22.04.1942
Sameinað þing: 7. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (1428)

73. mál, áfengismál

Flm. (Pétur Ottesen):

Við höfum fjórir alþm. flutt þáltill. þá um áfengismál, sem hér liggur fyrir til umr.

Ástæðan til þess, að við höfum nú hreyft þessu máll, er sú, að sú varúðarráðstöfun, sem stofnað var til hér fyrir alllöngum tíma af hálfu ríkisstj. um að loka algerlega áfengisbúðum ríkisins, að gefnu tilefni vegna þess ástands, sem skapazt hafði hér á þessu landi um hríð, þessi varúðarráðstöfun virðist nú vera mjög að bila. Því að það, sem af er þessu ári, hefur verið horfið frá þeirri lokun, sem stofnað hafði verið tvívegis til af hálfu ríkisstj. Að vísu hefur vinsalan ekki verið opnuð alveg upp á gátt, getur maður sagt. En hins vegar hafa þau undanbrögð verið höfð frá þeirri lokunarákvörðun, sem gerð var, sem virðast vera á hraðri leið með að stefna þessu máli inn í þann farveg, að það stappar nærri því, að vínverzlunin sé opnuð aftur. Þetta virðist okkur flm. þessarar þáltill. svo alvarlegt mál, að við viljum láta koma fram — og getum ekki forsvarað annað gagnvart þjóðinni en að láta koma fram — þáltill. á Alþ. um það, að þessu máli sé nú aftur kippt í það horf, sem hæstv. ríkisstj. hafði komið því í með algerðri lokun áfengisverzlunarinnar. Og mér er kunnugt um, að allur fjöldi manna er okkur sammála um það, að hér sé stefnt í verulega hættu með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið af hæstv. ríkisstj. nú upp á síðkastið með hálfgerðri opnun vínsölunnar. Við flm. þáltill. væntum þess, að hæstv. Alþ. telji sér ekki aðeins ljúft, heldur og skylt að stuðla að því, að það verði gert, sem þáltill. fer fram á.

