19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

13. mál, skemmtanaskattur

*Garðar Þorsteinsson:

Ég skal ekki lengja þessar umr., en af því, að ég er kunnugur þessum málum, tel ég rétt að segja hér nokkur orð.

Ég vil fyrst svara hv. þm. Seyðf., þegar hann var að tala um, hvort hér ætti að vera bæjarrekstur eða einstaklingsrekstur á kvikmyndahúsum. Ég hef ekkert við það að athuga, þó að hann láti þá skoðun í ljós, að kvikmyndahúsin eigi að vera rekin af ríki eða bæjum. Þeir, sem aðhyllast bæja- eða ríkisrekstur, vilja sjálfsagt fylgja þeirri stefnu sinni fram sem víðast. Það er skoðun mín, að það eigi ekki að vera, en hans, að það eigi að vera, og um þetta má endalaust deila, eins og alltaf má deila um, hvort atvinnurekstur eigi að vera í höndum einstaklinga og félaga eða ríkis og bæja, en ég hygg, að það kvikmyndahús, sem rekið hefur verið af bænum á Ísafirði. — (FJ: Það er ekki rekið af bænum.) Ég hef haldið, að svo væri. Hvers vegna hafa þeir ekki gert það? (SK: Það var bæjarrekstur, en hann bar sig ekki.) Ef þessir menn vilja endilega, að bæirnir reki kvikmyndahúsin, þá ættu þeir að byrja þar, sem þeir höfðu aðstöðu til þess. Ég hygg, að það stafi þá af því, að annaðhvort hafi þeir ekki talið rétt, að bærinn ræki það, eða þá að flokkurinn, sem á þetta hús, þar sem kvikmyndasýningarnar eru: hagnast á því, en ber þá minni umhyggju fyrir bænum en hann vill vera láta.

Ég veit ekki heldur betur e n að Alþfl. vildi fyrir nokkrum árum kaupa Gamla Bíó, svo að hann hefur þá viljað komast í þá aðstöðu, sem hv. þm. Seyðf. segir, að tveir menn eða félög hér í bænum hafi, en hann vill nú, að sé tekin af þeim. Annars vit ég benda á, að það eru fleiri en þessi tvö félög, sem hafa þessi sérréttindi, en það er ekki þessum tveimur félögum að kenna, þó að ekki hafi verið rekin fleiri kvikmyndahús. Hv. þm. veit, að þjóðleikhúsið hefur, frá því að l. um það voru sett, haft rétt til kvikmyndasýninga, og háskólinn hefur hann einnig nú og er í þann veginn að byrja þennan kvikmyndarekstur.

Það vita allir, að síðan brezka setuliðið kom, hefur aðsókn að kvikmyndahúsunum aukizt gífurlega, en ég hygg, að fyrir þremur árum hafi kvikmyndahúsin hér verið fullkomlega nógu rúm fyrir þennan bæ. Ég hygg, að í bæjum á Norðurlöndum muni síður en svo verða færri áhorfendur miðað við sýningarsæti, sem sést af því, að fram til þess, að setuliðið kom, var ekki nema ein kvikmyndasýning á dag, sem sýnir, að aðsóknin var ekki það mikil, að gera mætti ráð fyrir, að fleiri kvikmyndahús gætu starfað í bænum.

Ég skal þá víkja með nokkrum orðum að þessu frv., sem er staðfesting á bráðabirgal., sem gefin voru út. Eins og hv. þm. er kunnugt, eru l. frá 1927 um skemmtanaskatt heimildarl., þannig að fjmrh. er heimilt að innheimta skemmtanaskatt af kvikmyndasýningum með 80% viðbót, og þessa heimild hefur ríkisstj. notað. Heimildin féll úr gildi 31. des. 1941, en bráðabirgðal. voru ekki gefin út fyrr en 1. febr. þ. á., svo að þarna er dauður punktur, þár sem engin l. eru um þessa viðbótarinnheimtu. Nú er mér ekki kunnugt, að hæstv. fjmrh. hafi gefið hlutaðeigendum neina tilkynningu með bréfi eða í Lögbirtingablaðinu um, að þessi heimild yrði notuð. Hins vegar er í þessum bráðabirgðal og í frv. sjálfu sagt, að skemmtanaskatt samkv. 1. frá 1927 skuli á árinu 1942 heimilt að innheimta með álagi o.s.frv. Nú veit ég ekki, hvort er meining hæstv. stj. eða n., að þessi heimild eigi að gilda aftur fyrir sig, þannig að ef frv. er samþ. í marz eða apríl og l. koma þá út, að heimilt sé að innheimta skemmtanaskattinn með 200% álagi og hæstv. stj. vill nota þessa heimild, þá eigi að innheimta þennan skatt frá 1. jan. þ. á. Eins og frv. er orðað virðist, að l. eigi að gilda allt árið, en mér finnst ekki koma til greina, að hægt sé að leggja skatt á tekjur, sem fengnar eru, áður en l. eru samþ. Ég vil því spyrja, við hvað sé hér átt. Ég vil einnig spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann hugsi sér að nota þessa heimild til þess ýtrasta og innheimta þennan skatt með 80 eða 200% álagi.

