1. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason í gærkvöld, og mun ég ekki þreyta hlustendur á að lýsa þeim heildarsvip, heldur hugleiða nokkur einstök atriði í þróun þingsögunnar, þróun, sem ætti að sanna, að einnig hér á landi hefur dagskrármál auðmannastéttarinnar, afnám hinna borgaralegu lýðréttinda að dæmi Hitler-Þýzkalands, verið og er enn í fullum gangi.

Það er skemmst frá því að segja, að í öllum þeim málum, sem fram hafa komið hér á Alþingi og miðað hafa að því að skerða hin unnu lýðréttindi fólksins, hvort heldur málin hafa náð fram að ganga eða ekki, hefur Framsfl. óskammfeilinn gengið fram fyrir skjöldu hinna stjórnarflokkanna. Þjónkun flokksins, og þá fyrst og fremst forustumanna hans, við stórútgerðina og auðmenn landsins hefur verið svo grímulaus, að hver maður hlýtur að sjá og undrast, að í hugarfar í manna skuli fyrirfinnast jafnflaðrandi auðsveipnisnáttúra sem raun ber vitni.

Eitt áþreifanlegasta dæmið er að finna í lagafrv., sem form. Framsfl., hv. þm. S.-Þ., Jónas Jónsson, sem er fyrsti flm. vantraustsins, sem hér er til umr., flutti ásamt þeim Þorsteini Þorsteinssyni og Bernharði Stefánssyni á haustþinginu 1939. Frv. nefndist: Nokkrar ráðstafanir vegna núverandi styrjaldarástands o.fl.

Stríðið var þá nýbyrjað í Evrópu. Hitler hafði vaðið með heri sína að heita mátti viðnámslaust yfir Pólland og lagt undir sig stærri og stærri landssvæði í austanverðri álfunni. Herstyrkur bandamanna virtist þróttlaus og einskis megnugur borinn saman við hina ægilegu vígvél Hitlers. Fylling dagskrármálsins, afnám lýðréttindanna, sýndist blasa við gervallri Evrópu. Það var um þetta leyti, sem formaður Framsfl. þóttist svo öruggur um sigur Hitlers, að hann í þingræðu játar loksins opinberlega og afdráttarlaust, að fyrirmyndin, sem við Íslendingar eigum að hafa við lagasetningu, sé Hitler-Þýzkaland. Hann segir orðrétt:

„Menn eru farnir að koma auga á það, að innan þjóðfélagsins er að myndast eins konar linka, sem er þess eðlis, að hún gæti riðið okkur að fullu. Okkar land hefur fengið að kenna á því eins og aðrar þjóðir, hvernig getur farið, ef ekki er til í landinu nógu sterk stjórn. Það má taka til dæmis Þýzkaland. Þar í landi voru fyrir stríðið margir flokkar, en þó að þessa flokka greindi ekki mikið á, þá gátu þeir aldrei myndað sterka stjórn, og upp risu tveir öndverðir flokkar, sem gerðu það að verkum, að ástandið varð enn þá sjúklegra en áður, og allur þessi flokkadráttur endaði með því, að þar í landi var komið á einræði undir stjórn Hitlers.“ Og áfram: „Þegar atvinnuástandið var sem verst í Þýzkalandi, voru þar um 7 milljónir atvinnulausra manna. Þýzka þjóðin tók á þessum vandamálum í stórum stíl, en við verðum að láta okkur nægja að taka á þeim í litlum stíl. Þýzka þjóðin var búin að reyna frjálslyndi flokkanna, — því þá ekki að reyna hina? Og þetta var einmitt það, sem þýzka þjóðin gerði.“

Og hvernig er það, sem formaður Framsfl. og halastjörnur hans vilja láta Alþingi taka á málunum „í litlum stíl“ samkvæmt þýzkri fyrirmynd?

Í frv. sínu vilja þeir láta þrjá hina stærstu þingflokka, þ.e. Sjálfstfl., Alþýðu- og Framsfl., tilnefna þriggja manna nefnd, sem hafi á borði framkvæmdir undir yfirstjórn þáv. kennslumálaráðh., hv. þm. Str. Hermanns Jónassonar. Meðal annars á þessi nefnd að hafa með höndum (orðrétt)

„Ráðstöfun atvinnulausra framfærsluþurfa, er sveitarstjórn hefur ekki komið í vinnu. Heimilt er að ráðstafa slíkum mönnum til starfs hvar sem er á landinu, á heimili, til atvinnufyrirtækja og í vinnuflokka undir opinberri stjórn eða með öðrum hætti. Nefndin semur um starfskjör þeirra, sem á þennan hátt er ráðstafað, og hefur fullnaðarúrskurðarvald um vinnuskyldu allra þeirra, sem hún eða sveitarstjórn ráðstafar til vinnu.“

Það er fljótséð, að hér er ekki tekið með neinni linku á vandamálunum. Atvinnuleysið, sem allt fram að heimsstyrjöld var hið ægilegasta böl alls þorra fólks við sjávarsíðuna og á rætur sínar í búskaparháttum auðvaldsþjóðfélagsins, var af málpípum auðmanna og annarra snýkjudýra þjóðarinnar skilorðslaust kennt leti verkamanna og ódugnaði til þess að bjarga sér.