Ég ætla, að öllum hafi verið það ljóst þegar frá öndverðu, þegar erlendu herirnir settust hér að í landinu, að af því gætu og mundu rísa mörg vandkvæði í sambúð Íslendinga við þá erlendu heri. Hitt ætla ég, að mönnum hafi ekki síður verið ljóst, að einmitt það, sem mest hættan stafaði af, að út af bæri um samkomulagið milli Íslendinga og þessara erlendu hermanna, mundi eiga rót sína að rekja til þess, að Íslendingar ættu um of greiðan aðgang að því að ná í vín. Og afleiðingarnar af því eru svo alkunnar, að það var sízt að ófyrirsynju, þó að þessi ótti væri ofarlega í hugum manna. Það er alkunna, að einhver djúpstæðasta meinsemdin í þjóðlífi Íslendinga er einmitt drykkjuskapurinn, og hefur þó um tugi ára verið unnið mikið og fórnfúst starf að því að hamla á móti ofdrykkjuhættunni, af þeim mönnum, sem beitt hafa sér fyrir bindindisstarfsemi hér í landinu. Og með þeirri starfsemi sinni hafa þeir bjargað mjög miklum verðmætum, bæði andlegum og líkamlegum, sem annars hefðu farið forgörðum og sennilega verið algerlega töpuð íslenzku þjóðinni. Það var þess vegna augljóst mál, þegar frá er tekin hætta af hernaðarárásum, að einhver mesta hættan, sem Íslendingum stafaði af þessu hernámi landsins og því, að hér hefur setzt að í landinu stór hópur aðkomumanna, mundi vera áfengisnautn og ölvun. Enda var þess ekki langt að bíða, að þeim, sem báru ábyrgð á stjórninni í landinu, væri það ljóst, að hér þyrfti nokkurra aðgerða við. Því að það var ekki liðinn langur tími áður en þar að kom, að ríkisstj. sá sig til neydda að gera ráðstafanir til þess a.m.k. að sýna viðleitni til að fyrirbyggja þann háska, sem stafaði af vínnautn Íslendinga í sambandi við sambúðina við hið erlenda setulið. Því að ég ætla, að það hafi verið eftir nokkurra mánaða dvöl hins erlenda setuliðs hér í landinu, sem gerð var mjög mikil breyt. með reglugerð um áfengisútlát, sem m.a. var miðuð við það ástand, sem skapazt hafði út af þessari sambúð, þ.e., að hér var sett á skömmtun á vinum, sem fól það í sér fyrst og fremst, að engir aðrir en íslenzkir borgarar gætu fengið vin keypt í áfengisbúðunum. Að vísu var það þannig, að áður en þessi breyt. var gerð á reglugerðinni, var búið að gera ráðstafanir til þess, að setuliðsmönnum væri ekki selt vín út úr áfengisverzluninni. En það sýndi sig, að þær ráðstafanir náðu ekki tilgangi sínum og reyndust haldlausar. Næsta sporið var þá að gefa út áfengisbækur, sem stílaðar væru á nöfn íslenzkra borgara, 21 árs eða eldri, og öðrum átti ekki selja vín úr áfengisverzluninni, og ekki meira en þessar áfengisbækur hljóðuðu upp á. Það er náttúrlega ekki víst, þó að framkvæmdinni á þessu hefði verið stýrt eftir tilganginum, að hún hefði orðið raunhæf. En svo mikil lausatök voru á þessu öllu í framkvæmdinni, að það var langt frá því, að þetta næði þeim tilgangi sínum að koma í veg fyrir, að sá erlendi her, sem hér var í landinu, gæti náð í vín hér. Og þá náðist hinn tilgangurinn ekki heldur, að þessi takmörkun gagnvart íslenzkum borgurum fyrirbyggði þá hættu í sambandi við setuliðið, sem stafaði af ölvun íslenzkra manna. Þetta, að útiloka erlenda setuliðið frá því að fá keypt áfengi hér, og hitt, að fyrirbyggja þá hættu, sem stafaði af ölvun innlendra manna, — hvorugum þessum tilgangi var náð með þessum skömmtunarráðstöfunum.

Næsta sporið, þegar þessar ráðstafanir voru brostnar, var, að ríkisstj. lokaði áfengisútsölunum að fullu upp úr hvítasunnunni 1941. Að vísu voru þá birgðirnar eitthvað farnar að ganga til þurrðar áður, og menn höfðu fengið pata af því, að svo væri. En svo mikil var óreglan, sem stafaði af vínnautn manna hér fyrir og um hvítasunnuna 1941, að ekki þótti lengur við hlítandi að láta við svo búið sitja, heldur tók hæstv. ríkisstj. rögg á sig og lét loka vínútsölunni frá 1. júní 1941. Ég ætla ekki að fara að lýsa því hér — það er ástæðulaust —, hvernig ástatt var þá fyrir og um hvítasunnuna, bæði hér í bænum og á Þingvöllum. Það ætti að vera eins og að koma við opna kviku á hverjum Íslendingi, ef rifjað væri upp það hneykslanlega framferði, sem átti sér stað, bæði hér í Reykjavík og á Þingvöllum, fyrir og um hvítasunnuna 1941. Lokunin, sem gerð var 1. júní þá, stóð til 25. júní. Og það er almannarómur hér í Reykjavík — og er lögregla bæjarins bærust að dæma hér um —, að svo mikil viðbrigði urðu við það, að áfengisverzluninni var lokað, að þeir, sem höfðu borið á herðum sér mestan hita og þunga dagsins út af þeirri drykkjuskaparóreglu og þeim hættulegu árekstrum, sem voru að myndast hér í bænum fyrir lokunina, kunnu sér engin læti og fannst sem þeir væru staddir á allt öðru jarðríki heldur en þeir höfðu áður á verið. Svo mjög skipti í tvö horn fyrir og eftir þessa breyt.

Bæjarbragurinn varð svo gersamlega allt annar en hann hafði verið, og hér gekk allt sinn rólega og eðlilega gang, þegar vitsmunir og sú eðlilega náttúra fólksins fékk að njóta sín án spillingaráhrifa áfengisnautnarinnar.

