29.04.1942
Efri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Erlendur Þorsteinsson:

Hæstv. viðskmrh. hélt áfram þeim sið, sem hæstv. stj. virðist hafa haft upp á síðkastið, að vera fjarverandi, þegar ræður eru fluttar, en koma svo inn og láta þá svo sem verið sé að svara ræðunum, án þess að þeir viti, hvað flutt hefur verið. Kom þetta m.a. fram í öðru máli fyrir nokkru síðan, þegar hæstv. forsrh. var sérstaklega að svara hv. 11. landsk. Ef hæstv. viðskmrh. hefði hlustað á ræðu mína, hefði hann orðið þess var, að ég tók sérstaklega fram, að till. Alþfl. í fyrstu hefðu verið, að skattarnir væru nokkru lægri en nú er lagt til, en allar aðstæður þá hefðu verið aðrar en nú, t.d. hefði engan þá órað fyrir, að sá gífurlegi gróði yrði á útflutningnum, sem nú hefur komið í ljós. Einmitt í sambandi við þetta vil ég benda honum á, að þegar þær till. voru uppi frá Alþfl., vildi Framsfl. ekki ganga inn á þær og þótti þær of róttækar, og mun það sanna ummæli mín um, að Alþfl. hafi verið á undan Framsfl. um skattal. þá og nú líka.

Út af því, sem hæstv. ráðh. segir um tillög til varasjóðs, vil ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að samkv. þeim l., sem nú gilda og samþ. voru á síðasta þingi, þá var ákveðið, að helmingur þess fjár, sem í varásjóð væri lagt, skyldi vera skattfrjáls, m.ö.o., að þeir, sem vildu leggja í varasjóð, yrðu að leggja fram helming í jár, sem þeir greiddu skatt af. Aftur á móti var ekki nema 40% af varasjóðstillagi bundið í nýbyggingarsjóði, og var það minna en nú. Það hefur vakað fyrir okkur alþflm., að við höfum viljað láta þá, sem þessara hlunninda eiga að njóta, eitthvað vinna til þess að leggja eitthvað fram sjálfa í þessa varasjóði, en það má segja með sanni, að þeir geri það ekki, þar sem þeir Ieggja í varasjóð upphæð, sem nemur 1/3 af tekjunum, sem er alveg undanþegið skatti, því að segja má, að allt að 90% af því, sem lagt er í þennan sjóð, sé tillag frá ríkissjóði, ef miðað er við þær skattaálögur, sem frv. annars gerir ráð fyrir.

Einnig lagði Alþfl. til í fyrstu, að farið yrði alveg á sérstakan hátt með þessa nýbyggingarsjóði, þeir yrðu alveg skildir frá fjárhag fyrirtækjanna sjálfra. Um þetta fékkst ekki samkomulag á síðasta þingi, og Alþfl. gerði sér að góðu þá að ganga inn á þau tryggingaratriði, sem nú gilda um meðferð þessa fjár, ganga ekki eins langt og eru ekki eins trygg.

Það má mikið tala um þessi skattamál. Hæstv. viðskmrh. kom nokkuð inn á það út af umr. um þetta mál, hvað tíðkaðist hjá öðrum þjóðum. Við vitum, að nú munu skattar sízt vera lægri þar, eins og er líka eðlilegt, þar sem flest þessi lönd eiga nú í ófriði, en ég hygg, að þó sé sá munur, að þar sé sú regla yfirleitt, að fyrirtækjum, atvinnurekendum og einstaklingum sé heimiluð einhver ákveðin upphæð, sem þeir fá að ráða yfir, en hitt allt tekið. Mætti spyrja hæstv. ráðh., hvort hann og hans flokkur vilji ganga inn á að taka þetta upp hér, að það sé ákveðin hámarksupphæð, sem fyrirtæki og einstaklingar megi ráða yfir, en hitt gangi beint í ríkissjóð eða einhverja ákveðna sjóði, sem svo væru til taks að ófriðnum loknum til atvinnubóta og endurnýjunar á framleiðslutækjunum.