Styrjaldarástandið hefur að fullu og öllu afsannað þessa harðýðgislegu falskenningu. Það eru nú atvinnuleysingjar fyrirstríðstímanna, sem leggja hvað harðast að sér og unna sér engrar hvíldar frá vinnu, til þess að afla sér og sínum lífsframfærslu. Þess þekki ég fjölmörg dæmi. Þessa menn vill form. Framsfl. svipta öllu persónufrelsi, taka upp hreppaflutninga á ný, sundra fjölskyldum þeirra og senda þá sem ánauðuga þræla í vinnu hjá stórbændum og stóratvinnurekendum fyrir starfskjör, sem nefnd hinna þriggja stærstu þingflokka þóknast. Hefði frv. þetta komið til framkvæmda, er ekki erfitt að geta sér til um árangurinn fyrir pyngju atvinnurekendanna. Ódýrt vinnuafl er þeirra fyrsta og síðasta nauðsyn til þess að græða fé. Og það væri synd að segja annað en að Framsfl.-formaðurinn líti ekki með sinni sanngirni á hina erfiðu tíma atvinnuveganna, eins og hún lýsir sér í þessari tillögu.

Ekki var heldur stórútgerðinni gleymt í þessu frumvarpi. Í annari grein segir:

„Heimilt er ríkisstjórninni að skipa svo fyrir, að á íslenzkum skipum megi vera færri skipstjórnarmenn og vélamenn en skylt er samkvæmt lögum ... Ekki mega þó færri slíkir menn vert á íslenzkum siglinga- og fiskiskipum en sams konar skipum norskum.“

Í þessu efni fara flm. frv. sjálfsagt eftir einhverjum gróusögum um, að Norðmenn hafi færri skipstjórnar- og vélamenn en fyrir er mælt í íslenzkum lögum. Niðurlag greinarinnar er auðsjáanlega sett til þess að blekkja sjómenn á því, að öryggi þeirra sé jafnvel borgið eftir sem áður, þótt yfirmönnum með sérkunnáttu sé fækkað. Flytjendur málsins eru sjálfsagt hugprúðir menn og ósmeykir við hættur hafsins. Skraf formanns Framsfl. um þessar mundir um „hræðslupeninga sjómanna“ bendir til þess, að hann sé hvergi smeykur. Annað mál er það, hvort sjómennirnir sjálfir og þó sérstaklega aðstandendur þeirra í landi líta sömu augum á þetta og formaður þeirra framsóknarmanna.

Frv. var í 18 greinum, og var því ekki einungis ætlað að vernda hagsmuni atvinnurekenda. Menningarmál þjóðarinnar áttu ekki síður að njóta blessunar nazismans „í litlum stíl“.

Í 8. grein eru fyrirmæli þess efnis, að ráðh. sé heimilt að gera fréttastofu útvarpsins að sérstakri deild undir stjórn útvarpsráðs. Kennslumálaráðh., sem þá var Hermann Jónsson, skyldi skipa útvarpsstjóra. Ráðherranum var heimilað að sem ja við blöð „lýðræðisflokkanna“ (ekki vantaði salaeysissvipinn) um þátttöku í starfrækslu fréttastofunnar. Þá skyldi fresta að prenta umræðupart alþingistíðindanna. Í 14. grein er kennslumálaráðh. heimilað (orðrétt) : „a) að stytta hinn árlega kennslutíma í barnaskólum landsins og draga þannig úr útgjöldum við skólahaldið,

b) að sameina fámenn fræðsluhéruð um einn og sama kennara, þar sem því verður við komið.“

Þá skyldi og auka vinnu- og íþróttakennslu, en minnka að sama skipa kennslu í öðrum bóklegum fræðigreinum.

Manninn, sem á frumkvæði þessarar makalausu tillögu, klígjaði ekki við að gera för að Reykholti, tveim árum síðar, til þess að fella nokkur krókódílatár ásamt þeim Stefáni Jóhanni og Ólafi Thors, yfir moldum Snorra Sturlusonar á 700 ára dánarafmæli hans. Það verður að telja tjón fyrir trúboð andatrúarmanna, að engrar hræringar skyldi verða vart, þegar Jónas frá Hriflu kraup þar niður.

