30.03.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (1338)

29. mál, verksmiðja til að hreinsa og herða síldarlýsi

Flm. (Ingvar Pálmason):

Í grg. fyrir þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, kemur það fram, hverjum augum við flm. lítum á nauðsyn þessa máls, og þarf ekki mörgum orðum um það að fara.

Það er almennt viðurkennt, að oss Íslendingum sé það brýn nauðsyn að geta konlið þeim útflutningsvörum, sem við höfum að bjóða nú og í framtíðinni, á markaðinn þannig, að það séu frekar unnar vörur en hráefni, sem við sendum frá okkur. Það er svo, að með aukinni framleiðslu og útflutningi hefur stefnt að því, að um mikinn hráefnaútflutning er að ræða. Það sjá allir, að slíkt er vandræðaástand, og með þeirri aukningu, sem alls staðar er í iðnaði í heiminum, er hörmulegt til þess að vita, að við erum að ýmsu leyti verr settir nú, hvað þetta snertir, en við vorum allt fram á síðustu tugi 19. aldar. Þó að ekki væri um mikinn iðnað að ræða, framleiddum við allt til klæðnaðar, yzt sem innst, jafnvel sjóklæði. Þegar ég byrjaði að stunda sjó fyrir 50 árum, voru sjóklæði gerð úr innlendum efnum, nema hattar og skór. Sama er að segja um áhöld öll, húsgögn, amboð o.fl. Allt var það unnið af íslenzkum höndum, úr innlendu efni. Á þessu hafa orðið miklar breyt. Þó að ég óski ekki eftir þeim tímum, sem áður voru, og sjái það ljóslega, að iðnaður hér getur aldrei færzt í gamla horfið, tel ég, að hér sé um svo mikið alvörumál að ræða, að það eigi að rannsaka það í tíma, hvort við getum ekki að einhverju leyti horfið af þeirri braut, sem við gengum inn á, þegar útgerð jókst í landi voru, að hugsa einungis um að framleiða mikið, en gæta þess síður, hvern hag framleiðslan færði oss í raun og veru. Annar af aðalatvinnuvegur Íslendinga, sjávarútvegurinn, er svo settur, að mikið þarf af erlendum efnum til hans: efnið í fleyturnar, vélarnar í þær, rekstraraflið og veiðarfærin. Þessu verður ekki breytt, a.m.k. ekki í stórum stíl. Nokkuð má e.t.v. færa það til betra vegar, en gerbreytt verður því ekki. Þá er hitt, sem við verðum að hafa hugfast, að það sem við framleiðum, sé gert eins verðmætt og kostur er.

Um þáltill., sem hér liggur fyrir, og efni hennar vil ég segja það, að full ástæða er til, að henni sé gaumur gefinn frekar nokkru öðru, því að síldarlýsisframleiðslan er svo mikill líður í því, sem við framleiðum nú og í framtíðinni. Það þarf ekki að kvíða því, að menn verði ekki sammála um, að hér sé um bráðnauðsynlegt rannsóknarefni að ræða. Hitt er annað mál, hverjar niðurstöður þeirrar rannsóknar verða, en mér virðist allt benda til þess, að góðs árangurs megi vænta.

Eins og vikið er að í grg., færum við flm. fram fyrir þeirri skoðun okkar, að málinu geti lyktað með góðum árangri, álitsgerð Trausta Ólafssonar, sem birt er í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands árið 1940. Við flm. berum engar brigður á neitt, sem þar kemur fram, og álitum, að þar sé allt á góðum rökum reist. En síðan hefur þó viðhorfið breytzt, og þess vegna er það ósk okkar, að nýjar rannsóknir verði látnar fara fram.

Ég skal játa, að niðurstöður ritgerðarinnar, sem ég nefndi, eru e.t.v. ekki eins æskilegar og þeir bjartsýnustu hefðu óskað, en ég vil segja, að síðan sú álitsgerð var samin, hefur viðhorfið breytzt oss í hag á þann hátt, að nú er hægt að fá fé til stofnkostnaðar innanlands, í stað þess, að í álitsgerð Trausta er gert ráð fyrir erlendu lánsfé.

Að vísu er stofnkostnaðurinn mjög mikill, en við verðum að gæta að því, að þetta fyrirtæki, sem samkv. álitsgerðinni mundi þurfa 11/2–2 millj. kr. í stofnfé, mundi sjálft standa undir því stofnfé.

Það er heldur engin goðgá að hugsa sér, að fyrirtækið væri rekið á þann hátt, að það stæði sjálft undir rekstrinum, en ríkið undir stofnkostnaðinum, og því vil ég skjóta hér fram sem mínu sjónarmiði og held, að það sé fullkomlega forsvaranlegt á tímum eins og nú eru, þegar um er að ræða útflutningsvöru, sem ég fæ ekki betur séð en við Íslendingar séum að miklu leyti neyddir til að byggja okkar framtíðaraf komu á.

Ég er viss um, að Alþ. tekur þessari till. vel og með fullum skilningi, og vil vænta þess, að ríkisstj., einkum hæstv. atvmrh., láti einskis ófreistað til þess að flýta fyrir því, að niðurstöður fáist, með það fyrir augum, að nú kynnu að vera möguleikar til framkvæmda, sem síðar lokuðust.

Ég geri það að till. minni, að málinu verði vísað til nefndar. Þó að um mikið fjárhagsmál sé að ræða, finnst mér, að það ætti eins heima í allshn. Ég legg það samt á vald hæstv. forseta, hvað honum þykir hlýða. Ég tel rétt að vísa málinu til n., án þess að þurfi að ljúka þessari umr.

Ég læt hér staðar numið, í trausti þess, að Alþ. sýni þáltill. fullan skilning.