31.03.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (1401)

54. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti ! Þetta mál var til umr. á síðasta þingi og hefur raunar verið tekið til meðferðar áður. Og ég held óhætt sé að segja, að þm. hafi smátt og smátt sannfærzt um, að það er réttlætismál og verður ekki stöðvað. Málið var afgr. á síðasta þingi með rökst. dagskrá, þar sem ríkisstj. var falið að vinna að því. Dagskráin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti fara fram athugun á framboðum og verðgildi. hlutabréfa Útvegsbanka Íslands h/f og leggi fyrir næsta Alþingi tillögur sínar um, hvort ríkissjóður skuli kaupa hlutabréf þau, sem um ræðir í þáltill., og með hvaða skilyrðum, ef til kemur, svo sem kaupverð, árlegt framlag ríkissjóðs til kaupanna og að keypt verði af þeim einum, er voru upphaflega eigendur bréfanna, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta var að vísu till. minni hluta fjvn., en meiri hlutinn lagði til, að samþ. yrði till. samhljóða þeirri, sem hér er nú borin aftur fram. Þótt hún næði þá ekki fram að ganga og rétt þætti að bíða aðgerða ríkisstj., horfir nú öðruvísi, þar sem ekkert hefur komið fram frá ríkisstj. og ætla má, að meiri hl. fjvn. sé ákveðinn með þeirri lausn, sem hann lagði til, að gerð yrði. Okkur þótti mega una við úrslitin í fyrra í trausti þess, að ríkisstj. hæfist handa, en nú heyrist ekkert frá henni, þótt langt sé liðið á þing.

Við flm. höfum því tekið okkur saman um að koma enn þá fyrir þingið með þetta mál og höfum gert álit meiri hl. fjvn. að okkar orðum. Öllum hv. þm. er þetta mál vel kunnugt, svo að ekki þarf að fara um það mörgum orðum. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, með öllum þeim atburðum, viðhurðum og viðleitni, sem nú er verið að gera í opinberu lífi til þess að jafna hlutskipti þegna þjóðfélagsins með ýmiss konar ráðstöfunum, að ekki sé hægt að fá nægilega marga þm. til þess að skilja, að það er mesta óréttlæti að búa svo að þegnum þjóðfélagsins, sem hafa safnað sér sparifé, að ábyrgjast sumum þeirra, ekki aðeins með hverju pútti og plaggi, sem bankinn á, heldur líka með ábyrgð ríkissjóðs, en láta aðra missa sínar sparifjáreignir a.m.k. um ófyrirsjáanlegan tíma, því að ég verð að kalla það ófyrirsjáanlegan tíma, sem mest af eignum þessara manna sitja fastar og svara engum arði og hafa ekki mér vitanlega verið taldar gott veð.

Nú er vitanlegt, að sú stofnun, sem þetta fé er fast í, er ekkert illa stæð. En þannig hagar til, að ríkið á mestan hluta í þessari stofnun, en þeir, sem að þessum sparisjóðshlutabréfum standa, hafa engin áhrif á bankans inngang og útgang, hvernig honum er stjórnað og hvað þar er samþ. og eru gersamlega áhrifalausir eigendur í þessari stofnun, en ríkið hins vegar ræður öllu.

Og þar sem þessir menn hafa þá ánægju, ef ánægju skyldi kalla, að vera hluthafar án þess að njóta þess á nokkurn hátt, þá finnst mér, að ekki sé sæmilega búið að þessum mönnum af ríkisins hálfu, nema þeim sé gefinn kostur á, að ríkið innleysi þeirra hlut, eins og farið er fram á í þessari till. Ég hef aldrei haldið fram, að þessir menn mundu vinna mál gegn ríkinu, ef út í það væri farið, en hinu hef ég haldið fram og skal gera, meðan ég má, að þeir eiga þá fyllstu sanngirniskröfu, sem nokkur maður getur átt, að ríkisvald og ríki rétti þeirra hlut. Það var af völdum ríkisins, að farið var með þetta sparifé eins og farið var. Það er mikill sannleikur, sem einn fjármálamaður sagði við mig fyrir nokkru, að ríkisvaldið ætti aldrei að láta það viðgangast, að nokkur maður tapaði sparifjárinnstæðu sinni, hvort sem hún væri í banka eða sparisjóði. Þó að erfitt sé að koma þessari fallegu hugsun í framkvæmd, þá er víst, að það er heilbrigð stefna af ríkisvaldinu að stuðla að því eftir mætti, að fólkið safni sparifé. Þeir, sem hér er um að ræða, hafa lagt sitt fé í sparisjóð banka á sínum tíma á sama hátt og menn leggja sparifé sitt nú inn í Landsbankann og Útvegsbankann og hafa ábyrgð banka og ríkis. Áhrif ríkisvaldsins urðu til þess, að þessir menn urðu að fórna parti, helmingi, af innstæðum sínum, en engin ástæða er nú til að láta viðgangast, að menn festi fé sitt á þennan hátt um ófyrirsjáanlegan tíma. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir við framsögu fjárl. hér, að ríkið hefði haft um 17 millj. kr. tekjur umfram það, sem búizt hafði verið við, og þegar hagur ríkissjóðs er svo góður, ætti að vera fjöður af fati fyrir ríkissjóð að láta þessa þegna njóta þess, að ríkissjóðshagur er góður og hjálpa þeim til þess að ná rétti sínum. Ég vil minna hv. þm. á, að flest eru þetta menn, sem ætluðu sér, þegar þeir lögðu inn þetta fé, að eiga það til ellidaganna og eru nú orðnir gamlir og hafa fæstir nokkur tök á að færa sér á nokkurn hátt þann svo kallaða stríðsgróða í nyt.

Menn hafa nú í dag talað mikið um brúargerðir, og þeirra er að sjálfsögðu allra þörf. Ég vil mælast til, að hv. þm. hjálpist til með samþ. þessarar till. að brúa það bil, sem fyrir rás viðburðanna hefur skapazt milli sparifjáreigendanna í landinu, hjálpa þeim mönnum, sem eru nú margir hverjir illa stæðir fjárhagslega, til þess að fá aftur það fé, sem þeir á sínum tíma í góðri trú lögðu fram til þess að bjarga einni bankastofnun landsins, brúa bilið milli þessara manna og þeirra, sem í gær og í dag og á morgun lögðu og leggja fé í banka landsins og sparisjóði með ríkissjóðinn sjálfan sem ábyrgðarmann. Þetta bil þarf að brúa, og má m.a. gera það með því að taka undir þessa þáltill., sem er nákvæmlega eins orðuð og fer fram á það sama og meiri hluti fjvn. vildi láta gera á þinginu í fyrra.

Það getur vel verið, að sjálfsagt þyki að vísa þessu máli til fjvn. aftur, ég skal ekki fást um það, en ég vil treysta því með tilliti til breyttra ástæðna, að þeir nm., sem á síðasta þingi báru fram dagskrártill., geti nú fallizt á að afgr. málið eins og meiri hl. vildi láta gera á þinginu í fyrra.