Tvennt er það í till. þessari, sem afhjúpar hugarfar flutningsmanna. Enda þótt þeir séu allir þrír þingmenn sveitakjördæma, þ.e. dreifbýlisins, sem þeir þykjast bera svo mjög fyrir brjósti, hlyti sparnaðarráðstöfun sem þessi að koma fyrst og fremst hart niður á börnum dreifbýlísins. Ef ríkissjóðinn ætti að muna nokkuð um fé það, sem sparaðist við sameiningu fræðsluhéraðanna og fækkun kennara, yrði fækkunin að vera yfirgripsmikil, segjum allt að helmingi. Kennarar þeir, sem atvinnu misstu við þetta, mundu að sjálfsögðu ekki þurfa að kvíða því að þurfa að sitja lengi auðum höndum, því að önnur ákvæði frumvarpsins, sem ég lýsti rétt áðan, sjá til þess, að þessum atvinnulausu kennurum yrði ráðstafað fyrir starfskjör, sem þriggjaflokkanefndin mundi væntanlega tryggja, að yrðu ekki til hruns hinum illa stöddu atvinnuvegum. Útkoman hefði þá orðið sú, að atvinnurekendur hefðu grætt peninga á vinnuafli hinna atvinnulausu kennara, en fátæk sveitabörn hefðu tapað menntun.

Frv. var orðið mjög aðgengilegt fyrir samstarfsflokk Framsóknar, enda einn flutningsmanna þingmaður þess flokks, nefnilega Sjálfstfl. Þá komum við að síðara atriðinu, sem fullnægir ekki síður embættis- og bitlingamannalýð Framsóknar, en það er aukning vinnu- og íþróttakennslu, en minnkun að sama skapi kennslu í öðrum bóklegum fræðigreinum.

Og hvað skyldi það annars vera, sem gæðingum Framsfl. er nauðsynlegra, eins og ferill þeirra er orðinn, en einmitt þetta? Væri þeim ekki öllu auðveldara að koma á nazistísku einræði hér á landi, ef kynslóð sú, sem nú er að alast upp, yrði ólæs og illa uppfrædd? Væri ekki auðveldara að svíkja heit sín við fátæka alþýðu sveitanna, hefði kennslumálaráðh. einokun á öllum útvarpsrekstri, eða með því að girða fyrir það, að sveitamenn, sem notið hafa almennrar skólamenntunar og eru læsir, fái Alþingistíðindin handa á milli? Ég held, að ekkert væri þessum flokki farsælla til framdráttar.

Það verður ekki af þm. Framsóknar skafið, að lið þeirra er samhent og einhuga með einsdæmum, eða ódæmum, a.m.k. er það mjög sjaldgæft, að þm. þeirra greini á um málefnið opinberlega. Annars verður það ekki séð greinilega, hvað það er í lífsskoðunum og stefnumálum, sem skilur þá frá öðrum afturhaldsmönnum, nema ef vera kynni, að þeir eru að mun framhleypnari og meiri ákafamenn í framkvæmd dagskrármálsins mikla að afmá lýðræðið. Kann þessi dyggð þeirra að vera sprottin af þeirri viðurkenndu staðreynd, að auðurinn er afl þeirra hluta, sem gera skal, og að þeir vilji á þennan hátt sýna samstarfsflokknum, flokki auðmannanna, húsbóndahollustu sína.

Þó að samheldni þingmanna flokksins sé slík sem ég hef lýst, mun formaður flokksins þó njóta þeirra fríðinda umfram hina að fara sínar eigin götur í einstaka tilfelli. Svo var til dæmis í þessu umrædda styrjaldarráðstafanamáli. Hann flutti sem sagt upp á eigin spýtur nokkrar viðaukatillögur við frv., eftir að það var lagt fyrir þingið. Hér er ein þeirra:

c. Hver sá maður, karl eða kona, sem beiðist inngöngu í menntastofnanir, sem starfræktar eru af ríkinu og styrktar af því, skal sanna með vottorði frá formanni búnaðarfélags þeirrar sveitar, sem hann dvaldi í, að umsækjandi hafi starfað að minnsta kosti eitt ár samfleytt í sveit eftir 13 ára aldur og hlotið þar góðan vitnisburð.“

Þessi till., þótt með einsdæmum sé, er langt frá því að vera í ósamræmi við anda frv. sjálfs. Hvað liggur nær að ætla en úr því að sveitaæskan getur bjargazt af eigin brjóstviti, án lítillar sem engrar bóklegrar menntunar, muni það kaupstaðaæskunni beinlínis þekkingarbrunnur og nauðsynlegur undirbúningur undir æðri menntun að moka fjósflór, reka kýr og teyma hesta?

En setjum nú svo, að kaupstaðarbúar væru haldnir slíkri ofsatrú á menningargildi kaupstaðavinnu, sem formaður Framsfl. sýnist vera, hvað viðkemur ágæti sveitavinnunnar, og þingmenn þeirra í krafti valdaaðstöðu sinnar, sem er ótvíræð þrátt fyrir ranglátt kosningafyrirkomulag, — og þeir krefðust þess af unglingum úr sveit, að þeir yrðu, ef þeir vildu leita sér æðri menntunar, að vinna eitt ár samfleytt að fiskaðgerð, beitingu eða sem vikadrengir á togurum og fengju ekki aðgang að æðri menntastofnunum, nema þeir gætu lagt fram vottorð frá formönnum félaga útvegsmanna í viðkomandi bæ? Hvað mundi sveitafólkið segja við slíkum ófögnuði? Ég vænti, að það mundi þakka fyrir, sem ekki væri að undra.

