09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég er sammála hv. frsm. um, að stríðsgróðskatturinn, sem hefur verið eins og hvert annað óverðskuldað happ í hinu sérstaka viðhorfi síðustu ára, eigi ekki að vera hlunnindi til neinna sérstakra bæjarfélaga, heldur alþjóðar. En það liggur í hlutarins eðli, að um leið og alþjóð verður þessa aðnjótandi, er sanngirniskrafa, að það sveitarfélag, sem hefur slíka gjaldþegna, sem hér um ræðir. geti haft aðstæður til að nota sér þetta árferði til að byggja upp til vondu áranna. Það er svo í þessum l., að af stríðsgróðaskattinum á ríkissjóður að fá óskertan um helming, og það fer auðvitað til alþjóðar. En hinn hlutinn á að fara til sveitarfélaganna, þar sem skatturinn er innheimtur, og nokkuð til annarra sveitarfélaga. Því er það ljóst, að þeir, sem hafa undirbúið frv., hafa ætlazt til, að töluverður hluti skattsins félli til þeirra sveitarfélaga, sem hlut eiga að máli. Það er því ekki nema að nokkru leyti sannleikur, að ætlazt sé til, að skatturinn sé alþjóðareign. Svo kemur það atriði, að til eru sveitarfélög, sem ekki geta hagnýtt sér þetta. Hv. frsm. segir, að þau verði ekki frekar fyrir barðinu á kreppunni en hin. En það er mín skoðun eins og allra, sem vita, hvílík áhættufyrirtæki stórútgerðin er, að við verðum að gera okkur ljóst, hvernig fer fyrir slíku bæjarfélagi, sem hefur þá gjaldþegna að byggja á að mestu leyti. Eins og ríkissjóður safnar sér nú sjóði til að hafa til. taks í vondu árferði, á það um leið að vera hans keppikefli, að sveitar- og bæjarsjóðir geti safnað sem mestu líka. Hv. frsm. minntist á, að þeir, sem gætu ekki orðið þessa aðnjótandi nú vegna þess, að þeir hefðu engan stríðsgróðaskatt hjá sér, yrðu þá að leggja ríflega á gjaldþegna aðra og gerðu það, þegar illa léti í ári. Það er dálítið annað mál, þar sem ólíku er saman að jafna, landbúnaði og sjávarútvegi.

Þetta álít ég, að nægi til skýringar mínu máli, enda er ég hv. frsm. sammála um, að löng ræðuhöld eru óþörf, og skýrt tekið fram í brtt., hvað við er átt.

Hv. frsm. skaut því til forseta, hvort brtt. mundi eiga við fyrra eða síðara orðið innheimtur. Mér skilst, að ef breyt. er höfð á fyrri staðnum, verði gr. endileysa tóm, svo að hún hlýtur að eiga að vera á síðari staðnum. En ef skrifl. brtt. þyrfti við þetta, væri auðvelt að koma því í kring.

Út af ummælum hæstv. fjmrh. um, að ekki megi tefja málið, vil ég segja það, að það er mjög oft, sem slíkar mótbárur heyrast um sanngjörn mál, og á helzt ekki að eiga sér stað, þegar mál koma til d., að hvor d. fyrir sig eigi ekki fullan rétt á að gera þær breyt. á málunum, sem hún álitur réttar vera, hvað sem líður því, að þinglausnir þurfi að dragast í nokkra daga.

Varðandi það, að koma megi með brtt. á næsta þ. og þá sé hægt að sjá, hvort sveitarfélög verði svo illa úti, þá er heilu ári sleppt, en enginn veit, hvað framtíðin ber í skauti sér, en við vitum hins vegar, að þetta ár er veltiár, og eftir því eigum við að haga okkur í máli eins og þessu.