En svo má nú segja um þetta, að Adam var ekki lengi í Paradís, því að 26. júní voru áfengisbúðirnar opnaðar aftur. Þá hafði líka rætzt svo úr, að áfengisbirgðir voru komnar, sem áður höfðu gengið til þurrðar í hvítasunnuhrotunni, sem hér var. Og mér er sagt af kunnugum mönnum, sem vel fylgdust með í gangi þessara mála, að þá hefði verið það boð látið út ganga, að þá gætu menn fengið áfengi út á seðla fyrir tvo mánuði, líka fyrir júní, sem þá var nærri liðinn, í staðinn fyrir, að reglan mun hafa verið sú, að látið hafi verið fyrir einn mánuð í einu út á seðlana. Þetta var sérstaklega ábærilegt, þegar tekið er tillit til þess, að um svipað leyti og þetta sá hæstv. ríkisstj. sig til neydda að breyta tilhögun um ákvörðun matvælaskömmtunar, þannig að skammt þann, sem átt hafði að nægja til aðeins 4 mánaða, ákvað ríkisstj., að menn yrðu að treina sér til 5 mánaða. Ég vildi láta báðar þessar ráðstafanir koma hér fram samhliða, um vínið, þar sem boðið var upp á helmingi hærri skammt í einu heldur en venja var að láta út í einu af þessari vöru, og svo matvælaskammtinn hins vegar, þar sem menn áttu nú að treina sér það í 5 mánuði, sem áður var skammtað til 4 mánaða.

Það var nú reyndar opnað 26. júní, og það stóð opið fyrir mönnum að kaupa vín í 10 daga. Þá var valdhöfunum, eins og öðrum, enn nóg boðið af því, sem gerðist á þessum 10 dögum. Enda gaf nú auga leið um það, hvað þorstinn var mikill eftir víninu, hve mikið fé það var, sem selt var fyrir út úr áfengisverzluninni á þessum 10 dögum, sem var um 400 þús. kr. Og var þó ekki hægt að nota þessa 10 daga alveg til fulls, af því að í þeim voru tveir laugardagar, en á þeim var ekki afhent vin nema í 3 klst. á hvorum þeirra. Mest eftirsóttu vínin þraut áður en 10 dagarnir voru liðnir, og auk þess var ekki hægt að koma fyrir í áfengisverzluninni nógu miklum mannafla til þess að afgreiða jafnmikið eða jafnfljótt og hendur voru fram réttar eftir þessum feng.

Þetta var nóg til þess að gera þá breyt. á bæjarlífinu hér í Reykjavík, að illt hafði það oft verið áður, en mér er tjáð, að þessa 10 daga hafi það náð hámarki sínu, samauborið við fengna reynslu að undanförnu. Því að þrátt fyrir það, að hér voru nætur og daga 60–70 lögregluþjónar til þess að gegna verkum sínum, þá gátu þeir ekki komizt yfir það erfiði, sem ölvunin hafði skapað þeim hér í bænum. Þeir tóku og fluttu í fangahúsið og gerðu óhulta á öðrum stöðum 30–40 manns á sólarhring. Skorti þó mjög á, að þeir gætu rækt starfa sinn svo sem þörf hefði verið á og þeir töldu vera skyldu sína að gera, ef nokkur kostur hefði verið á að koma því í verk. Þeirra starf tók þó eingöngu til Íslendinga, því að íslenzku lögregluþjónarnir þurftu ekki að slíta kröftum sínum á því að fást við þá menn úr erlenda setuliðinu, sem taka varð úr umferð vegna hinna sömu áhrifa af áfengisnautninni; enska herliðið sá um, að það væri gert.

