21.05.1942
Sameinað þing: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (1309)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti! Góðir áheyrendur! Ég hygg, að mér sé óhætt að segja, að enn þá hafi engir kveðið upp skýrari og alvarlegri áfellisdóm yfir því, sem nú hefur gerzt á Alþingi, en sú ríkisstj., sem að þeim atburðum stendur, og munu þó fáir finnast meðal þjóðarinnar, sem treystast til að mæla því bót. Umr. þær, sem fram hafa farið undanfarandi kvöld, hafa leitt það í ljós, að þeir, sem að hinni nýju ríkisstjórn standa, og hún sjálf fyrst og fremst, kosta alls kapps um það, og það eitt, að koma sökinni yfir á aðra af því tilræði, sem hér er stofnað til og þeir standa sjálfir að og —hafa myndað ríkisstj. til að koma fram. Alsaklausa telja þeir sig af að hafa rofið friðinn og samstarfið, — vissulega vilja þeir ekki flokksstjórn, heldur samstjórn, — líta á sina eigin stjórn sem ódæði, og ekki eiga þeir sök á því, að þeir neyðast til að taka upp þetta merkilega mál, kjördæmamálið. Það eru sannarlega aðrir, sem bera ábyrgð á verkum þeirra og athöfnum. — Þannig geta engir talað aðrir en þeir, sem eru alveg sannfærðir um sekt og svik við þjóð sína og vita, að verknaðurinn er fordæmdur af hverjum heiðvirðum og hugsandi manni í landinu. Og þá er karlmennskan og drengskapurinn ekki meiri en það, að afneitað er ábyrgðinni á eigin verkum, og áformin, sem á að framkvæma, eru meira að segja frá öðrum runnin.

Þessi berlega sektaryfirlýsing hinnar nýju ríkisstj. kom vel fram í hinu gálausa og furðulega hjali hins nýja ráðh.; Magnúsar Jónssonar, hér í gær um steiktu gæsirnar, sem hafi komið fljúgandi til flokks hans og hann hafi ekki getað neitað sér um. Þessi furðulega afsökun á slíkum alvörutímum sýnir og sannar berlegar en allt annað, hvaða óhapp hefur hent íslenzku þjóðina nú á þessum tímum og hver verknaður sá er, sem hinir nýju ráðh. hafa setzt í valdastól til að framkvæma. Og það er alveg víst, að þeim skjátlast ekki í því, hver dómur alþjóðar er um tilverurétt hennar nú, og verður þó máske enn harðari síðar, — sem sé ekki ósvipaður því áliti, sem allir óspilltir borgarar hernumdra landa hafa á þeim samlöndum sínum, sem gerast viljalaus verkfæri til að lama viðnámsþrótt og samheldni sinna eigin þjóða á mestu hættustundum í lífi þeirra, fyrir ímyndaðan eigin ávinning og fríðindi.

Ég skal nú víkja nokkrum orðum að þeim meginatriðum, sem fram hafa komið í málfærslu hinnar nýju breiðfylkingar íslenzkra bæjamanna, þar sem forustan er skipuð 1. og 2. þm. Reykv. með ættarland Kveldúlfsfjölskyldunnar í Rvík í forsæti.

Í fyrsta lagi telja þeir: Að sá sé áfellisverður, sem friðslitunum hefur valdið. Eru kommar þar þó undantekning, sem telja friðslitin það helzta, sem ríkisstj. nýju beri að þakka.

2. Að hin nýja ríkisstj. hafi þingstuðning til þess, og þess eins, að knýja fram það mál, sem mestum ágreiningi hefur valdið í íslenzkum stjórnmálum fyrr og síðar.

3. Að flokkarnir einir eigi kjósendafylgi í landinu, og persónulegt traust kjósenda og þingmanns eigi engan rétt á sér.

4. Að réttlætið, sem þeir kalla svo, í áhrifum kjósenda á löggjafarvald landsins, sé falið í höfðatölunni einni, og engu skipti um aðra aðstöðu í því efni.