Ef ekki væri fyrir hendi sú staðreynd, að gömul menningarþjóð, eins og þýzka þjóðin verður að teljast, hefur látið ánetjast viðlíka brjálæðisvef og þeim, sem form. Framsfl. er að leggja fyrir þessa þjóð, mundi hvorki mér né öðrum láta sér til hugar koma að eyða orðum að till. líkum þeim, sem ég hef lýst hér að framan. En iír því að þessi ógæfa dundi yfir þýzku þjóðina, vaknar hjá manni sú spurning, hvort þetta sama geti ekki einnig hent hér heima.

Annar flm. vantrauststill. er hv. þm. Str., Hermann Jónasson, en hann hefur nú, sem kunnugt er, nýverið lagt niður ráðherradóm. Aðalmunurinn á honum og fyrsta flm. er sá, að honum tekst öllu betur að fá þeim málum Framsfl. framgengt, sem hann ber fram. Andinn er samur við sig.

Það má telja víst, að haustið 1939 hafi þjóðstjórnin verið fastráðin í því að banna endanlega verkfallsrétt manna. En slíkt lögbann hefur stjórnin séð, að var óframkvæmanlegt, nema því aðeins, að hún réði yfir það sterkum líkamlegum ofbeldistækjum, að auðvelt væri að brjóta mótþróa verkalýðsins gegn slíku banni á bak aftur. Þessi líkamlegu tæki fékk þjóðstjórnin á haustþinginu árið 1939 með lögum, sem allt þjóðstjórnarliðið samþykkti um heimild fyrir ríkisstjórnina, til þess að auka ríkislögregluna ótakmarkað og útbúa þessa lögreglu öllum nauðsynlegum tækjum á kostnað ríkisins. Þessi tæki eru í daglegu tali kölluð vopn, en hlutverk vopna er nú til dags það eitt að drepa fólk. Flutningsmaður þessara nýju ríkislögreglulaga var þáv. forsrh. þeirra framsóknarmanna, Hermann Jónasson.

Allt frá því er verklýðshreyfingin eignaðist samtakamátt til þess að rétta hlut sinn í launadeilum við atvinnurekendur, hafði öflug ríkislögregla verið eitt hið hjartfólgnasta stefnumál íhaldsmanna og síðar hinna svokölluðu sjálfstæðismanna, en flokkur þeirra var frá öndverðu aðaltæki auðmanna þessa lands í stjórnmála- og valdabaráttu þeirra.

Magnús Guðmundsson beitti sér mjög fyrir þessu máli á sínum tíma. En verkalýður landsins, sem þá var að vísu ekki eins fjölmennur og nú, en að sama skapi harðsnúnari, sá, að hverju stefndi, og knúði fram í þinginu öfluga andstöðu gegn ríkislögreglufrv. Það voru þeir Tryggvi Þórhallsson og Jón Baldvinsson sem fastast lögðust gegn frv. þeirra íhaldsmanna. L. náðu ekki fram að ganga. Allt til kosninganna 1937 var Framsfl. í orði kveðnu andvígur ótakmarkaðri ríkislögreglu og vænti ég, að menn séu þess minnugir, hversu harkalega Hermann Jónasson deildi á Ólaf Thors fyrir kosningarnar, vegna þess að Ólafur hafði í sinni stuttu ráðherratíð pantað smíði á 400 eikarkylfum handa lögreglunni í Reykjavík og fyrir þær fyrirætlanir Ólafs að breyta sundhöllinni, sem þá var komin upp, en ekki innréttuð, í allsherjarfangabúðir. Hermann var í hinni fyrri ráðherratið Ólafs lögreglustjóri hér í Reykjavík og vissi manna bezt um öll þessi mál, enda varð uppljóstran þeirra honum og hans flokki, Framsóknarflokknum, til allverulegs framdráttar í kosningunum.

Þó liðu ekki nema rösk tvö ár frá þessum kosningum, þar til Hermann Jónasson flytur sjálfur frv. á Alþingi um ótakmarkaða ríkislögreglu og takmarkalausan útbúnað og tæki henni til handa.

Með vinnulöggjöfinni, sem þjóðstjórnarflokkarnir samþykktu árið 1937, var verkalýðssamtökunum gert mjög örðugt um að rétta hlut sinn með verkföllum. Í l. um ótakmarkaða ríkislögreglu lét flm. til bragðbætis fylgja það ákvæði, að lögregluna skyldi ekki nota gegn þeim verkamönnum, sem gerðu lögleg verkföll. Þetta atriði margundirstrikaði hann, er hann mælti með l. Þrátt fyrir þetta ákvæði veit hver einasti verkamaður, að ríkislögreglan verður notuð, nákvæmlega eins og bæjarlögreglan hefur verið notuð, gegn verkfallsmönnum. Og vissulega mundi dómsmrh. atvinnurekenda ekki verða nein skotaskuld úr því að úrskurða verkfall ólöglegt, til þess að koma við vopnavaldi í sína þjónustu. Þessi er reynslan hér, og þessi hefur hún hvarvetna verið.