Það ástand, sem hér skapaðist á þessum 10 dögum, varð enn áminning til hæstv. ríkisstj. um það, að hér þyrfti nú að taka hendinni til og gera nýjar ráðstafanir, því að loknum þessum 10 dögum, um það leyti sem nýr aðili settist að í landinu, Bandaríkjamenn, þá var gripið til þess ráðs að loka áfengisverzluninni. Og þannig hefur staðið og stendur þannig enn í dag, að áfengisverzlunin hefur ekki verið opnuð með öðrum hætti heldur en þeim, sem lýst er í grg. fyrir þessari þáltill. og ég drap á í upphafi máls míns. En það leiðir af sjálfu sér, að þær breyt., sem nú eru orðnar og stefna sýnilega til sívaxandi vínnautnar með slíkum hætti, að þær hljóta vitanlega að leiða til þess, að það sé ekkert nema hrein og bein sjálfsblekking í raun og veru að vera að loka vínverzluninni upp á þann máta, heldur sígi allt á ógæfuhlið, eins og gert hefur í bæði þessi skipti, sem ég hef lýst hér, þegar ríkisstj. hefur horfið frá þeirri sjálfsögðu öryggisráðstöfun, sem lokun áfengisverzlunarinnar er. Og þar sem hæstv. ríkisstj. hefur það sem komið er, að því er ég bezt veit, haldið uppteknum hætti um þetta, þá er auðvitað sjálfsagt, að hæstv. Alþ. taki hér í taumana og leiti samvinnu við hæstv. ríkisstj. um það að hverfa nú að því ráði, sem tvisvar hefur verið horfið að áður og borið hefur alveg sérstaklega góðan og heillavænlegan árangur, að vínverzluninni verði lokað til fullnustu.

Það var í raun og veru ekki ástæða fyrir hæstv. Alþ. að grípa hér í taumana fyrr en nú á þessu þingi. Till., sem fram kom um þetta efni frá fjórum þm. á stutta þinginu, sem haldið var hér út af komu hins ameríska herliðs hingað til lands, var þá að vísu ekki tekin fyrir á því þingi, enda voru þær ráðstafanir þá þegar gerðar, sem þáltill. fór fram á, a.m.k. fyrri hluti hennar, lokun áfengisverzlunarinnar. Á haustþinginu í vetur var allmikið talað um það af okkur bindindismönnum hér á Alþ., hvort ekki væri ástæða til að bera fram þáltill., sem gengi í þessa átt. En þar sem þá hillti ekki undir neina breyt. hjá ríkisstj. í þá átt að opna aftur áfengisverzlunina, þá lítum við svo á, að aðgerðaleysi Alþ. mætti skoða sem þegjandi samþykki þess á gerðum hæstv. ríkisstj. í þessu efni. Enda sat við það þar til um síðustu áramót, að farið var að láta undan í þessu efni.

Fyrri liður þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, stefnir að því, að í engu sé hvikað frá þeirri ákvörðun, sem ríkisstj. tók á s.l. ári um lokun áfengisverzlana ríkisins, og að láta nú þegar niður falla allar þær tilslakanir, sem gerðar hafa verið í þessu efni, og að þeirri framkvæmd verði ekki breytt án samþykkis Alþ., meðan erlent herlið dvelur hér í landinu.