Út af því, sem hæstv. ráðh. talaði um breytt skattakerfi, vil ég benda honum á, að mér virðist hann tala um þessa breyt., eins og hér væri um venjulegt ástand að ræða, en ekki þetta sérstaka fyrirbrigði, sem við höfum hér nú, og þess vegna verði nú að setja frambúðarreglur. Ég get ekki litið svo á, að það geti verið þannig með stríðsgróðaskattinn, heldur verði hann afnuminn strax og ástæður þykja til þess. Og enginn er kominn til með að segja, hvort sá skattstigi, sem er í þessu frv., verður látinn gilda áfram, ef stríðsskatturinn er numinn burt. Þess vegna er ekki um það að ræða, að verið sé að ganga frá ákveðnu kerfi, sem eigi að vera óbreytanlegt í langan tíma. Hitt er rétt, sem hann tók fram, að í fyrra vildi Alþfl. ekki ganga inn á þessa breyt., af því að hann taldi hana ekki tímabæra þá, og býst ég við, að hæstv. ráðh. viðurkenni, að heppilegt var, að sú breyt. var ekki gerð þá, a.m.k. ef litið er á málið frá sjónarmiði þess, hvernig beri að skattleggja til þess að ná sem mestum sköttum.

Annars talaði þessi hæstv. ráðh. nú eins og oft áður þannig um þessi mál eins og hann og hans flokkur hefði alltaf haft forgöngu til þessara mála um að ná sem mestum stríðsgróðaskatti. Mér virtist hann jafnvel halda fram, að Alþfl. hefði viljað hlífa stríðsgróðamönnum og beita sér á móti stríðsgróðaskatti. Það virðist þurfa brjóstheilindi til að tala svo um þessi mál, þegar allt er athugað, sem á undan er gengið. Það hefur verið bent á það af Alþfl., að það bæri að leggja sérstakan stríðsgróðaskatt á þann gífurlega gróða, sem fékkst af ísfiskssölunni til Englands. Ég veit ekki betur en að Alþ. hafi viðurkennt, að þessa leið bæri að fara og um það samþ. heimildarl. á síðasta vori, en þau hafa aldrei verið framkvæmd, en það var ekki fyrir mótstöðu ráðh. Alþfl., að sú heimild var ekki notuð, enda lýsti hæstv. viðskmrh. því yfir í umr. s.l. haust, að ráðh. Alþfl. hefði verið því fylgjandi, að þessi heimild yrði notuð, að útflutningsgjald af ísfiski togaranna yrði innheimt. En hvernig stóð þá á því, að það var ekki gert? Mér er nær að halda, að það hafi verið eitthvað hjá hæstv, viðskmrh. og hans flokki, sem gerði það að verkum, að þessi heimild var ekki notuð. Aftur á móti er það annað, sem hæstv. ráðh. ævinlega virðist koma auga á til að skattleggja, en það eru tekjur launamanna og láglaunafólks. Öll hans barátta, að halda niðri dýrtíðinni, eins og hann kallar það, hefur alltaf verið fólgin í því að skattleggja verkamenn og launamenn, sem honum hefur svo vaxið í augum, að hafa nú nokkru meiri tekjur, síðan stríðið hófst. Þarf þar ekki annað en að benda á hið fræga frv. hans um launaskatt, þar sem eingöngu var ætlazt til, að skattur yrði lagður á launþega, en engin slík gjöld lögð á þá menn, sem við framleiðslu fengjust. Að vísu var því haldið fram, að með því að leggja slíka skatta á þá, sem flyttu út vörur, yrðu þeir tvískattaðir, en það er ekkí rétt, því að ef þetta gjald hefði fyrst verið dregið frá rekstri félaganna, þá hefðu þau getað greitt þessa upphæð alveg eins og launamaðurinn í landi eða sjómaðurinn á sjónum. Það er því skilningsleysi. hæstv. ráðh., sem hefur otað honum út í það foræði, að taka jafnlítið tillit til launamanna og verkalýðs eins og hann hefur gert upp á síðkastið.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi þörf bæjanna til þess að fá miklar tekjur og hækkuð útsvör. Það er vitað, að mörg bæjarfélög hafa sett sér það takmark að nota þessa tíma til þess að reyna að ná sem mestum tekjum og losna þannig við gamlar skuldir og bæta fjárhag sinn verulega. Öll bæjarfélög hafa nú að sjálfsögðu gengið frá fjárhagsáætlunum sínum og þar með ákveðið, hversu mikil útsvör þau ætluðu að leggja á íbúa sína. Þess vegna verða þau sennilega að leggja alla þessa upphæð á sem útsvar eða að draga að öðrum kosti úr greiðslu skulda eða verklegum framkvæmdum, sem þau hafa hugsað sér að nota þessa peninga í. Ef þau taka þann kostinn að leggja á útsvörin með þeim takmörkuðu möguleikum, sem hér geta orðið fyrir hendi, getur farið svo, að láglaunamennirnir og þeir, sem útsvör greiða af tekjum undir 200 þús. kr., verði að bera mest af útsvarsbyrðinni. Hæstv. viðskmrh. ympraði að vísu á því, að hægt mundi vera að leggja rekstrarútsvör á þessi fyrirtæki, þar sem í þessum l. væri aðeins talað um tekjuútsvör. En því þá ekki að ganga hreint til verks og ákveða í l. skala, sem heimili að leggja útsvör á eftir ákveðnum regluan eða viðurkenna, að veltuútsvör ættu að dragast frá. Mér finnst, að hjá hæstv. viðskmrh. sé um tvískinnung að ræða í þessu atriði, því að það kemur málinu ekkert við, hvort útsvörin eru kölluð veltuútsvör eða tekjuútsvör; útsvör eru það fyrir því.