Það er ekki einungis táknrænt fyrir einræðisþróun Framsfl., heldur og Alþfl., hvernig fór um afgreiðslu málsins í þinginu. Eina andstaðan gegn l. kom frá Sósfl. Undir umr. voru það að heita mátti framsóknarmenn einir, sem vörðu frv. Þeir höfðu þá endanlega ráðið sig hjá íhaldsflokknum, svo að þingmenn hans þurftu fyrir engu að hafa. En enginn, ekki einn einasti Alþýðuflokksþm., mælti gegn frv. Þar var dauðaþögn og samþykki. Í efri deild greiddi Sigurjón Ólafsson, núv. formaður Alþýðusambandsins, atkv. með l., þessum vágesti verklýðshreyfingarinnar, sem flokksbræður hans utan þingsins höfðu áratugum saman barizt gegn og engar fórnir sparað.

Enn hefur alþýða landsins ekki fengið að kenna á tækjum þessa nýstofnaða herliðs. Hitt er opinbert mál, að ríkislögreglan er fjölmenn og sleitulaust þjálfuð í meðferð skotvopna. Lögreglumennirnir eru sendir í hópum út úr bænum til skotæfinga. Í undirbúningi er bygging stórhýsis við Reykjavík til þess að þjálfa liðið í.

Það, sem veldur mönnum þó hvað mest uggs og andstyggðar á þessu vígbúnaðarfargani er, að eftir síðastl. áramót hefur ríkisstj., fyrir milligöngu heildsala að mér er tjáð, flutt til landsins, ekki aðeins riffla og riffilskot í þúsundatali, heldur og hríðskotabyssur og eiturgas ásamt tækjum til að dreyfa því. Einar Olgeirsson sagði frá þessum vopnasendingum við útvarpsumr. fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Hermann Jónasson, sem talaði á eftir honum í útvarpið, setti rjóðan, en að hann svaraði ádeilu Einars, það mun honum víst ekki hafa dottið í hug, enda þagði hann um þetta.

Þess má geta, að brezka setuliðið mun hafa gert upptækan einhvern hluta vopnasendinganna, er þau komu til landsins, því að svo voru þau mikil fyrirferðar, að eigi var vitað gegn hverjum þau skyldu notuð, — brezka hernum, sem dvelur hér á landi, eða varnarlausum almenningi, annað kemur naumast til álita. Bretum mun hafa þótt hið fyrra trúlegra, því aðeins hafa þeir gert vopnin upptæk.

Þriðji flm. vantrauststill. er hv. þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, aðalhöfundur hinna illræmdu gerðardómsl. Um gerðardómsl. er ekki þörf að fara mörgum orðum. Þau eru landsmönnum í fersku minni. Lengi vel hélt þessi þm. því fram, að brbl. um gerðardóm hefðu verið sett af þjóðarnauðsyn, að vísu væru lögin síður en svo vinsæl meðal þjóðarinnar, en honum tókst vonum framar að fá sina eigin áhangendur til þess að trúa því, að þannig væri um þessa löggjöf, eins og reyndar alla góða löggjöf. Þokukennd og dularfull rök, ef svo mætti kalla, um að fyrir sér vekti framtíðarheill þjóðarinnar, var það agnið, sem reyndist bezt. Síðar í umr. um gerðardómsl. var minna talað um þjóðarnauðsyn. Þá var því haldið fram, að l. væru eingöngu sett í þágu, — hverra haldið þið? Í þágu hinna fátæku meðal þjóðarinnar og þó sérstaklega fyrir verkamenn!

Þessu til stuðnings vitnaði hann í álitsskjal, sem hann hafði pantað hjá þremur hagfræðingum og fjallar um skyldusparnað. Fyrr má nú rota en dauðrota. Lögbann við kauphækkunum og hvers konar kjarabótum verkamanna og launþega, og auk þess bann við verkföllum, er gert eingöngu í þágu verkamanna. Þó að þjóðarnauðsyn gerðardómsl. hafi verið fremur dularfull og torskilin, kastar þá fyrst tólfunum, þegar verkafólki er ætlað að trúa slíkri firru, sem síðari skilgreiningin er. Ef dýrtíðin er slík þjóðarplága, að verkafólki er hagræði að því að sjá af hverri minnstu kjarabót til þess að stemma stigu við henni, ætli að Eysteini Jónssyni þætti ekki þjóðráð að fyrirskipa lækkun kaupgjalds og lenging vinnutíma til þess að draga úr böli dýrtíðarinnar? Það væri a.m.k. rökrétt ályktun, ef taka ætti mark á hinum fjarstæðukenndu fullyrðingum hans.

Þegar reikningar ríkissjóðs fyrir árið 1937 voru til umr. hér í deildinni, hnigu umr. að þeirri athugasemd við reikningana, að ýmsar ríkisstofnanir og stjórnardeildir ívilnuðu ákveðnum blöðum með því að birta í þeim opinberar auglýsingar. Greiðslur fyrir auglýsingarnar skiptust þannig niður á aðalmálgögn flokkanna: Blað Framsfl. bar úr býtum 5388 krónur, Alþfl. 4081 krónu, blöð Sjálfstfl. 1528 krónur, en blað Sósfl. 333 krónur.