5. Að sérstakur flokkur, þ.e. Framsfl., eigi slík sérréttindi tryggð í stjórnarskrá landsins, að þau verði að afnema.

6. Að óhæfa sé, að nokkur stjórn skapist í landinu, sem ekki hefur meiri hluta kjósenda að baki sér.

Þessi atriði skulu nú skýrð aðeins lítið eitt og athugað, á hve traustum rökum þau eru reist. Fyrst er þá, hver á þann áfellisdóm, sem vissulega er almennur, að slita friðnum í landi voru, eins og nú er ástatt. Ég held, að tilvitnanir þær, sem þm. Str. las hér upp úr blöðum Sjálfstfl. frá síðastliðnu sumri, þar sem kosningafrestunin er heimtuð afnumin, sanni nægilega, hver á þar upptökin. Dag eftir dag voru í blöðum þeirra sjálfstæðismanna heimtaðar kosningar í N.- Ísafjarðarsýslu, sem þá var orðin þingmannslaus, og stundum kosningar um land allt sem fyrst. Var það af því, að sjálfstæðismenn gerðu sér veika von um að geta unnið N.-Ísafjarðarsýslu. En aldrei hafði verið minnzt á, að kosningar færu fram á Snæfellsnesi, þótt sýslan þar hefði verið þingmannslaus í fast að tveimur árum. Ég minnist varla að hafa séð svæsnari eða rætnari árásargrein en þá, er Morgunblaðið flutti á fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, vegna þess að hann stofnaði ekki til kosninga í N.-Ísafjarðarsýslu s.l. sumar, þó að Alþingi hefði bannað, að kosningar færu fram, og vita þó allir, að ekki er klipið af gífuryrðunum og brigzlunum í því blaði. Þá var jafnframt veitzt hatrammlega að jafnaðarmönnum í því sambandi, sagt að þeir hefðu hag af kosningafrestun, væru búnir að missa alla sína kjósendur og væru ekki lengur með neinum rétti á Alþingi. En ekki þarf nema meðalgreindan mann til að sjá, að væri kosning látin fara fram í einu kjördæmi, þá hlaut skriðan að koma á eftir í þeim öllum, því að fáir þm. mundu hafa viljað hindra það, að kosning færi fram í þeirri eigin kjördæmi, þegar búið var að kjósa í öðrum.

Þessari ódrengilegu árás á samkomulagið frá síðasta vetrarþingi í blöðum sjálfstæðismanna mættu Alþfl.-menn með því að heimta almennar kosningar, sem von var til. En þegar svo var komið, að báðir samstarfsflokkar Framsfl. höfðu brugðizt því samkomulagi, sem gert var, og þeir voru búnir að gera kosningafrestunina að æfingamáli og hefja um það baráttu um kjósendur og flokkadeilur, þá lýsti fyrrv. forsrh, því yfir um áramót, mörgum mánuðum síðar, að óhjákvæmilegt mundi að láta kosningar fara fram á vori komanda, því að sjáanlegt var það, að af tvennu illu var þó betra að stofna til kosninga og fá starfsfrið á eftir, heldur en að látlaus æsingabarátta stæði um það, sem átti að verða til að skapa friðinn um kosningafrestunina. Ég skil ekki, með hverju móti hefði verið hægt að réttlæta slík vinnubrögð eða hversu var hægt að framkvæma áfram það samkomulagsatriði þriggja flokka, sem þeir höfðu svikið og neitað að hlíta áfram. — Með þessar staðreyndir fyrir augum eiga landsmenn að dæma um það, hver friðinn rauf, hvort það voru þeir tveir flokkar, sem heimtuðu fyrst kosningafrestunina afnumda, eða sá þriðji, sem ekki taldi fært eða ráðlegt að kúga þá aftur til að éta allt ofan í sig og verða góðu börnin á ný. Og íslenzkir kjósendur eru áreiðanlega færir um að dæma um þetta atriði og þótt torskildara væri.

Þegar það var þó komið í ljós, seint á yfirstandandi þingi, að Alþfl. gat hugsað sér að styðja stjórn, sem ætlaði að framkvæma gerðardóminn, og tillaga var komin fram frá einum þm. Sjálfstfl. um endurnýjun kosningafrestunar og samstarfs flokkanna, taldi Framsfl. rétt að vita, hvort alvara væri að baki, og gekkst fyrir því, að nefnd var kosin til að athuga, hvort möguleikar væru á að treysta nýtt samstarf.