Síðari liður þessarar þáltill. stefnir alveg að sama marki eins og stefnt er að með fyrri liðnum, sem sé að koma í veg fyrir áfengisnautn í landinu og þann háska, sem okkur nú einmitt alveg sérstaklega stafar af áfengisnautninni. Það er hætta nokkur á því, að hæstv. ríkisstj. hafi það ekki jafnríkulega á sínu valdi að skakka þann leik, sem af áfengisnautninni stafar, eins og hún hefur áfengissölurnar á valdi sínu, þó að hins vegar megi vænta þess, að góður vilji hæstv. ríkisstj. og nokkurt harðfylgi í þessu efni gæti orðið til þess að ráða þar allmikla bót á. Það er sem sé kunnugt, að auk þess sem herstjórnirnar láta hermennina hafa nokkurn vinskammt, sem þó kvað vera miklu takmarkaðri hjá herstjórn Bandaríkjanna heldur en hjá stjórn Englendinga, er því þannig fyrir komið í her Bandaríkjanna, að þar fá þeir ekki nema mjög lítinn skammt af sterkum vínum, en hins vegar nokkurn skammt af áfengu öll. Aftur á móti munu yfirmenn í herliði Bandaríkjanna hafa til þess leyfi frá stjórn sins lands að flytja inn nokkuð af vinum á sín nöfn, sem þeir hafa með höndum hér sjálfir og ráðstafa, eftir því sem þeirra hugur stendur til. Hvernig sem þetta er nú, en því er ég ekki vel kunnugur, þá veit ég með vissu, að yfirmenn úr her Bandaríkjanna hér hafa um langt skeið fengið flutt inn á sín nöfn allmikið af vinum, og það meira að segja með íslenzkum skipum og skipum, sem Eimskipafélag Íslands hefur tekið á leigu og haft á sínum vegum. Og mér er sagt, þó að ég hafi ekki getað aflað mér um þetta þeirra upplýsinga, sem ég hefði óskað og ég hefði talið, að ég ætti að eiga aðgang að, að þessi innflutningur sé í mjög stórum stíl. Skiprúm, sem nota hefur átt til þess að flytja nauðsynjar inn í landið, hefur verið notað til að flytja inn slík vinföng, ekki í tonnatali heldur svo tugum tonna skiptir.

Það er vitað, að einstakur maður eða menn hafa fengið flutt inn í einu allt að 70 tonn af áfengi, í einni sendingu. Og hitt er einnig vitað, að eitthvað af þessu víni hefur farið annað heldur en til þeirra manna, sem að þessum innflutningi stóðu, eða landa þeirra. Það hefur m.a. komið fyrir, þegar rannsókn hefur farið fram á mönnum, sem lögreglan hefur tekið fyrir ölvun, að þeir hafa viðurkennt að hafa fengið vínið frá setuliðinu. Og að sjálfsögðu hafa þessir íslenzku borgarar fengið refsingu samkv. l., sem til eru frá 5. maí 1941, um að Íslendingum sé bannað að skipta við setuliðsmenn.

Þótt ég sé ekki í þessu máli að víkja orðum mínum Sérstaklega til ríkisstj., sem virðist eins og nú standa sakir vera mjög laus í sessi, þá langar mig, ef hæstv. forseti væri þess megnugur, að fá hæstv. forsrh. hér inn í hv. d. til að hlusta á það, sem ég nú hef að segja. Það væri þá ekki heldur skaði skeður, þótt hæstv. utanrmrh. væri líka viðstaddur og hlustaði á þetta. (Forseti: Hæstv. forsrh. er á fundi, en hæstv. utanrmrh. er hér. Ef hv. þm. óskar, að málið verði ekki afgr., nema allir ráðh. séu við, þá er sjálfsagt að fresta umr.). Ég held, að ef aldrei ætti að afgreiða neitt mál, án þess að nokkrir ráðh. væru viðstaddir, þá mundi þetta ganga enn þá seinna en nú.

Það var í sambandi við þennan innflutning setuliðsmanna á áfengi til landsins, sem ég vildi beina orðum mínum til hæstv. ríkisstj. Ég sé, að hæstv. fjmrh. er hér staddur í d., og hann væri ekki öðrum ólíklegri til að koma því á framfæri. Þó vil ég áður benda á það, að með l. er svo ákveðið, að enginn megi flytja inn vín til landsins annar en íslenzka ríkisstj. Nú dettur mér náttúrlega ekki í hug, að þessi löggjöf okkar fái staðizt þannig, að hinar erlendu herstjórnir, sem hér eru, fari ekki sínu fram í þessu sem öðru, og að Alþ. eða ríkisstj. geti haft á það nokkur áhrif. En hinu vildi ég leiða athygli að, hvort það kæmi ekki í bága við einkaleyfi ríkisstj. á innflutningi áfengis til landsins, að einstakir „prívat“-menn í herliðinu flytja inn áfengi á sitt eigið nafn, svo að það virðist ekki vera í neinu sambandi við þá aðflutninga til landsins, sem hér eru framkvæmdir fyrir herstjórnir þær, sem setzt hafa að í landinu. Ég vil, að hæstv. ríkisstj. athugi þetta mál, einmitt á þessum grundvelli. Og ég geri ekki ráð fyrir því, að þeirri þjóð, sem hér um ræðir, eða Bandaríkjunum, er tekið hafa að sér hervernd þessa lands, sé það hugþekkt, að einstakir menn úr þessu liði, sem allt átti nú að vera úrvalslið, eftir þeim boðskap, sem hæstv. forsrh. flutti okkur, séu að brjóta íslenzka löggjöf og einmitt þá löggjöf, sem mesta þýðingu hefur fyrir okkur, að sé í höndum Íslendinga sjálfra, ef skynsamlega er með hana farið, af því að á áfengislöggjöfinni veltur, hvernig tekst til um þá sambúð, sem stofnað hefur verið til í þessu landi.

