29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

106. mál, byggingarsamvinnufélög

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Það er hér brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og er hún á þskj. 274, frá mér, hv. þm. Ísaf. og hv. 2. þm. Skagf. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa kynnt sér þessa brtt., en vænti þó, að svo sé. L., sem hér um ræðir, um byggingarsamvinnufélög frá 1938, eru vitanlega í ýmsum greinum miðuð við annað ástand heldur en nú er, svo sem í því, er “snertir fjárupphæðir. Það er ætlazt til þess samkvæmt 13. gr. l., að ekki megi lána hærri upphæð heldur en 15 þús. kr. til hvers húss; það eru að sönnu í l. kallaðar íbúðir, en þar er átt við hús hvers félagsmanns, eða ef um sambyggingu er að ræða, þá hans hluta úr byggingunni. Nú er bersýnilegt, að þessi upphæð, sem í 13. gr. er tiltekin, er algerlega ófullnægjandi, og er þess vegna nauðsyn á að breyta þessu ákvæði.

En í 10. gr. l. er svo fyrir mælt, að enginn megi selja íbúð sína nema með leyfi ríkisstjórnarinnar, og ef það leyfi er veitt, þá skuli aldrei slík sala leyfð með öðru móti en að húsið eða íbúðin sé selt með kostnaðarverði. Þetta er vitanlega algerlega ranglátt ákvæði eins og komið er, og ætti að nema það úr gildi. Því að maður, sem eignast slík íbúð, getur verið neyddur t il þess að selja hana, vegna þess t.d., að hann sé ekki lengur fjölskyldumaður. Líka getur það verið ekkja, sem í hlut á, sem verður að koma slíkri eign í verð, en getur ekki hagnýtt hana fyrir sjálfa sig, og þá er vitanlegt, að það er ekki hægt að skylda hana til þess svo að segja að gefa þessa aleigu, við skulum segja ekkjunnar. Hér er því nauðsyn á að gera þá breyt., sem farið er fram á í 1. lið brtt., að er félagsmaður vill selja íbúð, sem hann hefur fengið að íhlutun byggingarsamvinnufélags, þá hafi félagið forkaupsrétt að íbúðinni, en annars, ef ekki verður samkomulag um söluverðið, þá skuli það ákveðið af dómkvöddum mönnum, og hlíti seljandi mati þessu, ef hann kýs að selja og félagið vill kaupa, án þess það þó skuldbindi félagið til að kaupa né seljanda til að selja. Þessi brtt. er eingöngu til orðin vegna þeirra breyttu ástæðna, sem allir þekkja á verðlagi og gildi Peninga.

Í frv. er lagt til, að 13. gr. l. falli niður og ekkert komi í hennar stað. En í 13. gr. l. er ákveðið, að ekki megi ábyrgjast hærri upphæð heldur en 15 þús. kr. til hverrar einstakrar íbúðar. En í staðinn fyrir það viljum við flm. brtt., að komi inn ákvæði, sem að sönnu kannske eru ekki alveg nauðsynleg, en þó verður að teljast. vissara að séu í 1. Það er sem sé, að þegar viðkomandi hús- eða íbúðareigandi hefur greitt allt það lán, sem byggingarsamvinnufélagið hefur útvegað honum, og hann hefur losað ríkissjóð við ábyrgð sína á því, þá skuli ákvæði byggingarsamvinnufélagal. ekki gilda um húseign hans, heldur skuli þær skuldbindingar, sem þessum lánum fylgja, falla niður. Þetta er náttúrlega eðlilegur hlutur. Það er hliðstætt við það, að þegar veðdeildarlán er greitt upp, þá eru þær reglur, sem settar hafa verið af lánveitanda fyrir sölu á eigninni, sem lánið var veitt út á, úr gildi felldar. Ég geri ráð fyrir, að í framkvæmdinni mundi eiganda talið frjálst að fara með eignina eins og honum sýnist, eftir að hann hefur fullnægt skuldbindingum þeim, sem hann hefur gengizt undir við útvegun lánsins, þannig að þegar hann hefur greitt skuld sína og losað ríkissjóð úr allri ábyrgð, þá sé þessi eign hans honum frjáls til meðferðar, í þessu sambandi vil ég minna á það, að vel getur staðið svo á, að eigandi að slíku húsi annaðhvort breyti högum sínum eða á einhvern hátt hagir hans breytist þannig, að hann getur ekki notað húsið til eigin íbúðar. Hann gæti orðið að flytja burt úr húsinu án þess að fá við það ráðið sjálfur, t.d. á sjúkrahús. Hann gæti einnig fallið frá, og ekkja hans og börn tækju við húseigninni. Og þá getur ekki komið til mála með nokkurri sanngirni, að slíkar kvaðir fylgi eigninni, að hana verði að selja með kostnaðarverði, ef seld er, eftir að búið er að greiða að fullu þá skuld, sem ábyrgð var veitt fyrir samkvæmt framansögðu, og búið var að létta öllum greiðslaskuldbindingum af húseigninni. Það getur vitanlega ekki komið til mála að halda því ákvæði, að þessi aðili, sem á þennan hátt á fasteign, sé skuldbundinn til þess svo að segja að gefa þessa eign sína og standa þá uppi, sem í mörgum slíkum tilfellum mundi vera, svo að segja allslaus. Mér er kunnugt um, að slíkt sem þetta hefur komið fyrir. Mér er kunnugt um, að maður, sem átti hús í byggingarsamvinnufélagi, hefur drukknað af fiskiskipi hér við land. Ekkja hans með 4 ung börn tekur við þessari húseign hans, sem ég hygg, að verið hafi aleiga þessa sjómanns. Nú mundi þessi ekkja alls ekki mega selja þetta hús að l. óbreyttum nema við kostnaðarverði. Og þegar lánum er lokið af húsinu, þá er ekki víst, að hún mætti gera sér fé úr því. Þó að þetta ákvæði hafi komizt inn í l., er það áreiðanlega alls ekki tilgangur löggjafans, að húseignir þessar séu eigendum ekki að öllu frjálsar sem önnur eign, eftir að t.d. ekkja er búin að borga þá skuld, sem hefur hvílt á húsi hennar, og létt af því ríkisábyrgð. Og líklega mundi það ekki vera framkvæmt, að hún yrði að nokkru leyti að gefa húsið ef hún seldi það, með því að selja það fyrir kostnaðarverð aðeins, eftir krónutölu. Það er bersýnilegt, að menn verða að vera verndaðir fyrir slíkri kvöð sem þessari. Það er engum til nytja að leggja slík höft á eignir manna, en væri alls kostar ósæmilegt, einkum þegar hlut ættu að máli munaðarleysingjar og ekkjur, sem oft kann að vera, og í þessu dæmi, sem ég tilgreindi, einmitt er. Ég vil því vænta, að hæstv. Alþ. líti sömu augum á þetta sem við flm. brtt. og að þessar brtt. verði samþ.