21.05.1942
Sameinað þing: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (1319)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eysteinn Jónsson:

Ég hefði alls ekki þegið boð hæstv. forseta um að fá að taka til máls nú, þó að svo mjög hafi verið talað fram í af hæstv. forsrh., þegar ég talaði áður, ef ekki hefði staðið svo á, að ég gleymdi að minnast á eitt atriði þá, það, sem hæstv. fjmrh. hefur talað hér um prentsmiðjuna Gutenberg og hv. þm. Seyðf. veik hér að í gær. Það var ekki hægt að skilja orð hæstv. fjmrh. á annan veg heldur en þann, að hann væri með dylgjur um það, að Hermann Jónasson hefði leigt vandamönnum sínum prentsmiðjuna, því að hæstv. fjmrh. sagði: Ég hefði getað verið búinn að leigja vandamönnum mínum ríkisfyrirtæki. Þessir hv. þm. vita vel, að það, sem þarna var gert, var, að Hermann Jónasson gerði öllu starfsfólki Prentsmiðjunnar tilboð um að fá prentsmiðjuna á leigu og stofna með rekstri hennar samvinnufyrirtæki. Þetta var það, sem hv. þm. hafa ekki getað þolað, að fólkinu sé gefinn kostur á því að reka fyrirtæki sjálft og fá þar með sannvirði vinnu sinnar. Annars hefur hv. þm. Str. svarað þessu með þáltill., sem hann ætlar að flyt ja um þetta mál, og verður þá grg. fyrir henni lesin upp í útvarpið.

Hæstv. forsrh. talaði hér langt mál áðan, miklu lengra en hann mátti, og það voru nær eingöngu ósannindi, sem þessi hæstv. ráðh. hrúgaði þar upp. Hann veit vel, að það var ekki nema lítill minni hluti Sjálfstfl., sem stóð að málamyndatilboðinu um kosningafrestun, og það var sá litli minni hluti flokksins, sem vildi ómögulega afgreiða kjördæmamálið, m.a. núverandi hæstv. forsrh. Ég greip fram í fyrir hæstv. forsrh., þegar hann sagði, að Sjálfstfl. hefði viljað kosningafrestun, þar sem hann sjálfur sagði mér áður hið sanna í málinu. Þess vegna gat ég ekki þolað, að hann segði ósatt um þetta.

Ég vil svo aðeins upplýsa það, að við, sem eigum sæti á Alþ., vitum, að í viðbót við allt annað, sem nú er að gerast, þá sitja stjórnarliðar hér í hliðarherbergjum við fundarsalinn og reyna að gera nýja samninga um kjördæmamálið. Og maður heyrir, þegar þessir menn eru að tala um kjósendur, að þá er eins og þeir eigi 3/4 af kjósendum landsins. En þeir athuga ekki það, að þeir eiga ekki nema lítinn hluta nú af því, sem þeir áttu 1937, og það er af því, að þeir geta ekki verzlað með kjósendurna eins og þeir hafa gert með kjördæmamálið.