Kom þá í ljós, að hvorugur hinna flokkanna vildi neitt gera til slíks og þeir voru ráðnir að hefja ófriðinn með þetta eina mál á stefnuskrá sinni, sem núv. ríkisstj. hefur verið mynduð um.

Það má hver, sem vill, lá okkur framsóknarmönnum það, að við gerðum slíka tilraun á síðustu stundu til að tryggja frið og samstarf í landinu, eins og nú er ástatt, en ég fyrir mitt leyti geng öruggur til þeirrar baráttu gegn upplausninni, sem fram undan er, eftir að ég hef sjálfur sannfærzt um á svo áþreifanlegan hátt, að engin samkomulagsleið var lengur til.

Þessi tilraun sýndi það, að Sjálfstfl. hafi ætlað sér fyrir kosningarnar að semja nýjan tvísöng, sem syngja átti í eyru þjóðarinnar. Þm. V.- Sk. og nokkrir aðrir, sem átti að fá til þess að fylgja till. hans um kosningafrestun, átti að lýsa með fögrum orðum samstarfsvilja flokks sins, en aðrir, eins og þm. a.-Húnv., Jón Pálmason, þm. Vestm., Jóhann Jósefsson, 5. þm. Reykv., Sigurður Kristjánsson, o.fl. áttu að syngja fyrir þá, sem enga kosningafrestun vildu hafa og óánægðastir voru með allt samstarf og ráðstafanir fráfarandi samstjórnar. Þessi hljómkviða var eyðilögð, þegar Framsfl. fékk skipaða nefnd til að athuga samstarfsvilja flokkanna, enda dró þm. V.- Sk. till. sína til baka á eftir og hefur séð þann kost vænstan að ganga í lið með þeim, sem ófriðinn boða, þótt hann hefði í upphafi ætlað sér að spila á allt öðrum nótum fyrir kjósendur.

Þetta hygg ég nægi til að sýna fram á þau heilindi, sem voru að baki því friðar- og samstarfshjali, sem friðrofarnir ætla nú að breiða yfir verknað sinn, verknað, sem ávallt mun verða minnzt í stjórnmálasögu Íslendinga sem eins hins mesta óhappaverks og ófyrirleitnasta, sem hent hefur. Og þeir, sem að því standa, finna sjálfir þunga þessa þjóðardóms hvíla svo fast á sér, að þeir gera allt, sem í þeirra valdi stendur til að koma ábyrgðinni yfir á aðra. Slík siðfræði er ekki óþekkt nú á dögum, að þeir, sem árásina og ófriðinn hefja, kenni hinum um, ef risið er til varnar. Þannig er bófasiðfræði allra tíma og hin nýja stjórnmálasiðfræði, sem nú rís hæst í heimi vorum og ógnar víða með brandi og tortímingu.

Það er gamalt orðtak, að það sé „auðlærð ill danska“, og sama virðist gilda um það, sem spilltast er í nútíma stjórnmálastarfsemi. Enda eiga helztu forkólfar hinna nýju stjórnmálaaðferða dygga og sanntrúaða lærisveina innan þessarar nýju ófriðarfylkingar á Íslandi.

Þá kem ég að þeirri yfirlýsingu ríkisstj., að hún hafi þingstuðning til þess eins að koma fram þessari ófarnaðar stjórnarskrárbreytingu, hún sé það eina nauðsynlega, og allt annað megi sigla sinn sjó á meðan.

Ég vil spyrja: Er hægt að hugsa sér meira ábyrgðarleysi og meiri blindni á þau viðfangsefni, sem krefjast úrlausnar, og á þær hættur, sem yfir okkur eru alla vegu? Hvar í heiminum mundi slík ríkisstj. mynduð nú, þegar svartamyrkur og fullkomin óvissa og öryggisleysi einnar alvarlegustu styrjaldar og upplausnar, sem þekkzt hefur í heiminum, grúfir yfir öllum þjóðum, og vér vitum ekki einu sinni, hvort þær ráðstafanir, sem gerðar eru í dag, eiga við á morgun, hvað þá þegar misseri eða ár eru liðin hér frá? Sjálfir ráðh. þeirrar ríkisstj., sem eiga að hafa þetta mál eitt með höndum, lýsa yfir því, að fullkomin óvissa sé um það, að hægt verði að kjósa hér á landi til að koma þessu áfram. Samt á þjóðin að vera ómegnug til að snúast gegn öllum slíkum atburðum, sem það gætu hindrað, vegna sundrungar, deilna og vanmáttugrar ríkisstj., sem enginn treystir og allir vita, að hefur ekkert umboð til að taka neinar alvarlegar ákvarðanir, ef vanda ber að höndum. Hvort meta slíkir menn meira, hag og frelsi og öryggi þjóðar sinnar, eða eigin flokkshag og persónulegan stundarávilning? Um þetta á að dæma nú innan skamms af þjóðinni.

