21.05.1942
Sameinað þing: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (1321)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Tilheyrendur! Hv. þm. Ísaf., sem var að ljúka máli sínu áðan, talaði um það, að Alþýðusambandið væri komið á lýðræðisgrundvöll. En hann gleymdi bara að minnast á, hvernig á því stendur, að Alþfl. gafst upp við að halda uppi flokkseinræði sínu þar. Það stendur þannig á því, að Kommúnistafl. og síðar Sósfl. hafa haldið uppi látlausri baráttu s.l. 10 ár gegn þessu flokkseinræði og Alþfl.-stjórnin hafa séð sér þann kost vænstan að gefast upp við þetta einræði og koma á lýðræði í Alþýðusambandinu. Þegar þeir tóku sinnaskiptum, notuðu þeir samt síðasta möguleikann til þess að viðhalda völdum sínum með því að leyfa ekki að kjósa aðra á þingið en Alþýðuflokksmenn og láta kjósa á það til tveggja ára. Og á þessu lafa þeir ennþá. Nú, þegar á að kjósa í fyrsta skipti á Alþýðusambandsþing í áratug á lýðræðislegan hátt, ætlar þessi stjórn Alþfl. í sambandinu að viðhalda völdum sínum með því að halda klofningnum við í verkalýðshreyfingunni í stað þess að sameina hana. Enn þá er það svo, að verkalýðsfélögin á Akureyri eru klofin ,og þar neitar verkalýðsfélagið að taka við verkamönnum, þvert ofan í lögin. Og þar eru svo einræðisleg ákvæði, að það má ekki taka neinn inn í félagið, nema meiri hluti stjórnarinnar samþ. það. Meiri hluti verkamanna ræður engu um það.

Á Norðfirði er aðalfélaginu, sem þar er, neitað um inngöngu í Alþýðusambandið. En litlu pólitísku málfundafélagi Alþýðuflokksmanna er veitt inntaka í sambandið. Í Hafnarfirði er það þannig, að verkalýðsfélagið Hlíf fær ekki inngöngu.

Þannig á að reyna að hindra, að verkalýðurinn í stærstu kaupstöðunum geti sameinazt innan Alþýðusambandsins. Það er gert til þess að reyna á þinginu í haust að viðhalda þessu flokkslega einræði Alþfl.

Þá spyr þessi hv. þm., hv. þm. Ísaf., hvernig það hafi verið fyrir kommúnista eða okkur sósialista að koma fram málum hér á þingi. Ég vil segja honum það, að það stendur alveg eins á með okkur og þá. Við höfum nákvæmlega sömu möguleika til að koma málum fram einir, nefnilega enga. Við höfum enga möguleika til þess, nema með því að fá aðra þm. til þess að vera með þeim. Við getum báðir, með því að Sjálfstfl. hjálpi okkur, komið þessu máli fram. Það er þess vegna ekki úr háum söðli að detta fyrir okkur sósíalista, þótt við getum ekki komið stórmálum fram. En ég vil bara minna á það í þessu samhandi, að við sósíalistar höfum aldrei konlið fram með nein óþurftarmál á Alþingi. Við höfum aldrei viljað innleiða neinn hreppaflutning. En það hefur Alþfl. gert. Þegar Alþfl. er að hæla sér fyrir það, sem hefur komið frá honum þá er það líka hrós, þegar hann studdi sams konar mál og þrælal. eru og hreppaflutningal. á sama þinginu.