Þegar þáv. fjmrh., Eysteinn Jónsson; var spurður um það, hvort auglýsingunum væri þannig skipt, vegna þess að ætla mætti, að neytendur tóbaks og brennivíns væri helzt að finna meðal lesenda blaða Framsóknar- og Alþýðuflokksins, en það voru tóbaks- og víneinkasalan, sem mest greiddu af þessu fé, svaraði ráðherrann orðrétt á þessa leið:

„Þetta auglýsingamál, sem hv. þm. fór út í, er þannig til komið, eins og oft hefur verið upplýst, að þegar Nýja dagblaðið var stofnað (blað Framsfl.), gerðu yfirvöld þessa bæjar þá ályktun að auglýsa þar ekki, heldur aðeins í þeim blöðum, sem þeim stóðu nær, og sögðust ekki þurfa önnur blöð til að koma auglýsingum til almennings. Við sögðum þeim blöðum þá, að þá gætum við líka verið án þeirrar hjálpar og auglýstum í Nýja dagblaðinu.“

Þegar ég síðar vítti þessa óheiðarlegu meðfer ð opinbers fjár og samsæri það, sem íhaldsmenn, Alþýðuflokks- og framsóknarmenn höfðu gert með sér um að láta á þennan hátt greipar sópa um almannafé til sinnar eigin pólitísku áróðursstarfsemi, myndað nokkurskonar þjófafélag kringum bæjarsjóð Reykjavíkur og ríkissjóðinn, greip ráðh. fram í ræðu mína með þessum orðum: „Það væri nú líka þokkalegt að fara að styrkja Þjóðviljann.“

Fyrst játar ráðh. þessi þokkalegu samtök, og síðan játar hann beinlínis, að auglýsingar ýmissa ríkisstofnana séu beinn styrkur til blaða þeirra, sem auglýst er í. Og þetta gerir hann alveg kinnroðalaust og talar um sem jafn sjálfsagðan hlut og ríkissjóðurinn væri hans eigin eign. Mig furðar satt að segja ekki á því, þótt hv. þm. Str. finni upp á því að selja eða leigja ríkisprentsmiðjuna, þó að ráðh. Framsfl. eigni sér lúxusbifreiðar ríkisins, um leið og þeir láta af embættum, og skipti um númer þeirra, úr því að þeim finnst sjálfsagt að nota ríkissjóðinn til þess að ausa út fé til styrktar flokksblöðum sínum og þá um leið sinnar eigin buddu. Og ætli Hitler líti ekki svipuðum augum á fé hins opinbera? A.m.k.. er ég viss um, að afstaða hans til styrkja á málgögnum stjórnarandstöðu sinnar er ekki ólík skoðunum Eysteins Jónssonar.

Hv. þm. Str., Hermann Jónasson, sagði í ræðu sinni í gær, að samningar hefðu verið gerðir milli Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins um ýmis þau mál, sem sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins hefði opinberlega lýst yfir, að væru bráðnauðsynleg til þess að verja þjóðina hruni og enn biðu úrlausnar.

Beygitöng er verkfæri, sem allir vita, að saman stendur af tveimur álmum og einum nagla. Vanti aðra álmuna og naglann, sem heldur þeim saman, er verkfærið gagnslaust, og með einni álmu verður enginn klipinn.

Gerðardómsl, eru af flm. þeirra hugsuð sem tangararmur, og er smíði hans að kalla má lokið, og gerðardómsl. eiga að afgreiðast frá þinginu næstu daga. En því hefur verið margyfirlýst af flutningsmanni laganna, að ákvæði gerðardómsl., bann við hækkun grunnlauna og hvers konar kjarabótum verkalýðnum til handa, kæmu ekki að neinu gagni, verkamenn mundu samt sem áður fá kjarabætur og kauphækkanir á meðan eftirspurnin eftir vinnu þeirra er jafn mikil og nú. L. eru því ekki annað en tangararmur, sem ekki væri hægt að klípa með einum saman. Hinn tangararmurinn er sköpun atvinnuleysis, og höfðu flm. hugsað sér ,að því mætti ná með samningum við hin erlendu setulið: með mikilli fækkun innlendra verkamanna í þessari vinnu, innflutningi verkafólks frá Færeyjum og nú síðast allsherjar vinnumiðlun ríkisins. Það er þessi tangararmur, sem þjóðstjórnarliðið á eftir að smíða, til þess að geta komið hinu langþreyða tangarhaldi á verklýðsstéttina.

Í umr. þeim, sem hér hafa farið fram um stjórnarskrárbreytinguna, og þá sérstaklega hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum, hefur það upplýstst, að Framsfl. hefur, allt fram á síðustu tíma, eða þangað til þetta kosningafyrirkomulag til Alþingis varð að dagskrármáli, barizt fyrir því, að upp yrðu teknar hlutfallskosningar til búnaðarþings.

