14.04.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (1326)

10. mál, fangagæzla

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra for seti ! Ég veit, að flestir hv. þm. — og vona allir hafi kynnt sér grg. þessarar till., en það er grein eftir Hallgrím Hallgrímsson, sem verið hefur fangi marga mánuði á Litla-Hrauni. Þess vegna þarf ég ekki að endurtaka það, sem þar er sagt, geng út frá, að það sé kunnugt. Það er í aðalatriðum þetta: Í fyrsta lagi ber skýrslan með sér, ef hún er rétt, að forstjóri vinnuhælisins er alveg óhæfur maður til starfs síns. Samkvæmt henni hefur það tíðkazt, að hann beiti handahófsrefsingum, sem geta ekki byggzt á öðru en því, hvort honum er persónulega vel eða illa við viðkomandi fanga, og þetta hefur gengið svo langt, að reglur fangelsins hafa verið þverbrotnar, — beinlínis framið lögbrot. Fangi var lokaður inni langtímum saman, án þess að honum gæfist kostur á að koma undir bert loft, og ekki fékkst bót fyrr en eftir langan og ákaflega torveldan málarekstur af hendi fangans, enda ekki mögulegt fyrir hann að koma umkvörtunum sínum áleiðis til dómsmálaráðuneytisins. Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta atriði.

Svo kemur annað atriði, sem er ákaflega mikilsvert: hreinlætið. Því er ákaflega ábótavant samkv. skýrslunni, og þarf ekki að vitna til hennar einnar um þörfina á rannsókn, við allir, sem þarna höfum komið, höfum séð með eigin augum, hver umgengni þar er og hve gífurlegur munur er þar og í hegningarhúsinu í Reykjavík, þolir engan samanburð. Ég hef áður á það bent, að langan tíma hafði lús legið í landi á „hælinu“. Það voru bornar brigður á þetta þá og bent á, hve mikill fyrirmyndarbóndi og fyrirmyndarmaður forstjórinn væri á búi sínu. Ég efast ekki um það, að allt sé í fyrirmyndarlagi á heimili fangavarðarins og aðbúð hans ágæt sem vera ber, en það er bara allt annað heimili en fanganna og ekki víst, að sami maðurinn sé fær um að vera jafngóður húsbóndi á þeim báðum. Eftir þessa umkvörtun var samt sem áður reynt í skyndi að útrýma lúsinni a.m.k. í bili. En samkv. því, sem Hallgr. Hallgrímsson skýrir frá, voru aðgerðir í hreinlætismálunum aðallega kák.

Þegar menn vita, að svo er ástatt sem þarna var, og brýn nauðsyn lagfæringa, er það alveg ófært, að menn skuli standa hér upp og bera móti því, að nokkuð sé að. Slíkt gerir málstaðinn miklu verri en hann er fyrir.

Ein alvarlegasta ásökun skýrslunnar er sú, að starfsmaður í dómsmálaráðuneytinu skuli hafa neitað að taka móti bréfi frá ákveðnum fanga. Ef svo er, getur slíkt gert fangana alveg réttlausa, jafnvel þótt framið sé á þeim lögbrot. Fanginn er með því settur á bekk með föngum í einræðislöndum.

Nú getum við farið að deila endalaust um það, hvort þessar ásakanir séu á rökum reistar eða minna sé haft í þeim en í grein Hallgríms stendur. En það er bara alveg tilgangslaust. Hér eru í skýrslunni nefndir ákaflega margir menn, sem hægt er að leiða til vitnis um þessa hluti. Það er því alveg sjálfsagt, að reynt sé að komast til botns í málinu með rannsókn. Ég skil ekki annað en bæði ríkisstjórnin og þm. hljóti að fallast á, að ófært sé, að stofnunin liggi undir ásökununum, án þess að rannsókn fari fram. Annað er það ekki, sem þáltill. fer fram á.

Ég mun ekki fjölyrða um málið, nema tilefni sé til gefið. Ég vonast eftir, að till. verði samþ. og þessi rannsókn látin fara fram.