09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

70. mál, stríðsgróðaskattur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég ætla aðeins að segja örfá orð. Hv. þm. Hafnf. sagði, að það væri sanngirniskrafa bæjarfélaganna, að þau gætu notað þennan tíma til að safna sér til vondu áranna, sem allir búast við, að komi eftir stríðið. Ég er honum sammála, og ég held, að það bæjarfélag, sem fær svo mikinn stríðsgróða, að það þykist tæplega geta lagt á borgara bæjarins eins og áskilið er í 2. gr. frv., til þess að það fái fyllilega sinn hluta af stríðsgróðaskattinum, sé svo vel sett, að það geti undir öllum kringumstæðum safnað í sjóði.

Það er rétt, að þeir, sem frv. sömdu, hafa ætlazt til, að nokkur hluti skattsins rynni til bæjarfélaga. En hv. þm. sagði, að sum þeirra gætu ekki hagnýtt sér það. Af hverju ekki? Af þeim ástæðum, að peningastraumurinn í sjóð þeirra er svo mikill; að þau telja ekki þörf að leggja útsvör á borgarana. Með því að hafa útsvörin rífleg fá þau þeim mun meiri stríðsgróðaskatt í sinn hlut, og eftir fregnum frá Hafnarfirði nú hefur það bæjarfélag samkv. þessum l. meiri möguleika en flest önnur bæjar- og sveitarfélög landsins til að safna til vondu áranna.

Í þessu sambandi talaði hv. þm. Hafnf. um, að bæjarútgerðin væri stopul og mætti ekki bera hana saman við landbúnaðinn. Það er að vísu rétt, en það eru til bæjarfélög hér, sem engan eða sama og engan stríðsgróðaskatt fá. Ég veit t.d. ekki til, að mitt bæjarfélag fái neinn stríðsgróðaskatt, en hagur borgaranna er almennt góður, og bæjarfélagið bætir hag sinn með því að losa sig úr skuldum.

Ég skal að lokum taka það fram, að ég álit, að þau tvö mál, sem standa hér saman á dagskránni, frv. um stríðsgróðaskatt og frv. um tekju- og eignarskatt, séu svo samtvinnuð, að eiginlega sé um sama málið að ræða. Ekki geta skattan. farið að starfa fyrr en bæði frv. eru orðin að l. Ég tók það fram í nál. um þessi mál, að ég áskildi mér sama rétt og aðrir nm. til að bera fram brtt. við þau eða vera með brtt., ef á annað borð yrðu samþ. brtt. við 2. umr. Ég vil nú líka áskilja mér rétt til að vera með brtt. við tekju- og eignarskattsfrv., ef svo færi, að brtt. yrðu samþ. á þessu frv., því að þessi tvö frv. verða að fylgjast að.