31.03.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (1420)

63. mál, drykkjumannahæli

Flm. (Pétur Ottesen):

Eins og hv. alþm. kannast við, hefur till. um þetta mál legið nokkrum sinnum áður fyrir Alþ. Guðrún Lárusdóttir, þáverandi landsk. þm., flutti málið fjórum sinnum í E.d., bæði í frv.- formi og till.-formi, og var þáltill., sem fól í sér áskorun til ríkisstj., einu sinni samþ., en lengra áleiðis hefur þetta mál enn þá ekki komizt. Nú hefur utan þings vaknað allmikill áhugi fyrir að hrinda þessu máli áfram. Bindindisfélögin, bæði góðtemplarareglan og sömuleiðis bindindisfélögin í skólum, hafa hafið fjársöfnun í þessu skyni, sem þegar hefur borið nokkurn árangur. Fyrirhugað er, að ýmis félög í þessu þjóðfélagi, sem starfa að mikilsverðum umbótum, haldi mót á Þingvöllum á komanda sumri, og eitt af þeim aðalmálum, sem þar verða rædd, er að gera ráðstafanir og bindast samtökum til að hrinda þessu máli í framkvæmd. Auk þess, eins og getur um í grg. till., hefur einn mikils metinn maður í Reykjavíkurbæ, Jón Pálsson, sýnt þessu málefni mikinn vinarhug og áhuga með rausnarlegri gjöf, sem hann gaf á síðasta ári, svo að nú hefur meðal almennings risið allsterk alda til þess að koma nýjum skrið á þetta mál. Það leiðir því af sjálfu sér um svo mikið þjóðfélagslegt nauðsynjamál sem þetta, að Alþ. hlýtur fyrir sitt leyti að leggja því nokkurt lið. Þess vegna fer þessi till. fram á, að ríkisstj. verði heimilað á þessu ári að verja allt að 150 þús. kr. til að stofna drykkjumannahæli. Nú er ekki víst, að hægt verði sökum ýmislegra ástæðna, svo sem erfiðleika á að afla byggingarefnis, að koma þessu máli langt áleiðis á þessu ári, þó að þörf á því sé vitanlega brýn. Þess vegna er það lagt til í þessari till., að ríkissjóður leggi undir öllum kringumstæðum þetta fé fram, en það, sem ekki verður hægt að nota í þessu skyni nú, verði lagt til hliðar, svo að það sé tiltækt, undir eins og úr rætist með að halda þessum framkvæmdum áfram.

Enn fremur leiðir af sjálfu sér, að hæli þessu þarf að ákveða stað, og höfum við flm. vikið að því í grg., að heppilegt mundi vera að gera nú þegar ráðstafanir til þess að festa kaup á hentugu landi. Álítum við, að bezt væri, að slíkt hæli væri þar, sem jarðhiti er fyrir hendi og auk þess nokkurt landrými til ræktunarframkvæmda og annarrar iðju, sem þeir menn, sem á þessu hæli mundu verða, gætu innt af hendi. Verður að leggja nokkra áherzlu á, að ekki verði dregið á langinn að ganga frá þessari hlið málsins. Auk þess leiðir af sjálfu sér, að taka þarf ákvörðun um, hversu stórt þetta hæli eigi að vera og með hvaða tilhögun eigi að hafa það, og er gengið út frá, að stj., í samráði við landlækni og aðra kunnáttumenn á þessu sviði, taki ákvarðanir um það, og einnig þarf náttúrlega að fenginni þessari undirstöðu í málinu að gera áætlun um húsbyggingu og annað, sem að þessu lýtur. Þetta eru allt atriði, sem nauðsynlegt er að framkvæma í sambandi við þetta mál, og liggur ekkert fyrir, sem ætti að torvelda, að þessum hluta verksins verði nú hrundið í framkvæmd.

Mér þykir svo ekki ástæða til að reifa þetta mál frekar, en legg til, að þessari umr. málsins verði frestað og málinu vísað til n., sem ætti sennilega að vera fjvn., þar sem fjárhagsatriði þessa máls er vitanlega stór liður í því.