Ég get ekki fallizt á þá ástæðu, sem hv. frsm. færði fram fyrir þessari miklu hækkun á skattinum. Ég hygg, að það sé sönnu nær, að hugsanagangur þeirra þm., sem eru í n., hafi verið sá, að kvikmyndahúsin hefðu nú mikla aðsókn og græddu það mikið, að þau væru ekki of góð til að borga þessi 200%. En í staðinn fyrir að segja sannleikann eins og hann er, segja þeir, að þetta stafi af umhyggju fyrir þjóðleikhúsinu. Ég vil segja, að ef þjóðleikhúsið á að fá bættan þann tekjumissi, sem það hefur orðið fyrir við það, að skatturinn hefur ekki undanfarin ár gengið til þess, heldur ríkissjóðs, þá á sá aðili, sem hefur notið þessara peninga, að bæta þennan tekjumissi. Fyrst ríkissjóður hefur fengið að undanförnu þessa peninga, sem þjóðleikhúsið átti að fá, þá er ekki rétt að ætla að bæta þjóðleikhúsinu tekjumissinn með því að hækka nú skemmtanaskattinn svona gífurlega, því að hv. n. hlýtur að vera það alveg ljóst, að þessi hækkun lendir ekki nema að litlu leyti á kvikmyndahúsunum sem slíkum, heldur á þeim, sem við þau skipta, því að verð aðgöngumiða mun að sjálfsögðu hækka, og leyfi ég mér þar að benda á, hvað hefur orðið áður fyrr, þegar skatturinn hefur verið hækkaður. Þá hefur verð miðanna hækkað.

Það má ef til vilt segja, að kvikmyndahús séu óþörf, en þetta er þó sú skemmtun, sem mun vera vinsælust og mest sótt af almenningi, og ég hygg, að hann vilji ekki án þeirra vera. Þá er á það að líta, að kvikmyndahúsin verða þrjú, en ekki tvö, og fjögur, þegar þjóðleikhúsið kemur. Ég veit ekki, hvort háskólinn á að greiða skatt, en ekkert réttlæti virðist vera í, að hann borgi ekki skatt eins og hver annar bíóeigandi.

Ég hygg, að hv. frsm. hafi ekki farið rétt með, þegar hann sagði, að skattur af kvikmyndasýningum hefði ekki verið nema 220 þús. kr. tvö síðastliðin ár. Ég veit ekki, hvaðan hann hefur þær upplýsingar, en ég hygg, að það sé miklu meira. Vera kann, að skatturinn sé ekki meiri af bíóunum hér í Reykjavík, en það eru til fleiri kvikmyndahús, og þau borga líka skatt.

Það er rétt, að kvikmyndahúsin í Reykjavík hafa haft geysilega aðsókn og hafa að sjálfsögðu grætt peninga. En þau greiða eins og aðrir skatt og útsvar og enn fremur skemmtanaskatt, sætagjald o.s.frv. Ég vil enn fremur benda á, að það er ómögulegt, bæði fyrir Alþ. og einstaka þm., að miða þennan rekstur eða annan við það óvanalega ástand, sem nú er. Það þarf ekki að líta nema tvö ár aftur í tímann til þess að sannfærast um það. Þá var ein sýning á dag og kvikmyndahúsin sjaldan full, og þegar setuliðið fer aftur, mun sækja í gamla horfið og aðsóknin minnka stórlega. Að vísu má gera ráð fyrir, að bæjarbúum hafi þá fjölgað, en hins vegar er á það að líta, að þá verða kvikmyndahúsin orðin fleiri.