Svo fór hann að tala um gerðardómsl. Á ég að rifja upp, hvernig það kom til, að Stefán Jóh. Stefánsson lýsti yfir því, að hann mundi beita sér fyrir að reyna að fá yfirlýsingar frá verkalýðsfélögunum um, að þau féllu frá öllum sínum kröfum um kauphækkanir? Þeir skiptu með sér verkum, Ólafur Thors atvmrh. og Stefán Jóh. Stefánsson félmrh., að reyna að fá verkalýðsfélögin til að lofa að fara ekki fram á grunnkaupshækkun, nota sér ekki bezta tækifærið, sem nokkurn tíma gat komið, til að fá réttmæta hækkun. En af því að þetta tókst ekki við nokkurn hluta verkaýðsfélaganna og þau fóru samkvæmt till. Sósfl. fram á 20% kauphækkanir, biluðu samtök Alþfl. og Sjálfstfl. og Stefán Jóh. hrökklaðist úr ríkisstj. Ég vil bara segja það, að það verða falleg eftirmæli Alþfl. í þjóðstjórninni. — Þá hafa menn heyrt orðaskipti þeirra Ólafs Thors og Eysteins Jónssonar, fyrrv. hæstv. samráðherra í þjóðstjórninni. Þau minntu á kerlingarnar, sem sögðu: „Klippt var það.“ „Skorið var það“ og rifust um, hvort heldur væri, þangað til þær vissu ekki fyrr en þær ultu báðar á kaf niður í pytt og sást síðast ekki annað af þeim er fingurnir upp úr leðjunni, þar sem önnur myndaði enn til, að skorið væri það, en hina það væri klippt. Þar drápust þær. Það má mikið vera, ef ekki lýkur svo, að þeir verði búnir að ausa hvor annan þeim óhróðri, að kjósendur sjái litið nema fingurna á þeim upp úr leðjunni. — Þá var það Sveinbjörn Högnason, 1. þm. Rang., sem minntist á, að nær væri að reyna að jafna lífskjörin en kosningarréttinn. Hann hefur komið með þetta hvað eftir annað í umr. undanfarið. En til þess að verkalýðurinn nái aðstöðu, sem dugir honum til þess að jafna kjörin, verður að jafna mannréttindin fyrst. Þau eru vopnið, er hann má ekki afhenda, hvað sem Framsfl. vildi til þess gefa. En hvernig hefur Framsfl. farið að því að „jafna lífskjörin“ síðustu árin? — Látum verkin tala: Á seinasta ári, sem skýrslur eru birtar um, höfðu einir 117 menn í Rvík 17 millj. kr. eða um 150 þús. kr. hver í hreinar tekjur að meðaltali. Togarafélögin gátu lagt 20 mill j. kr. í varas jóð af gróða ársins 1940, en þá er ótalinn annar gróði þeirra. Þetta er til marks um, hvernig auðmönnunum er úthlutað. Hverju er svo úthlutað til verkalýðsins? Það sést t.d. í 51. gr., sem bætt var inn í framfærslul. 1939 og ég vil lesa upp úr með leyfi hæstv. forseta: „Sá, sem þiggur framfærslustyrk og er þó vinnufær, er skyldur að fara hvert, sem er, innan lands í viðunanlega víst eða til atvinnurekstur við viðunanleg skilyrði eða vinna hverja þá vinnu, sem sveitarstjórn ákveður, — er hann skyldur að hlýða fyrst um sinn, enda þótt hann vilji ekki kannast við, að víst sú eða vinna sé viðunanleg.“ Eftir á leyfist honum að kæra meðferð á sér fyrir lögreglustjóra framfærslusveitarinnar. Þetta er enn þá í framfærslul. Íslendinga, það er heimilað að hneppa menn í skuldaþrældóm og senda þá til þrælkunarvinnu hvert á land, sem er, og „bjargráðanefnd“ hefur verið sett í því skyni að skipuleggja þetta, ef til þyrfti að taka. Svona vill Framsfl. fara að því að jafna lífskjörin: Annars vegar milljónirnar til togarafélaganna og nokkurra fjölskyldna, hins vegar þrælahald handa verkalýðnum og bann við að bæta kjör sín. Svo kemur hv. þm., Sveinbjörn Högnason, sjóðheitur úr flatsæng þjóðstjórnarinnar, — hefur Iíka verið á kafi í kjötkatlinum upp yfir axlir, með 12–15 þús. kr. í bitlingum á ári frá henni, — og segist brenna í skinninu eftir að koma á réttlæti í þjóðfélaginu, — réttlæti handa verkamönnum og fátækum bændum, sem hann hefur svikið öll þessi ár til þess að þjóna stríðsgróðamönnum, sem hann þykist nú vera á móti. Þessi þm. talar svo um „svik og yfirskin“ annarra af eldmóði, eins og hann væri ungi nýsloppinn alsaklaus úr egginu, en ekki gömul gæs, sem verið hefur til sölu öll síðustu ár. Flvar eru „svik og yfirskin“, ef ekki hjá honum og hans flokki?