Ég fyrir mitt leyti skal játa það hreinskilnislega, að minn stjórnmálaskilningur nær ekki lengra en það, að ég veit satt að segja ekki, hvað þjóðarógæfa er, ef ekki það, að fá ríkisstj. á þessum háskatímum, sem lýsir yfir því sem sínu eina verkefni að stofna til innanlandsófriðar og langvarandi deilna um eitt mesta ágreiningsmál þegnanna og allir vita, að skiptir framtíð, heill og frelsi þjóðarinnar engu, hvort leyst er árinu fyrr eða síðar.

Þá er annað atriði í þessu sambandi ekki síður athyglisvert. Eitt af því, sem talið var til gildis þjóðstjórn á sínum tíma, var það, að nauðsyn bæri til að tægja flokkadeilurnar og skapa samhug með þjóðinni, áður en það mikilsverða verkefni yrði leyst að heimta frelsi okkar að fullu í orði og verki og skapa því þau form með nýrri og breyttri stjórnarskrá, sem bezt hæfir okkur sem lýðfrjálsri þjóð. Nú er þetta hlutverk, sem öllum sönnum Íslendingum er annast um, að verði vel leyst af hendi, látið bíða, og það er talið heppilegast að finna lausn á því, á meðan einhver harðvítugasta kosningabarátta, sem hér hefur þekkzt í landinu, stendur yfir. Er hægt að gera sér vonir um, að þeir, sem til slíkra vinnubragða stofna um þetta meginmál og hjartfólgnasta mál þjóðarinnar, þeir séu þar einlægir eða vilji einhverju fórna fyrir farsæla lausn þessa máls? Einnig það er vert fyrir þjóðina að athuga.

Ég kem þá næst að „réttlætismálinu“ svo nefnda, sem allur þessi gauragangur er vakinn fyrir, málinu, sem hinn nýi ráðh., Magnús Jónsson, lýsti svo fjálglega í gær í umr., að hefði blásið nýju lifi í sinn fölnandi og hrörnandi áhuga á stjórnmálum. Vildi hann helzt láta á sér skilja, að þarna væri fyrst sitt rétta köllunarverk komið, sem hann hefði lengi beðið eftir, og það væri að verða aðalfrömuður réttlætis eða réttlætisráðherra á Íslandi. Hver mundi hata trúað slíku, sem þekkir afstöðu þessa manns til réttlætismála yfirleitt hér á Alþingi áður? — Hefur þessi maður barizt fyrir réttlæti og jöfnuði í fjármálum, í lífskjörum og afstöðu borraranna til að tifa undanfarið?

Hefur hann viljað fá skattalöggjöf, sem jafnaði tekjur manna og fjárhagslega aðstöðu? Hefur hann lagt sig fram sérstaklega um að heimta réttlæti og jöfnuð fyrir þá, sem verst voru staddir og erfiðasta áttu lífsbaráttuna? Hvernig var t.d. með lánsstofnun handa landbúnaðinum, eins og aðrir atvinnuvegir höfðu fengið, og hvernig var með skóla og önnur menningarmál þeirra, sem utan Reykjavíkur búa? Árið 1929 beitti hann sér á móti stofnun Búnaðarbankans og átti í deilum við Framsfl. um það mál. Hvernig var með afurðasölulögin, sem björguðu mörgum bændum frá að flosna upp? Það væri ekki rétt að segja, að hann hefði sofið í þessum og öðrum réttlætismálum, nei, alls staðar var hann trúlyndasti og sauðtryggasti þjónn sérhagsmunanna. Aldrei þreyttist hann á verðinum um að varna þess, að hinir minni máttar næðu rétti sínum. Og nú heldur hann máske, að hann sé að uppskera laun sín með því að fá stuðning þeirra, sem telja sig einatt málsvara þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, til að verða réttlætisráðh. á Íslandi.