Þá er einnig á það að líta, að nú fær enginn amerískur hermaður að fara inn í bíóin hér í bæ, og er ætíð lögregluvörður við dyrnar til þess að gæta að því. Nú skilst mér, að brezku hermennirnir eigi að fara héðan úr bænum, og munu þá ekki aðrir sækja bíóin en Íslendingar og erlendir sjóliðar, sem hingað koma.

Ég vil líka benda á, að amerísku hernaðaryfirvöldin eru í þann veginn að reisa kvikmyndahús víðs vegar um land. Ég veit ekki, hvað mörg eru í nágrenni Reykjavíkur. Ég vil líka upplýsa, að það er skylda filmleigufélaganna í Ameríku að senda filmurnar til hernaðarstöðvanna úti um heim, strax og þær koma á markaðinn, þannig að kvikmyndafélögin í Ameríku, sem við skiptum við, eru skyldug til að senda myndirnar undir eins til Íslands eins og annarra landa, þar sem amerískar herstöðvar eru, svo að nærri því hver mynd, sem kemur til íslenzku kvikmyndahúsanna síðar, hefur áður verið sýnd hér fyrir ameríska herinn. Ég hef gert tilraun með nýjar og góðar myndir að fá þær sýndar hér um leið, en það hefur alls ekki fengizt, svo að mönnum má þá vera það ljóst, að jafnvel þótt amerísku hermlinnunum yrði síðar leyft að sækja íslenzku kvikmyndahúsin, þá munu þeir vera búnir að sjá flestar myndirnar, þegar við fáum þar, þar sem þær verða þá kannske ársgamlar og hafa verið sýndar hér áður fyrir hermennina. Þess vegna er alveg ljóst, að aðsókn að kvikmyndahúsunum hlýtur að minnka við þetta. Ég vil þess vegna aðeins benda á, að það er ekki hægt að gera ráð fyrir rekstri kvikmyndahúsanna á þann hátt á næstu árum eins og hann nú er og hefur verið um skeið. Ef gert væri ráð fyrir því, væri það eins og að gera ráð fyrir, að hér gæti aldrei komið atvinnuleysi aftur, af því að nú hafa allir nóg að gera. Og þó að kvikmyndahúsin hér í Reykjavík gætu borgað þetta 200% álag með því að hækka inngangseyrinn, þá gildir ekki það sama um önnur kvikmyndahús hér á landi, þar sem dýrara er að reka þau, t.d. á Ísafirði, í Hafnarfirði, Keflavík, Akranesi, Borgarnesi, Seyðisfirði og Norðfirði. Hvernig eiga þessi kvikmyndahús að geta þolað, að skemmtanaskatturinn sé hækkaður upp í það, að hann sé innheimtur með 200% álagi? Mér hefði fundizt sanngjarnara, að þessi hækkun hefði verið sett með bráðabirgðaákvæði og næði eingöngu til kvikmyndahúsanna í Reykjavík, því að ég veit, að sum kvikmyndahús úti á landi hafa naumast borið sig. Og ég veit líka, að þorpsbúar á ýmsum stöðum vilja að kvikmyndahús séu starfrækt hjá sér, vegna þess að þar er kannske ekki um aðrar skemmtanir að ræða. En verði skatturinn rukkaður, þannig að hann nái til allra kvikmyndahúsa jafnt, má búast við, að íbúar þessara borga hætti við að reyna að hafa kvikmyndahús hjá sér, vegna þess að þeir væru þess ekki umkomnir að bera þennan skatt á kvikmyndasýningarnar. Ég vil skjóta því til hv. þm., hvort þeim finnist ekki ráðlegt að láta þessa skatthækkun ná aðeins til kvikmyndahúsanna hér í bænum og vera aðeins til bráðabirgða.

Vil ég svo ljúka máli mínu með því að óska eftir upplýsingum um þetta tvennt: Í fyrsta lagi, hvort ríkisstjórnin skilur þetta frv. þannig, að það eigi að verka aftur fyrir sig, ef að l. verður, og í öðru lagi, hvort hæstv. fjmrh. hugsar sér að nota heimild þessara l. þannig, að skemmtanaskatturinn yrði innheimtur með þessu 200% álagi skilyrðislaust.