09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

70. mál, stríðsgróðaskattur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þessari brtt., sem hv. þm. Hafnf. ber fram á þskj. 352, var nú að vísu útbýtt í gær í annarri mynd en hún er nú í. En það hefur samt farið svo, að fjhn. hefur ekki haldið neinn fund síðan till, var útbýtt í gær og því ekki tekið neina afstöðu til till. Ég hef því ekkert að segja f.h. n. í heild. út af þessari till. En ég vildi samt leyfa mér að fara örfáum orðum um þessa till. Er þá í fyrsta lagi að geta þess, að þótt hv. flm. hafi skýrt hana frá sínu sjónarmiði, þá er ég í nokkrum vafa um, ef hún verður samþ., hvernig hún yrði skilin og hvernig hún yrði framkvæmd. Till. byrjar þannig: Frá orðinu innheimta bætist við o.s.frv. En orðið innheimta er á tveimur stöðum í gr., hv. tillögumaður mun sennilega ætlast til, að viðbótin komi frá fyrra orðinu. (BSn: Nei, frá síðara orðinu.) Ef það yrði skilið svo, fæ ég ekki betur séð í fljótu bragði en að greinin yrði meiningarleysa. Þetta er formgalli á till.

Eins og ég gat um við 2. umr, þessa máls, tel ég heppilegast að samþ. þetta frv. óbreytt, eins og það liggur fyrir. Meðal annars vegna þess, að þótt till. hv. þm. Hafnf. verði samþ., er þess að geta, að ákaflega svipuð till. kom fram í Nd. og var felld. Ætla má, að hv. Nd. hafi enn sömu skoðun í þessu efni. Ég tel því, að samþ. þessarar till. muni tæplega verða til annars en að tefja málið.

Í öðru lagi vil ég taka það fram um mína afstöðu, að ég er alveg á móti þeim tilgangi, sem í till felst. Ég býst við, að ég líti dálítið öðrum augum á þennan stríðsgróðaskatt en hv. þm. Hafnf. Þessar feikna háu tekjur, sem ekki hafa áður þekkzt hér á landi, og sérstaklega þær tekjur, sem eiga að bera fullan stríðsgróðaskatt, eru til komnar af hinu alveg óvenjulega ástandi, sem hvorki einstaklingar þjóðfélagsins hafa framkallað né bæjar- eða sveitarfélög. Mér finnst því, að sá skattur, sem leggst á þennan óvenjulega tilviljunargróða, sé í eðli sínu alþjóðar eign. Hitt er svo annað mál, að það er óneitanlegt eins og hv. þm. Hafnf. var að tala um — að með ákvæðum þessara skattafrv. beggja, sem liggja fyrir, um stríðsgróðaskatt og tekju- og eignarskatt, er réttur bæjar- og sveitarfélaga takmarkaður til að leggja útsvör á þessi fyrirtæki. Þetta er bætt með því að ætla 45% af stríðsgróðaskattinum til þeirra bæjar- og sveitarfélaga, þár sem teknanna er aflað. En þó eru takmörk sett fyrir því þannig, að bæjarfélög jafni niður á gjaldþegna sína þremur á móti tveimur eða þeim séu ekki greiddar nema 2 kr. á móti 3, sem jafnað er niður. Ég held, að með þessu sé ákaflega sanngjarnlega í sakirnar farið, því að þess ber að gæta, að það eru allmiklir möguleikar til útsvarsálagningar á ýmsa þá, sem stríðsgróðaskattinn greiða, þá sem ekki hafa tekjur, sem nema 200 þús. kr. Hv. þm. minntist í þessu sambandi á Hafnarfjörð, enda mun þessi till. vera borin fram sérstaklega fyrir hann. Ég fylgdist ekki vel með umr. í Nd. um þetta mál, en hygg þó, að lagðar hafi verið fram tölur, sem sýndu alveg ljóslega, að ef allur stríðsgróðaskattur í Hafnarfirði rynni í bæjarsjóð, þyrfti alls ekki að leggja neitt útsvar á nokkurn gjaldþegn þar til þess að standast árleg útgjöld bæjarins, að viðbættu eðlilegu geymslufé til lakari ára, a.m.k. að nokkru leyti.

Hv. þm. Hafnf. ber nú ekki fram alveg sams konar till. eins og borin var fram í Nd., því að hann ætlast til, að afganginum, sem hann svo kallar, verði varið til þarfa bæjarfélagsins síðar, að féð verði í vörzlum ríkissjóðs, en eign viðkomandi sveitarfélags, og greiðist því, þegar þörf er á til atvinnubóta. Skal ég játa, að þessi till. er að því leyti dálítið aðgengilegri heldur en uppbótarþm. Hafnf. bar fram í Nd. En í þessu sambandi var hv. þm. að tala um misrétti gagnvart hinum sveitarfélögunum, sem fengju allan stríðsgróðaskattinn. Frá mínu sjónarmiði snýst þetta alveg við. Ef till. hv. þm. Hafnf. verður samþ., álít ég einmitt, að hin sveitarfélögin yrðu fyrir misrétti, en ekki Hafnarfjörður og aðrir kaupstaðir, sem líkt stendur á fyrir. Við skulum segja, að sveitarfélag eða bæjarfélag fái einhvern stríðsgróðaskatt, en þurfi að leggja á gjaldþegnana miklu hærra útsvar heldur en gert er að skilyrði í 2. gr. frv. Hvað hefur það til atvinnuleysisáranna nema með því móti að leggja á venjulega gjaldþegna óvenjulega há útsvör? En þessi skoðanamunur okkar hv. þm. Hafnf. stafár af því, að við hófum mismunandi skoðun á, hvers eðlis stríðsgróðaskattur sé, hver sé hinn rétti eigandi hans. Hv. þm. telur, að það séu sveitarfélögin. Ég lít aftur á móti svo á, að það sé þjóðarheildin, þó að hún afsali sér hins vegar nokkru af upphæðinni til bæjar- og sveitarfélaga, með tilliti til þess, að þá er líka nokkuð skertur réttur þeirra til útsvarsálagningar. Það er skoðun manna á þessu efni, sem sker úr við atkvgr., og munu því ekki langar umr. hafa þýðingu. En áður en ég lýk máli mínu, vil ég gera fyrirspurn til hæstv. forseta, hvar till. eigi að koma inn í gr.