En væri ekki rétt að líta enn þá ofurlítið nánar nú, hvernig þetta réttlæti er, sem hann boðar þjóðinni? Mörgum hefur fundizt talsvert óbragð að réttlæti hans hingað til, og ætli þetta nýja réttlæti sé með öllu óskylt því, sem á undan er farið?

Stríðsyfirlýsing réttlætis þessa manns og ríkisstj., sem hann á nú sæti í, er á þessa leið, — ef hún er sett í einfaldan búning: „Þið íslenzkir kjósendur, sem hættir eruð að treysta mér og flokki mínum til forustu í málum ykkar, en sendið framsóknarmenn á þing með vaxandi fylgi, — menn, sem alltaf eru að angra mig og þá, sem ég læt mér annast um, með því að heimla alls konar umbætur og bætt lífsskilyrði fyrir ykkur, af þeim ríku og þeim, sem sitja sólarmegin í lífinu, — þið skuluð samt neyddir til að senda menn á þing, sem styðja okkar málstað fyrst og fremst, menn, sem koma fljúgandi eins og steiktar gæsir handa okkur, mér og mínum flokki, — og það gerum við með því að láta okkar menn, sem þið hafið hafnað og fellt í kosningum, fá þingmannaumboð, sem sé jafngilt og það umboð, sem meiri hluti ykkar veitir öðrum mönnum. — Og við þessar 6 steiktu gæsir, sem þannig koma með þingmannsumboði til okkur ætlum við að bæta öðrum þremur við í þéttbýlinu. Og þá skuluð þið sjá, hvort við þurfum mikið að skeyta duttlungum ykkar um að vilja hafa menn, sem vinna fyrir ykkur, heimta handa ykkur umbætur og betri lífskjör og annað því um líkt.“ — Þetta er stríðs- og réttlætisyfirlýsing hinnar nýju ríkisstj., án blekkinga og falsana, — og er það þá furða, þótt réttlætispostulinn frá undanfarandi árum á Alþingi telji sig sjálfkjörinn til að taka forustuna um slík réttlætismál? Er furða, þótt hann verði óðamála og það komi vatn upp í munninn á honum við að sjá hilla undir hinar 9 réttlætisgæsir, — steiktar og matreiddar, — eins og hann nefndi svo smekklega þessa tilvonandi 9 minnihlutaþn., sem hann er með höndina úti til að hremma. Nei, engan furðar á slíku, þótt þar sé það hin flokkslega matarlyst og sári sultur, sem að sverfur, er þar verður þjóðarheill og þjóðarskyldum yfirsterkari.

Hlutfallskosning í tvímenningskjördæmunum þýðir það, að þeir flokkar, sem þar hafa nú tapað meirihlutafylgi kjósenda, þeir skuli samt fá jafnan rétt og meiri hlutinn til að senda málsvara á þing. — M.ö.o., vilji kjósendanna skal einskis metinn, en minni hlutinn fá fyllri rétt en meiri hlutinn. Í ýmsum tilfellum gæti svo farið, að minni hlutarnir fengju fleiri menn kosna en meiri hlutinn, — þegar uppbótarsætin koma til. En yfir það ranglæti á hið eina sanna flokkslega réttlæti að breiða. En ef það eitt er réttlæti, þá sé ég ekki með beztu getu, hver munur er á að afnema öll hin gömlu kjördæmi og fá hlutfallskosningu í staðinn, eða að halda áfram á uppbótarleiðinni, — nema hvað hin síðari leið verður þjóðinni dýrari og kostar ótakmarkaðan fjölda þingmanna.

Nú segja þessir menn, sem þykjast brenna í réttlætinu, að það eitt sé réttlæti, að fullkominn jöfnuður fáist milli flokka. Hins vegar er það viðurkennt, að breytist afstaða kjósenda í landinu frá 1937 til flokkanna, er hér um enga bót að ræða fyrir slíkt réttlæti, og þó lýsir forsrh., Ólafur Thors, að aðrar breytingar en þessar komi ekki til mála fyrir Sjálfstfl.

