07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég get tekið undir það með hv. 10. landsk. þm., að það er undarlegt, ef þingið samþ. að gefa útgerðarfélögunum eftir þessa stórkostlegu skatta með því að leyfa þeim að hafa skattfrjálst það, sem lagt er í varasjóðina. En þingið álítur, að það sé þjóðinni svo nauðsynlegt, að þessir sjóðir séu til og ekki meðal hinna persónulegu eigna manna, að það lætur ekki greiða skatta af þeim. Þingið lítur svo á, að þegar búið er að binda sjóðinn með þessum fjötrum, séu þeir ekki nema að nokkru leyti eign þess félags, sem talið er fyrir þeim; að þeir séu í raun og veru orðnir eign þjóðfélagsins. Féð, sem tekið er frá, er að vísu í vörzlum þessara félaga, en tekið frá til þess að mæta þeim töpum og þeim þörfum, sem þjóðfélagið veit, að koma alltaf, eins og skuggar eru á nokkurn veginn víssum stöðum eins og nótt eftir dag. Ég held, sannast að segja, að ef skoðuð er saga útgerðarinnar hér, þá staðfesti hún þetta nokkurn veginn. Við skulum hugsa okkur þann auð, sem hefur safnazt saman í útgerðinni, og hvernig hann hefur sópazt burtu. Það þar í ekki að hafa verið af því, að hann hafi verið þjóðfélaginu gagnslaus, hvernig hann fór. Það var í þjóðfélagsins þágu, að þessum skipum var haldið úti, þótt fyrirtækin yrðu að borga meira kaup bæði á sjó og landi heldur en fékkst endurgreitt. Það er eins með varasjóðina nú. Menn vilja ekki binda féð, nema þjóðfélagið grípi inn í. Þjóðfélagið segir: „Ef þið viljið binda nokkurn hluta af tekjum ykkar, þá megið þið hafa það skattfrjálst.“

Ég hef orðið var við það hjá útgerðarmönnum, að þeir búist ekki við að sjá aftur þetta fé. Ég held, að það sé rétt. Sumt fer til þess að kaupa skip miklu hærra verði en nú er miðað við. Sumt fer til þess að standast töp. Svo á þingið að vera að gefa þessum mönnum. Það er bara að lokka þá til þess að leggja til hliðar svo og svo mikið af fé sínu, og þess vegna má ekki bera okkur hv. 10. landsk. þm. saman við þá, þótt okkur þætti gaman að eiga bifreið, sem æki inn 40 þús. kr. á ári. Þess er ekki krafizt af okkur, að við leggjum ágóðann til hliðar. Nei, þessir varasjóðir eru ekki einkaeign nema að víssu leyti. Þ.e.a.s. eignarrétturinn er fyrir hendi, en ráðstöfunarrétturinn ekki. En ég skal ekki fara út í þetta, því að það er teoretisk deila.

Ræðumaður játaði, að það væri rétt, sem ég sagði að a- og b-liðir í 3. gr. frv. væru settir til þess að koma í veg fyrir, að menn beinlínis drægju sér fé, en c-liður er til þess að koma í veg fyrir, að menn „kaupi eignir óeðlilega háu verði að dómi skattanefndar“. Ég veit heldur ekki, hvernig menn ættu að hagnast á því að kaupa eignir á þennan hátt. Ég bara skil það ekki. Hv. þm. vill leggja bann við að kaupa eignir og breyta einu verðmæti í annað, en skv. frv. má kaupa eignir, séu þær ekki keyptar of háu verði. Þetta er sá stóri munur, því að annað er bara algeng kaupmennska, en hitt er svindl.

Ég held, að menn taki oft eftir því, að peningar breyta um verðgildi. Það er ekki sama, í hverju eignirnar eru. Ég man, að það var um það rætt, hvort Sáttmálasjóður ætti að kaupa nokkur vönduð hús, sem líkur væru til, að stæðu fyrir verði sínu. Þetta var ekki gert, og nú stendur Sáttmálasjóður uppi sem lítill sjóður, því að með núverandi gildi peninganna eru þessar 50 þús. kr. svo lítið. Þeir, sem hefðu í hyggju að gefa nú út kennslubækur og fengju til þess 100 kr., mundu bara fussa við. Nei, ef Sáttmálasjóður hefði nú átt hús, hefði það verið annað. Tökum t.d. „Garð“ í Kaupmannahöfn. Hann hefur staðið sig svona vel vegna þess, að hann eignaðist lönd og jarðir, og þetta hefur haldið honum uppi yfir kreppur og verðfall peninga. Þess vegna get ég hugsað mér, að stjórnir fyrirtækjanna sæju, að það væri ekki hyggilegt að hafa öll eggin í sömu körfunni, hvað snertir varðveizlu verðmæta á þessum breytinga tímum. Hv. þm. talaði um, að það gæti farið svo, að þessi fyrirtæki eignuðust meiri hlutann af öllum eignum í landinu. Ef áframhald yrði á þessu góðæri, gætu sjóðirnir að vísu orðið ákaflega stórir, en ef till. hv. þm. verður samþykkt, yrðu þeir 1/4 stærri, þ.e.a.s. í peningum, og hann vill ekki láta geyma þá nema í peningum.

Þá var það tvísköttunin. Hann tók dæmi um, að hann seldi mér 100 þús. kr. hlutabréf fyrir 300 þús. kr., og þá ætti hann að borga af 300 þús. kr., en ég af 100 þús. kr. En hugsum okkur, að ég seldi honum bréfið aftur fyrir sama verð. Hvað mundi þá hvor um sig borga? Við mundum vitanlega báðir borga það sama. En eins og hann vill hafa það, mundum við báðir borga af 600 þús. kr. Hér er bara verið að laga ósamræmi, þannig að þeir, sem eiga 300 þús. kr. í hlutabréfum, borgi það sama og þeir, sem eiga þessa upphæð í peningum.