30.03.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (1340)

29. mál, verksmiðja til að hreinsa og herða síldarlýsi

*Finnur Jónsson:

Till. þessi er í raun og veru ítrekun á þáltill., sem ég bar fram á þingi 1939 og þá var samþ. Í þeirri þál. var ákveðið að fela ríkisstj. að láta fram fara fullnaðarrannsóknir á því, hvort ekki mundi borga sig að koma upp verksmiðju til að hreinsa og herða síldarlýsi, og ef þær rannsóknir leiddu í ljós, að það mundi arðvænlegt, átti ríkisstj. að leggja um það frv. fyrir Alþ. Till. mín frá 1939 er því viðtækari en sú, sem nú liggur fyrir. Ég geri ráð fyrir, að þessar rannsóknir hafi farið fram, en niðurstöðurnar hafa ekki verið lagðar fyrir Alþ., og er því líklegt, að þáverandi ráðh. þessara mála hafi ekki virzt rannsóknirnar leiða í ljós, að slík verksmiðjulygging mundi svara kostnaði.

Stríðið hefur e.t.v. eitthvað breytt þeim niðurstöðum, sem rannsóknirnar kunna að hafa leitt í ljós, en síðan hefur síldarverksmiðjustj. haft mikinn áhuga á þessu máli, og þegar forstjóri hennar fór utan s.l. haust, var honum falið að útvega tilboð í vélar og hefur fengið þau. Þegar hann var hér á dögunum, var hann ekki búinn að vinna úr skýrslum sínum, en bjóst við að ljúka því bráðlega.

Ég tel, að hér sé um mikilsvert mál að ræða, og finnst það vera komið á það stig, að till. þyrftu að vera ákveðnari en þáltill., sem fyrir liggur. Allir vita, að með hverjum mánuði, sem liður; verður erfiðara að fá vélar til landsins, og þó að á næstu mánuðum gætu fengizt vélar frá Ameríku, getur dráttur til næsta þings gert það, að ekki yrði hægt að framkvæma neitt. Ég tek undir nauðsyn þess, að rannsóknir verði nú látnar fara fram, þar eð engar framkvæmdir hafa orðið samkv. þál. frá 1939, en álít, að til þess að þessi þáltill. komi að tilætluðum notum, þurfi hún að vera orðuð á ákveðnari hátt. Ef sjútvn. fengist til að athuga þau tilboð, sem forstjóri síldarverksmiðjustj. hefur meðferðis, væri rétt, að áhugamenn slægju sér saman og reyndu að flytja frv. um byggingu slíkrar verksmiðju á þessu þingi. Ef hægt væri að taka endanlega ákvörðun á þessu þingi, væri ekki ólíklegt, að hægt væri að hrinda einhverju í framkvæmd.