Að öðru leyti er það sjálfsögð skylda ríkisstj. og ein af þeim öryggisráðstöfunum, sem hún undir engum kringumstæðum má láta undir höfuð leggjast að framkvæma, að hún reyni með samningum við herstjórnir beggja þessara ríkja að hafa áhrif á það, að lið þeirra noti hér sem minnst af víni, og það verði gert þannig, að sem minnst hætta stafi af fyrir sambúðina. Og því sterkar stendur íslenzka ríkisstj. að vígi með að fara fram á þetta við stjórnir þessara erlendu herja, ef hún sýnir það í verki, að hún geri allt, sem í hennar valdi stendur, til að fyrirbyggja vínútlát til Íslendinga. En lengra getur ríkisstj. ekki gengið í þá öryggisátt en að loka fullkomlega áfengisútsölum ríkisins og hafa úti um það öll spjót með áhrifum sínum á þá menn, sem eiga að gæta laga og réttar í þessu landi, að alls staðar sé tekið sömu föstu tökunum á því, að haldið sé niðri vínneyzlu og hættulegum afleiðingum hennar.

Þetta er þá það, sem felst í 2. lið þessarar till. okkar: „Að vinna að því við stjórnir þeirra ríkja, sem herlið er komið frá hingað til lands, að komið verði í veg fyrir öll vínútlát til Íslendinga frá herliðinu.“ Að þessu, sem ég nú hef lýst, lýtur síðari liður till. Ég skal aðeins bæta því við það, sem ég hef nú sagt um þennan lið till., að það er í mæli, að íslenzkur maður í kaupsýslustétt, eða íslenzkt firma hér, standi fyrir að einhverju leyti eða hafi á hendi útvegun á einhverjum hluta af því víni, sem einstakir menn úr setuliðinu flytja þannig inn á sitt nafn. Ég vil þá líka skjóta því til hæstv. ríkisstj., hver aðstaða þessa íslenzka ríkisborgara er, sem vitanlega á að lúta íslenzkum Iögum. Má hann samkvæmt íslenzkum l. gerast milliliður í því, að þessir menn flytji á þennan hátt vín inn til landsins? Þetta vildi ég líka biðja hæstv. ríkisstj. að taka til athugunar. Þá er einnig athugavert, í sambandi við það vín, sem þannig- er flutt inn til landsins, að Íslendingar verða sjálfir að leggja fram gjaldeyri til innkaupanna, því mér er sagt, að það gangi í gegnum bankana hér eins og önnur viðskipti, sem framkvæmd eru fyrir hönd Íslendinga. Þannig er það a.m.k. með þann hluta af þessu víni, sem kann að vera fenginn inn í landið fyrir milligöngu íslenzks firma eða íslenzks manns. Þetta er líka fullkomlega þess vert, að það sé tekið til athugunar.

Það eru náttúrlega mörg fleiri atriði, sem mætti minnast á í sambandi við þetta mál, en ég get sparað mér það a.m.k. að svo stöddu. En ég óska þess f.h. okkar flm. þessarar till., og við erum ekki í vafa um það, að Alþ. telji rétt og skylt að gera þær ráðstafanir, sem með till. er farið fram á, og að málinu verði aftur kippt í það horf, sem það hefur verið í með góðum árangri, sem sé að áfengisútsölum ríkisins verði lokað aftur.