20.04.1942
Neðri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Haraldur Guðmundsson:

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að í frv. okkar var gert ráð fyrir frádráttarreglunni. En eins og ég hef marglýst yfir, þá stóð svo á, að útgerðarfélögin voru skattfrjáls, og ef farið hefði verið að .afnema frádráttinn og lækka skattstigann að sama skapi, þá hefði skattur á þessum félögum lækkað mikið, af. því að þar var enginn skattur til frádráttar.

Hv. þm. segir, að vel geti svo farið, að afnema verði varasjóðshlunnindin á næsta þingi, af því að þá verði félögin orðin svo rík. Um það skal ég engu spá, en ef það er skoðun hv. frsm., þá hefði verið eðlilegra að láta standa óbreytt , í l. ákvæðið um að heimila bæjarfélögunum að leggja á tekjur, þó að þær væru yfir 200 þús. kr., því að þá hefði mátt, ef ástæða hefði þótt til, styrkja útsvörin einnig með því, sem nú er lagt í varasjóð, og það mun sannast í erfiðari árum við niðurjöfnun útsvara, að það verður óstætt á, að láta þessi félög hafa þessi sérstöku og víðtæku fríðindi, sem þeim er ætlað með þessum l. Það hefur aldrei þótt fært að undanþiggja alveg útsvari allar tekjur, sem eru undanþegnar tekjuskatti, og því fráleitara er að undanskilja alveg útsvari þann hluta teknanna, sem er ekki fenginn með sparnaði eða öðrum skattborgaralegum dyggðum, heldur eingöngu fyrir tilviljun.