Er það þá yfirlýsing um, að sjálfstæðismenn ætli aldrei framvegis að fylgja því, sem þeir telja réttlæti í þessu máli, — bara að þessar kákbreytingar fáist, sem geta hæglega farið svo, að frekar verði traðkað á því flokkaréttlæti, sem nú er barizt um?

Þeir, sem þekkja þennan mann, orðheldni hans, stjórnmálaferil og traustleika, þeim kemur ekki til hugar að halda slíkt. Árið 1927, þegar Kjósarsýslu, sem þá var tvímenningskjördæmi, var skipt, taldi Ólafur Thors það fjarstæðu að innleiða hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum. Árið 1931 tók þessi sami maður höndum saman við Héðin Valdimarsson um að stofna til stórra kjördæma með hlutfallskosningu um allt land. Og nú, 1942, heimtar hann og myndar ríkisstj. til að koma á hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum og bæta 2 þingsætum við Reykjavík, og afneitar þá öllum frekari hlutfallskosningum um alla framtíð. Hverjum Ólafinum, frá 1927, 1931 eða frá 1942 á bezt að trúa í þessu efni? Ætli það sé trúandi eða treystandi nema þeim eina Ólafi, sem í einu hefur alltaf verið samkvæmur sjálfum sér, sem allaf lagar sannfæringu sína í hvert sinn, eftir því hver hagur flokksins er þetta árið eða hitt? Ég trúi í þessu efni betur hv. 5. þm. Reykv., Sigurði Kristjánssyni, flokksmanni hans, sem lýsti yfir því, að þetta væru aðeins byrjunarbreytingar, svo að hægt væri að fá fram hið fulla réttlæti, sem þeir kalla. Enda er það eitt samboðið manni, sem telur sig vera í þjónustu réttlætisins.

Það fer ekki á milli mála hjá öllum fylgjendum þessa frv., hvað þeir telja réttlæti vera, og hví skyldu þeir ekki halda áfram að verzla með það sín á milli, á meðan nokkur rytja er óframkvæmd af því? Hver efast um, að þeir geri það? Og aðstaðan batnar stöðugt til þess, því fleiri steiktar gæsir sem fljúga þeim í munn og auka löngunina og freistinguna um leið.

Þá skal ég rétt nefna til dæmis eitt atriði í málaflutningi hv. þm. V.-Ísf., Ásgeirs Ásgeirssonar, þar sem hann vildi leiða mörg vitni, erlend og innlend, að ágæti algerra hlutfallskosninga, taldi hann meðal þeirra þjóða Norðurlönd öll, Belgíu, Holland o.fl. En hann tók aðeins þau atriði úr stjórnskipunarl. þessara landa, sem styrktu hans málstað. Hann sagði t.d., að hlutfallskosning væri ákveðin í stjórnarskrá frænda vorra Norðmanna, en hann gleymdi að geta þess, að þar er einnig ákveðið, að Oslo, þar sem einn tíundi hluti þjóðarinnar býr, megi aldrei hafa meira en 7 þingmenn af 150, sem í þinginu eru, og í stjórnarskrá Norðmanna er skýlaust ákvæði um það, að stærri bæirnir megi aldrei hafa meira en samtals einn þriðja allra þingmanna og dreifbýlið og sveitir og kauptún skuli allt af hafa tvo þriðju hluta þingmanna. Ef Ásgeir Ásgeirsson vill taka svípuð ákvæði upp í stjórnarskrá sína, þá horfir hún allt öðru vísi við frá sjónarmiði okkar framsóknarmanna.

Kem ég þá að því, sem fráleitast hefur kveðið við í umr. fylgjenda þessa máls. Þeir stagast stöðugt á sérréttindum Framsfl. í stjórnarskrá landsins, að honum sé tryggt að koma þingmönnum á þing með minna atkvæðamagni en aðrir. Hvar eru þessi ákvæði? Ég tel mig læsan og þó finn ég þau hvergi í stjórnarskránni, og ég sé þau ekki heldur nefnd í stjórnarskrárbreytingunni, sem fyrir liggur. Ég veit ekki betur en öllum flokkum sé tryggður sami réttur í öllum kjördæmum landsins og enginn flokkur eigi nein sérréttindi í öðru en því, hversu vel honum lánast að vinna traust kjósenda með störfum sínum og hugsjónum.

