20.04.1942
Neðri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Haraldur Guðmundsson:

Það er sennilega þýðingarlaust, að við háttv. þm. A.- Húnv. ræðumst meira við, þar eð háttv. þingmenn munu nú, að öllum líkindum, hafa myndað sér sínar skoðanir á þeim málum, er um er að ræða. En það eru nokkur atriði í ræðu hv. frsm., er mig langar til að drepa á.

Fyrst vil ég minna á það, að það sem í rauninni er aðalatriði 4. gr., er það, að með henni er verið að tryggja það, að fyrirtæki, sem hafa yfir kr. 200 000 í tekjur, fái jafnan að halda eftir minnst 28% af tekjunum, eða 40%, ef það eru samvinnufélög, án tillits til, hvort tekjurnar fara langt eða skammt fram út nefndri upphæð. Hér er horfið frá þeirri meginreglu, er fylgt hefur verið í skattamálum undanfarið, að láta skattana stíga hlutfallslega með hækkandi tekjum. Þetta réttlætir frsm. með því, að mestur hlutinn af þessu fé verði bundinn í varasjóðum. Útsvör hafa hingað til verið hærri en tekjuskattur í sveitar- og bæjarfélögum, og þau haft ótakmarkaðan rétt til að leggja á fé, þótt bundið væri í vara- og nýbyggingarsjóðum, en með frv. þessu er það bannað, og verður það fyrirtækjunum hvatning til að safna í sjóði. En þó er gróði yfir kr. 200000 hreinn og óverðskuldaður stríðsgróði, beinlínis afleiðing af styrjöldinni og því óvenjulega ástandi, er hún skapar, sem menn hafa beinlínis siðferðilega minni rétt til en til þeirra tekna, er þeir vinna sér fyrir.

Hins vegar vil ég ekki ganga langt í að skattleggja fé í varasjóðum, en þessi sérstöku fríðindi tel ég ranglát. Háttv. frsm. reiknaði með 7 togurum í Hafnarfirði, er hver um sig hefði kr. 900 000 í tekjur, og mun það ekki fjarri sanni. Samkv. frv. þessu, fengju þeir tryggingu fyrir að halda eftir 2.4 millj. kr. án allra skatta. En ef nú kæmi lélegt tekjuár hjá almenningi, en þessi fríðindi héldust, og bæjarfélögin þyrftu á fé að halda, þá þyrfti að ganga hart að einstaklingum á sama tíma, sem fyrirtæki þessi græddu offjár, sem þau legðu fyrir skattfrjálst. Þegar auk þess er gætt að því, að útgerðarfyrirtækjum hefur verið heimilað síðan 1940 að safna fé með sjóðsfrádráttum og fleiru, sem nemur nú um 20 millj. króna, þá sjá allir hversu aðstaða þeirra hefur batnað, og hvílíkur meginmunur var á að ákveða sjóðatillög þeirra þá fyrr og er nú. Og þó bannar 4. gr., að réttur bæjar- og sveitarfélaga til útsvarsálagningar verði jafnmikill og áður. Þvilík ákvæði eru ekki jafnhættuleg á góðum tekjuöflunarárum, en á erfiðum tímum eru þau óskaplegt ranglæti.

Þá kem ég að því, er frsm. talaði um till. fulltrúa Alþfl. í skattamálum. Það mál krefst nokkurra upplýsinga, og því neyðist ég til að svara.

Það er rétt, að í frv. um nýbyggingarsjóði var gert ráð fyrir því, að það fé, sam lagt væri til þessara sjóða, hefði þau fríðindi, að ekki mætti leggja á það meira í tekjuskatt og útsvar en sem svaraði 25%. En í grg. var það tekið fram, að það yrði að setja eitthvert hámark fyrir því, sem mætti leggja á þann hátt í sjóðinn, og ætlazt var til þess, að það yrði samkomulagsatriði milli flokkanna, hve hátt skyldi farið. Þá var og á það bent í grg., að um tvær leiðir gæti verið að ræða: að láta skatta þessa hækka, þegar komið væri yfir visst mark, t.d. um 100%–200%, eða ákveða, hvað tillagið mætti vera hæst.

Þá sagði hv. frsm., að í till. Alþfl. hefði ekki verið farið nema í 50% með stríðsgróðaskattinn í staðinn fyrir 68% nú. En þessi 50% áttu að bætast ofan á skatt, sem var 40%, svo að samtals hefði skatturinn orðið 90%, eða sama og gert er ráð fyrir hér. Þá var gert ráð fyrir, að þessir skattar mættu ekki fara fram úr 90% af hreinu tekjunum. En hér er miðað við 90% skatt af skattskyldum tekjum. En skattskyldu tekjurnar finnast, þegar búið er að draga frá hreinu tekjunum 1/3 hluta þeirra, þegar um útgerðarfyrirtæki er að ræða, og er þessi hluti 1/3 tillag til varasjóðs. M.o.ö., skatturinn ásamt útsvari hefði mátt verða, ef till. okkar hefði verið samþ., 90% af hreinum tekjum. En samkv. þessu frv., sem hér er um að ræða, geta skattar og útsvar hæst orðið 60% af tekjunum. En 40% verða eftir hjá fyrirtækinu sjálfu óskert.