En um þetta búnaðarþing er það að segja, að það er nokkurs konar ríki í ríkinu. Ákvarðanir búnaðarþingsins og tillögur þess til löggjafar hafa jafnan verið skoðaðar af alþm. framsóknarog íhaldsmanna sem grundvöllur sá, er landslög bæri að byggja á. Búnaðarþingið er skipað þingfulltrúum þessara tveggja stærstu flokka, og mun Framsókn hafa meiri hluta, enda er einn alþm. flokksins búnaðarmálastjóri, Steingrímur Steinþórsson.

Búnaðarþingið sat á rökstólum síðari hluta marz mánaðar, og mikilvægasta málið, sem þetta þing afgreiddi og samþykkti einróma, var fullsmiðað lagafrv., sem leggja skyldi fyrir Alþingi, og fjallar það um nýmæli, — sem sé allsherjar vinnumiðlun ríkisins.

Af ástæðum, sem mér eru ekki kunnar, en ég get getið mér til, hverjar eru, hafa blöð hinnar afdönkuðu þjóðstjórnar ekki tekið opinbera afstöðu til málsins, en efni þess er í stuttu máli eftirfarandi, og bið ég verkafólk að veita því sérstaka athygli:

Ríkisstjórnin taki í sínar hendur alla vinnuúthlutun í landinu. Engum íslenzkum þegni er heimilt að ráða sig beint eða óbeint í þjónustu hins erlenda setuliðs. Vinnumiðlunin hafi það hlutverk með höndum að sjá íslenzkum atvinnurekendum fyrir nauðsynlegu vinnuafli, að semja við setuliðið um fjölda verkamanna, sem hjá því vinnur, að innheimta öll verkalaun þeirra, sem vinna hjá setuliðinu, að stuðla að dreifingu vinnuafisins eftir því, sem nauðsyn þjóðarinnar (les: stóratvinnurekenda) krefur á hverjum tíma, og loks kemur svo rúsínan, sem þessir dándismenn aldrei gleyma, en það er að ákveða sér þóknunina, en hún er ekki neitt smáræði:

„Til vinnumiðlunarstofnunar ríkisins greiðist umsetningargjald af allri vinnu, sem unnin er í þjónustu erlendra vinnuveitenda eða við verk, sem þeir kosta, er nemur allt að 15% miðað við fjárhæð verkalaunanna.“

Þótt maður sé tekinn að venjast því að sjá og heyra ýmislegt af svipuðu tagi sem þessu frá stjórnmálabröskurum þjóðstjórnarliðsins á síðustu þingum, er hugmyndin, sem felst í þessu frv. og ugglaust er runnin undan rifjum þeirri kumpána Jónasar frá Hriflu og Ólafs Thors, svo óskammfeilin og um leið auvirðileg, að nærri stappar, að sjálf gerðardómsl., sem að vísu eru af sama toga spunnin, taki þessu ekki fram um ofbeldis- og kúgunartilhneigingu. Verkamenn eiga samkv. frv. ekki að fá að ráða því sjálfir, hjá hvaða atvinnurekenda þeir kjósa að vinna, þó að nóg vinna sé í boði. Þeim á af vinnumiðlunarstofnun ríkisins að ráðstafa eins og búpeningi. Launum sínum eiga þeir ekki að fá að veita móttöku sjálfir, heldur eiga gæðingar þjóðstjórnarinnar að handfjatla þau fyrst, og ef vinnan er unnin hjá erlendum mönnum, á þessi þokkalega stofnun að taka til sinna eigin þarfa liðlega sjöundu hverja krónu, sem þeir innheimta.

Vilji maður grafast fyrir það, hve miklu sú upphæð kæmi til að nema, sem stofnuninni er ætlað að taka af launum verkamanna, er það fljótséð. Sé gengið út frá því, að í setuliðsvinnunni vinni að jafnaði 3000 verkamenn innlendir allan ársins hring, sem ekki mun of hátt reiknað, og að meðallaun verkamanns sé 1000 krónur á mánuði, og er þá tekið tillit til bæði ófaglærðra verkamanna, sem hafa að vísu lægri laun, og faglærðra verkamanna og bílstjóra, sem hafa miklu hærri laun, verður útkoman sú, að erlenda setuliðið greiðir 3 milljónir króna í verkalaun á mánuði eða 36 milljónir yfir árið. Af þessu á vinnumiðlunarstofnunin að fá 15% eða tæplega 51/2 milljón króna tekjur.