Hann segir, að öllum sé tryggður sami réttur til þess að eiga fylgjendur í dreifbýlinu. — Í Englandi var einu sinni komið svo, að hin gömlu kjördæmi dreifbýlisins voru orðin mjög fámenn, af því að fólkið hafði flutzt til bæjanna. Í einu kjördæmi var loks ekki eftir nema einn maður á kjörskrá. Þessi maður bauð sig svo sjálfur fram til þings, kaus sig sjálfur og fór á þing. Ýmsum frjálslyndum mönnum þótti svona kjördæmaskipun óhæf og börðust fyrir gerbreytingu hennar. Þeir, sem græddu á henni, vildu hins vegar gjarnan viðhalda henni. Þm., sem kaus sjálfan sig á þing fyrir kjördæmi, þar sem hann var eini kjósandinn, var á móti allri breytingu. Hann hélt því fram eins og Sveinbjörn Högnason, að allir flokkar hefðu sömu möguleika til að eiga kjósandann í sínu kjördæmi. En enska þjóðin tók ekki tillit til þessara einkennilegu röksemda hins enska Sveinbjarnar Högnasonar. Hún breytti kjördæmaskipuninni. — Og eins gerir íslenzka þjóðin.

Svo þykjast þessir menn vera að vinna á hjá þjóðinni, — þeir, sem trúa á rétt þúfnanna, en afneita rétti mannanna.

Heiðruðu tilheyrendur! Þið hafið nú heyrt þjóðstjórnarflokkana lýsa hvor öðrum. Þið hafið heyrt Eystein Jónsson, fyrrv. hæstv. viðskmrh., lýsa því, að „lýðskrum, undanbrögð og sundurlyndi“ innan þjóðstjórnarinnar séu orsök þess, hvernig komið er ,og þið skiljið, hvar hann meinar, að þessi þokkalegu eðliseinkenni séu ríkust. Þið hafið heyrt Jakob Möller, hæstv. fjmrh. lýsa yfir því, að Framsfl. sé ábyrgðarlausastur flokkur og reiðubúnastur til að fremja óhæfuverk, sem uppi hafi verið á Íslandi síðan á Sturlungaöld. Þeir ættu að þekkja hvor annan, þessir ráðherrar, — þeir eru búnir að brugga það margt saman síðustu þrjú ár.

Langar ykkur til þess, að þessi flokkslegu eðliseinkenni setji mark sitt á Ísland í framtíðinni? Langar ykkur til þess að fá aftur þessa óstarfhæfu, sundurlyndu, lýðskrumskenndu samfylkingu auðmannanna og bitlingalýðsins í landinu?

Og svo þekkið þið sjálf af reynslunni, hvað þjóðstjórn þýðir. Ofsaauður til fámennrar yfirstéttarklíku, þrælalög og þrælahald fyrir verkalýðinn.

Þjóðstjórnarflokkarnir munu við þessar kosningar reyna að fá ykkur til að gleyma því, hvað þjóðstjórnin hefur gert. Þeir munu forðast það eins og heitan eldinn að minnast á öll þessi óhappaverk sín. Þeir munu tala því meir um þjóðhollustu, þjóðarógæfu, þjóðareiningu, og þannig ætla þeir hver um sig að undirbúa þjóðstjórn Jónasar og Thorsaranna að nýju, því að þannig skrifuðu þeir líka og töluðu, áður en þjóðstjórninni var komið á 1939.

En þið megið aldrei gleyma hinni bitru reynslu af þjóðstjórninni, milljónaauði og sérréttindum, sem hún úthlutaði bröskurunum, hreppaflutningum, atvinnuleysi, launalækkunum og menningarofsóknum, sem hins vegar féllu alþýðunni í skaut.

Aldrei, aldrei má þjóð vor gleyma kúgunarherferð afturhaldsins á hendur henni, þegar átti að skipta þjóðinni upp í sérréttindastétt innangarðs og hina útskúfuðu utangarðs.

Aldrei munu verkamenn Íslands gleyma hinum þungu göngum til framfærslufulltrúanna og á vinnumiðlunarskrifstofurnar, þegar ekkert svar fékkst frá valdhöfunum við óskinni um atvinnu nema skammir um leti og ómennsku og löggjöf um, að flytja mætti menn hreppaflutningi upp í sveit.

Vinnandi stéttir Íslands munu sýna það við þær kosningar, sem nú fara í hönd, að þær eru minnugar allrar kúgunar þjóðstjórnarflokkanna. Engar blekkingar munu geta fengið þjóðina til að gleyma henni.

Sósíalistaflokkurinn mun í þessum kosningum reyna að sjá til þess, að þjóðstjórnarverkin gleymist ekki — og að þjóðin varist vítin, jafnhliða því, sem hún einbeitir sér að því að tryggja framgang þess mannréttindamáls, sem felst í stjórnarskrárbreytingunni.