Ég er reiðubúinn, hvenær sem er, að fallast á að setja slíkar takmarkanir á hlutafélög, að ekki sé farið fram úr 90% af hreinum tekjum þeirra með álagningu skatts og útsvars á þau til samans. Og ég álít hættulaust að setja þess konar ákvæði nú. En ég tel rétt að minna á, að þegar till. Alþfl. um nýbyggingarsjóði var lögð fram, voru sjóðir þessara fyrirtækja nær engir. En nú hafa þessi fyrirtæki fengið tugi millj. kr. í þessa sjóði, og því er eðlilegt, að meira aðhald þurfi nú að hafa um þessar sjóðmyndanir. En ég held, að í þessu frv. sé, því miður, þessa ekki gætt, sem skyldi, og gildir sama, að mínu áliti, um frv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem fyrir þinginu liggur.

Með þessu hef ég þá svarað hv. þm. V: Húnv.

Hann taldi, að með þessu frv. væri svo langt gengið, að það væri óðs manns æði að láta sér detta í hug, að hægt væri að bæta nokkrum útsvörum ofan á stríðsgróðaskattinn. Það mun stafa af því, að. þessi hv. þm. lítur svo á, að það sé ekki hægt að leggja neitt á það fé, sem lagt er í varasjóðina. En þegar þess er gætt, að það eru a.m.k. 40% af tekjunum, sem þannig sleppa við allar skatt- og útsvarsgreiðslur einmitt hjá stríðsgróðamönnum, get ég ekki séð, að ástæða sé til að lögfesta slíkt ákvæði. Og ég álít ekki rétt að breyta gildandi l. í því efni. Sveitarfélögin eiga að mínu áliti að halda áfram að hafa rétt til að leggja útsvör á þann hluta teknanna, sem í varasjóð er lagður.

Orðaskipti þeirra hv. þm. V.- Húnv. (SkG) og hv. þm. A.- Húnv. (JPálm) um veltuútsvarið gæti ég í raun og veru leitt hjá mér. En það er broslega, sem hv. frsm., þm. V.- Húnv., segir um tilganginn með 4. gr. frv., að hann sé sá að gefa skattgreiðendum vernd fyrir því, að lögð séu tekjuútsvör á þær tekjur, sem eru fram yfir 200 þús. kr. En í hinu orðinu segir sá sami hv. þm., að þrátt fyrir þetta, ef þörf gerist, megi sveitarfélag leggja á veltuútsvar. Eftir því má ekki leggja tekjuútsvar á tekjur yfir 200 þús. kr., heldur veltuútsvar. Ef þetta er meiningin, þá má þessi hv. þm. falla frá 4. gr. frv., því að það hefur ekki hin minnstu áhrif á afkomu félags, hvort útsvarið, sem á það er lagt, heitir tekjuútsvar eða það heitir veltuútsvar. Enda sagði hv. þm. A.- Húnv., að það væri kannske tryggara að taka það fram, að ekki mætti leggja á þennan hluta teknanna veltuútsvar. Ég hygg, að tilgangurinn með samkomulagi flokkanna sé sá, að banna að leggja nokkurt útsvar á þennan hluta teknanna, þ.e. það, sem er yfir 200 þús. kr., því að annars væri þetta ákvæði þýðingarlaust.

Ég hygg, að það hafi verið hv. þm. A.-Húnv., sem lét þau orð falla, að sér væri ekki ljóst, hvernig það gæti aukið misræmið í skattaálagningunni, þó að bannað væri að leggja útsvör á tekjur yfir 200 þús. kr. Mér finnst það vera augljóst. Það misræmi, sem nú er á milli einstaklinga og félaga um álagningu á víssar tekjuhæðir þeirra eftir skattal., eykst náttúrlega stórkostlega við samþ. þessa frv. Því hærri sem tekjur fyrirtækja eru, því meiri verða skattfríðindi þeirra viðkomandi varasjóðunum. En einstaklingarnir fá aldrei meira verndað á þennan hátt en 10% af tekjunum.

Hv. 6. landsk. þm. (EmJ) benti á dæmi, sem sýnir þetta kannske gleggst. Við segjum, að það séu tvö félög, annað gerir út 1 skip, en hitt 7 skip. Bæði greiða þau sama hundraðshluta af tekjunum í skatt, þótt annað hafi 7 sinnum meiri tekjur en hitt; og sennilega greiða þau bæði jafn hátt útsvar, annað af 1 skipi, hitt af 7 skipum: Verði munur á útsvari þeirra, kemur sá munur aðeins á fyrstu 200 þús. kr. af tekjunum, því að bæði greiða þau sama skatt af því, sem fram yfir er það hámark. Og á skatt af yfir 600 þús. kr. tekjum verkar þessi munur ákaflega lítið, a.m.k. ekkert sambærilegt við það, sem þyrfti til þess að gera útsvarshlutföllin eðlilegri milli þessara félaga. Bæði þessi félög fengju sennilega jafnt útsvar, — um 70 þús. kr. Bæði borguðu sennilega sama hundraðshluta af tekjunum í skatt. En sennilega yrði skatturinn hjá öðru um það bil 10 sinnum hærri heldur en útsvarið, þar sem yrði tiltölulega mjög lítill munur á skatti og útsvari hjá hinu. Það misræmi, sem fyrir er í þessu efni, eykst því mjög mikið með samþ. þessa frv.