Þau sérréttindi, sem um er að ræða, eru því þau, að í sveitum landsins hafa kjósendur treyst þessum flokki æ betur og hafnað öðrum, og því getur ekki verið um annað að ræða, þegar talað er um að afnema sérréttindi Framsfl., heldur en það, að hegna beri sveitunum og héruðunum, sem treysta honum bezt til forustu, og rýra rétt þeirra sem mest.

Þetta bið ég menn að athuga vel, þegar verið er að fullyrða, að síður en svo sé verið að rýra áhrifarétt sveitanna með breyt. þeirri, er fyrir liggur.

Að lokum vil ég aðeins benda á þá óhæfu, frá sjónarmiði fylgjenda þessa frv., að í Reykjavík stjórnar Sjálfstfl. bænum með 8 bæjarfulltrúa af 15 og hefur þó aðeins minni hluta kjósenda, eða vantar á 6. hundrað atkv. Þessi óhæfa gat komið fyrir með algerum hlutfallskosningum milli flokka og getur ávallt komið fyrir og sýnir því bezt, hvað valt er að treysta algerðu flokksréttlæti í kosningum eða tryggja það. Hví segir þessi rangfengni meiri hluti ekki af sér þegar í stað, þegar hann situr í óþökk meiri hluta kjósenda?

Nei, það, sem máli skiptir, er ekki aðeins það, að atkvæðamagnið sé sem jafnast, heldur að allir hafi sömu möguleika að afla þess og mismunandi lífsskilyrði í þjóðfélaginu séu fullkomlega tekin til greina, og svo síðast en ekki sízt það, að lýðræðið verði eigi þannig, að löggjafar- og framkvæmdarvaldið sé veikt, heldur geti skapaat sterkur og ákveðinn meiri hluti, sem skapar réttar- og athafnaöryggi, hvað sem að höndum ber.

Til þessa hafa þær lýðfrjálsu þjóðir, sem nú standa fremst í baráttunni að verja frelsi og mannréttindi, tekið fullkomlega tillit til þessa atriðis, en hinar þjóðirnar flestar, sem eingöngu litu á hlutföllin, þær eru nú margar fremur máttarlitlar í þeirri baráttu, — og flestar í fullri andstöðu.

Ég hygg, að ef dæma á eftir reynslu annarra þjóða og lýðræðisfyrirkomulagi, þá beri fyrst og fremst að benda til þess, sem staðizt hefur, og breyta eftir því, en ekki til þess, sem hrundi, og raunasögunnar, sem þar átti sér stað.

Það mun vera svo, að öfgar séu ávallt háskalegar, engu síður fyrir réttlætið en annað. Með minni beztu getu er mér ekki einu sinni hægt að fá neina sannfæringu fyrir því, að hér sé um réttlætismál að ræða, hvað þá slíkt mál, að allt annað, — öll þjóðarnauðsyn og þjóðaröryggi —, beri að víkja til hliðar fyrir því. Og ég veit, að enginn í þjóðfélaginu lítur svo á, eins og nú standa sakir. Jafnvel þeir, sem forustuna um það hafa, eru með sjálfum sér sannfærðir um, að það er glapræði og jafnvel annað miklu verra, sem hér er verið að fremja. Þess vegna er ég líka sannfærður um það, að þjóðin hrindir þessu tilræði þegar í stað, er hún kveður upp sinn dóm. Hún veit, að nú er teflt um margt það dýrmætasta, sem frelsi hennar og framtið á að byggjast á, — og þess ber að gæta fyrst og fremst. Þjóðin lætur hvorki falsrök né hótanir villa sér þar sýn.

Hinn nýi ráðh., Magnús Jónsson, taldi, að 3/4 hlutar kjósendanna stæðu að þessu máli, — eða að baki því. Svo gjarnt er honum að hugsa í flokkum, að hann telur víst, að þeir kjósendur, sem fylgdu flokki hans 1937, þeir — séu eign flokksins til hvaða verka, sem flokksstjórnin finnur upp á að gera. Þó veit þessi sami ráðh., að eitthvað, og það allverulegt, týndist af þessum kjósendafjölda Sjálfstfl. í bæjarstjórnarkosningunum í vetur, — og hann hefur það á tilfinningunni bersýnilega, að nokkrar þúsundir tapist í þeim kosningum, sem framundan eru. — Og það er ekki nema eðlilegt.