Þessi fjáraflaplön gæðinga Sjálfstæðis- og Framsfl. varpa skýru ljósi á stéttareðli fulltrúa þeirra, sem sveitaalþýðan sendir á búnaðarþing og Alþingi. Það er ekki rannsakað mál, hversu margir verkamenn úr sveitum landsins hafa þyrpzt til kaupstaðanna og þá sér staklega til Reykjavíkur til þess að sækja sér björg í bú með því að selja innlendum sem erlendum atvinnurekendum vinnu sína, en áreiðanlega skipta þeir þúsundum. Ef slík vinnumiðlun væri upp tekin, sem frv. gerir ráð fyrir, mundi það eflaust falla í hlut sveitaverkamanna að vinna hjá setuliðinu, ef þeim þá á annað borð yrði leyft að afla sér tekna með þeim hætti. Verkamenn kaupstaðanna mundu áreiðanlega ekki láta þessari stofnun liðast að senda sig sem húðarbikkjur til vinnu, hvar sem stofnuninni þóknaðist, og mundu vegna kunningsskapar og vegna betri aðstöðu yfirleitt sneiða hjá því að láta þannig hírudraga sig, eins og til er ætlazt í frv. Útkoman yrði því sennilega sú, að fátækir bændur og bændasynir, sem koma í atvinnuleit, yrðu fyrir því að lenda í setuliðsvinnunni, og á þá kæmi 15% skatturinn til skrifstofuliðs og forstjóra vinnumiðlunarstofnunarinnar.

Ég gat þess áðan, að blöð þjóðstjórnarliðsins hefðu ekki enn opinberlega tekið afstöðu til þessa máls, og er ég þess fullviss, að ástæðan er sú, að þegar búnaðarþingið tók ákvörðun sina, var útlit fyrir, að ekki yrði komizt hjá kosningum. Þó hefur upphafsmönnum tillagnanna ekki tekizt að leyna afstöðu sinni til fulls, því að upp úr formanni Framsfl. glopraðist fyrir skemmstu, að afstaðan er fyrirfram ákveðin. Þannig fer þeim, sem mikið skrifa. Síðastliðinn sunnudag skrifar Jónas frá Hriflu í Tímann grein undir fyrirsögninni: „Vilja framleiðendur landsins veika stjórn og innnanlandsdeilur?“

Jónas segir: „En eftir er að koma skipulagi á vinnuaflið í landinu og koma svo fram, að samningurinn við setuliðið komi að fullkomnu gagni.“

Fyrst er auðvitað að véla út kjósendafylgið til þjóðstjórnarflokkanna, sællar minningar, en eftir kosningarnar, — hvernig var það með krónulækkunina, samstarf vinstri aflanna í landinu gegn fasismanum og breiðfylkingu, hvernig fór ekki um öll hin fögru loforð um, að eitt skyldi yfir alla ganga á þessum erfiðu tímum? Í stuttu máli allt, sem flokkar þessir lofuðu fyrir síðustu kosningar, hafa þeir svikið.

Í afstöðunni til vinnumiðlunar ríkisins hafa flokkarnir engu lofað, en eitt er víst, og það er, að gæðingum þjóðstjórnarflokkanna mun þykja það eitt skorta, að gerðardómsl., sem banna verkalýðnum allar kjarabætur, komi að gagni sem þeir kalla, að íslenzkur verkalýður verði endanlega sviptur síðustu leifum persónulegs sjálfsforræðis og hann látinn ganga kaupum og sölum sem hver annar búpeningur. Þá er töngin fullsmíðuð, og þá er meiningin að beita henni.

Skyldi nokkurn furða, þótt nokkur hiti hlaupi í kosningarnar um réttlætismálið, eða að Ólafur Thors hóti eftirreið um sveitir landsins, ef búnaðarmálastjóri fer í yfirreið, þegar um er að ræða, hvor skuli hljóta ljónspartinn af þessari 51/2 milljón króna bráð, sem við þeim blasir af erfiðislaunum verkamanna til sjávar og sveita, að ógleymdum hinum óteljandi bitlingum og fríðindum, sem þeir hafa þegar aflað sér úr ríkisjötunni.

Einskis óska forsprakkar og stuðningsmenn þjóðstjórnarinnar sálugu heitar en kjósendurnir sjái ekki annað en stjórnarskrárbreytinguna, réttlætismálið, sem ég vil engan veginn telja lítils virði sem skref í áttina til aukins lýðræðis. En fyrst og fremst er þjóðinni nauðsynlegt að skilja, að hvaða marki auðmannastétt landsins keppir. Þó skal viðurkennt, að breytingin á kosningafyrirkomulaginu, sem fást mun samþykkt, er það fyrsta og eina víxlspor, sem þingið hefur stigið á hinni fasistisku þróunarbraut.

Sósfl. mun utan þings sem innan vinna sleitulaust gegn setningu nýrra þvingunarl. Verkefni hans og allrar alþýðu í landinu hlýtur á næstu tímum að vera það að afmá úr löggjöf og stjórnarfari fasisma þann, sem þjóðstjórnarliðið hefur smám saman verið að koma á. Kosningarnar, sem framundan eru, verða að sýna það, að þjóðin vill ekki búa við harðstjórn nazistisks bitlingalýðs. Hún verður að skilja, að sú leið er ein fær, sem leiðir til aukinna réttinda hins vinnandi manns til sjávar og sveita. Það verður leið Sósfl. í náinni framtíð. Þess vegna á allur þorri þessarar þjóðar samleið með Sósfl.