Það, sem mér virðist því okkur hæstv. ráðh. bera á milli, er þá sérstaklega það, að ég og Alþfl. viljum, að þeir, sem fá skattfrjálsar tekjur í varasjóð, leggi eitthvað fram sjálfir. Það hefur verið lagt til af Alþfl. í Nd., að 3/4 væri skattskylt, en 1/4 skattfrjálst af því, sem lagt er í varasjóð.. Ég benti á það í fyrri ræðu minni, að misræmi væri milli manna í skattal., eftir því hvaða atvinnu menn stunduðu, og það væri út af fyrir sig ranglátt, sérstaklega vegna þess að mörg þau félög, sem eiga að fá einna mestan frádrátt, eru félög, sem hafa á undanförnum árum fengið allrífleg framlög til þeirra hluta, sem þetta á að notast til.

Þá liggur næst að taka til athugunar, hvernig stendur á þessum stríðsgróða og hvort ekki sé rétt, eins og nú er, að ríkið taki allverulegan hluta af honum til sín, sem síðar verði notaður í þarfir þjóðarinnar í heild. Mér virðist alls staðar koma fram, að yfirleitt keppi þjóðirnar að því að láta sem allra minnstan stríðsgróða myndast í löndunum og yfirleitt sé reynt að taka mesta kúfinn af þessum gróða í ríkissjóð, og vitanlega er því fé varið mismunandi eftir því, hvernig á stendur á hverjum stað. Þetta væri einnig sjálfsagt að gera hér á landi, því að þessi stríðsgróði er í raun og veru ekki til orðinn fyrir neina sérstaka atorku eða dugnað manna, sem hann hafa fengið. Það hefur alveg orðið tilviljun, hvort þessi eða hinn hefur fengið þennan gróða eða ekki. T.d. gróðann af útflutningi ísfiskjar, sem byggist á því að eiga nógu stór fiskiskip. Maður, sem hefur barizt alla ævi til að eignast 30–40 tonna skip, berst ef til vill í bökkum með það nú, en sá, sem kannske með minni dugnaði hefur af einhverjum orsökum eignazt 40–200 tonna skip, rétt áður en styrjöldin hófst, hefur fengið feikimikinn gróða, en það er af því, að stóra skipið hefur aðstöðu til að sigla með eigin veiði eða keyptan fisk til Bretlands. Það er sú starfsemi, sem gefur mestan gróða, en það gefur litla skipið ekki. Ef á að framfylgja þeim ákvæðum, sem hér um ræðir, þannig um nokkurra ára bil, að eigendur stóru skipanna, sem hafa ef til vill eignazt þau af tilviljun, eiga að fá að safna miklu fé í varasjóð, sem þau mega ekki nota nema í vissum tilgangi að vísu, en þó að mestu leyti eftir eigin geðþótta, en þeir, sem eiga litlu skipin, eiga að berjast í bökkum eða verða jafnvel fátækari, þá er verið að hjálpa eigendum stóru skipanna til að heyja sína afkomubaráttu, þegar stríðinu er lokið; en þeir, sem eiga litlu skipin og hafa barizt með jafnmiklum dugnaði og þeir, sem hafa eignazt stórt skip, kannske fyrir tilviljun og duttlunga, eru að engu betur settir en áður. Með þessu er þjóðfélagið ekki að jafna mismuninn milli þjóðfélagsþegnanna, heldur að auka hann, gefa einstökum mönnum aðstöðu til að verða eftir stríðið alls ráðandi um íslenzkt atvinnulif. M.ö.o., það er verið með þessu að gera stéttamismuninn og efnamismuninn meðal þjóðfélagsþegnanna miklu meiri en ætti að vera og þyrfti að vera, ef skynsamlega væri að farið.