Okkur framsóknarmönnum er það ljóst, að við fáum ekki stöðvað þetta mál, — og beitt kröftum okkar til fullnustu gegn upplausninni og ábyrgðarleysinu, — nema allmiklu fleiri kjósendur fylgi okkur að málum um land allt en var í síðustu kosningum, 1937. Þess vegna er það alrangt, að þetta verði stöðvað með 1/4 hluta kjósenda. En við vitum það líka, að í þessu máli, — á þessum tímum, gildir ekkert flokksmark á kjósendum, heldur það, hvora þeir telja í þessu máli beita réttari og þjóðhollar í vinnubrögðum. Við vitum, að allir þeir, sem áður hafa stutt Framsfl. vegna málefna hans, þeir gera það nú af meiri festu og meira kappi en nokkru sinni fyrr. En við vitum líka, að þúsundir manna, sem áður hafa fylgt öðrum flokkum, þeir vilja snúast gegn upplausnaröflunum og ábyrgðarleysinu, sem þar er nú ríkjandi, og kenna sínum eigin forustumönnum, að það hefnir sín ætíð að setja flokks- og eiginhagsmuni ofar þjóðarheill og þjóðaröryggi. Til þess styðja þeir a.m.k. nú málstað Framsfl. Þegar þeir hafa þannig kennt þeim flokkum, sem þeir ella telja sig eiga skyldastar lífsskoðanir með, kennt þeim, hvað hægt er að leyfa sér og hvað ekki verður þolað á slíkum tímum, sem nú eru, — þá snúa þeir máske aftur til stuðnings þessum fyrri flokkum sínum, ef þeim leikur hugur á. Nú er barizt um upplausn og yfirgang, um margar kosningar og illvígar deilur, — eða markvisst, samhuga starf til þjóðarheilla, og til að verjast þeim háskalegustu áföllum, sem yfir okkur vofa sem þjóð daglega. Í hvora fylkinguna menn eiga að skipa sér, veit ég, að enginn þjóðhollur Íslendingur er í vafa um.

Ég hef nú að nokkru rakið þann blekkingavef, sem nú er spunninn að kjósendum þessa lands, og ég hygg, að enginn sé í vafa um, hver er undirrót þeirrar stjórnarmyndunar, sem átt hefur sér stað. Það er ljóst, að það er veikleiki en ekki styrkleiki Sjálfstfl., sem nú hefur lyft honum til valda. Það hefur verið spilað á alla megingalla hans til að koma honum í þessa aðstöðu. Enda er hún ekki öfundsverð. Það er sundurlyndið í flokknum, getuleysið til að taka á raunhæfum verkefnum og vandamálum þjóðarinnar, — hringlandahátturinn og stefnuleysið og brigðmælgin, enda segja stuðningsflokkar hans til um það. Öll upplausnaröfl þjóðfélagsins veita honum nú brautargengi til þessa verks.

Það má því segja, að margt kynlegt geti hent á styrjaldartímum. En það er alveg víst, að sá flokkur, sem á slíkum öflum hossast í valdasess, hann á eftir að fá ýmislegt annað frá þjóð sinni en eintómar steiktar gæsir, í líki þingmanna, sem flokknum séu þægir og leiðitamir, — eins og atvmrh., Magnús Jónsson, komst svo smekklega að orði.

Þjóðin öll bíður þess með óþreyju að hrista af sér þá ríkisstj., sem er andvana fædd af veikleika flokks síns og nýtur einungis stuðnings á Alþingi til ófriðar og sundrungar, en er vanmáttug til alls, sem styrk þarf til, — einurð, manndóm og festu.

Þótt slíkt óhapp hafi hent hér á Alþingi í bili, á þessum tímum, þá er ég sannfærður um það, að þjóðin er ekki svo heillum horfin, að hún megni ekki að bæta þar um í tíma og fyrirskipa önnur og þjóðhollari vinnubrögð á löggjafarþingi sínu, í þeim mestu hættum, sem þjóðin hefur nokkru sinni horfzt í augu við.