22.04.1942
Sameinað þing: 7. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (1462)

73. mál, áfengismál

Jóhann G. Möller:

Því ber efalaust að fagna, að þessi mál, sem einu nafni nefnast áfengismál, skuli vera til umr. í hinu virðulega Alþ. Það var á síðasta þingi komin fram till. um áfengismálið, sem því miður vannst ekki tími til að ræða, Á síðasta degi þingsins átti að taka hana til umræðu. Síðan hefur ýmislegt gerzt í áfengismálinu, eins og raunar áður, frá því að næsta þing á undan sat, sem er þess eðlis, að maður hefði í fyllsta máta getað búizt við, að ríkisstj. sjálf sem slík hefði forustuna hér á Alþ. í því að fá áfengismálin rædd, — og sumpart, vil ég segja, til þess að fá staðfestingu á því, sem hún hefur gert í þessu máli, — meðal annars lokun áfengisverzlunarinnar, sem að dómi ákaflega margra a.m.k. er talið, að hún hafi ekki haft. nokkra heimild til, eins og kom glögglega fram í niðurlagi á ræðu hæstv. fjmrh. nú áðan.

Nú er komin fram till. til þál. um þessi mál frá hv. þm. Borgf. (PO) og 3 þm. öðrum. Og ég verð að telja það mikið ánægjuefni, að Alþ. vill ræða þessi mál og gera um þau einhverja ályktun. Ég get hins vegar sagt það strax, að ég get ekki fylgt þessari till. og stend mjög á öndverðum meið við hv. aðalflm. í þessu áfengismáli. Ég held þó, að við getum orðið sammála um eitt, að það beri að koma áfengismálunum þannig fyrir, að þjóðfélagið hafi af þeim sóma, en ekki skömm og skaða. En hv. flm. álítur, að ekki sé hægt að ná þessu marki nema með því að „þurrka“ landið, eins og það er kallað. En ég álít það verk algerlega ókleift. Og til þess að ná þessu takmarki, sem ég býst við, að við séum báðir sammála um, tel ég, að öll viðleitni í áfengismálunum eigi að beinast inn á það, að kenna Íslendingum að fara með vín. Ég hef þá trú á landsmönnum mínum, að þeim sé þetta hægt. Og ég álít, að ófærasta leiðin til að ná þessu marki sé hin sífelldu bönn og höft gagnvart áfenginu.

Eins og ég sagði áðan, get ég ekki verið með þessari till., vegna þess að ég tel lokun áfengisverzlunarinnar hafa einmitt leitt af sér svo margs konar spillingu í íslenzku þjóðlífi, að ekki verði nein bót unnin með því að herða á þeim lokunarákvörðunum, sem stj. hefur — ég vil segja góðu heilli slakað nokkuð til á. Ég mun reyna að sýna fram á, að þessi spilling er fyrir hendi, og um leið, að þetta er sama spillingin sem alls staðar í heiminum hefur verið fyrir hendi, þegar eintómum bönnum var beitt gagnvart víninu. (PO: Er þetta það sama og var í Morgunblaðinu í fyrra?) Skiptir engu máli, hvort það er það sama og ég hef áður skrifað um þetta mál, ef ekki er hægt að hrekja það. En annars vil ég benda hv. þm. Borgf. á, að hægt er að lesa ræðu hans í áfengismálaumræðum 1935. En „nota bene“, ég hef hrakið það, en mitt mál hefur ekki verið hrakið.

Áður en ég fer að sýna fram á, að spillingin í áfengismálunum hefur vaxið, vegna þess að áfengisverzluninni hefur verið lokað, vil ég víkja að nokkrum atriðum í ræðu hv. flm. Hann virtist gera sérstaklega mikið úr því, að einhverjir Íslendingar flyttu inn vín fyrir setuliðið. Ég verð að segja, að mér finnst alls ekki hæfa þeim virðulega þm., sem ber till. fram, að vera með dylgjur um það, að einhver maður, jafnvel í verzlunarstétt, stuðli að því að flytja vín inn í landið fyrir setuliðsmenn á ólöglegan hátt. Ég held, að sæmra væri að fá upplýst alveg greinilega, við hvern er átt. Um leið og hv. flm. upplýsa þetta, vil ég biðja þá að upplýsa mig líka , hvort áfengisverzlun ríkisins hafi ekki á undanförnum árum flutt inn vín á nákvæmlega sama hátt og brezku setuliðsmennirnir nú, gegnum umboðsmenn erlendra firma, og hvort tóbakseinkasalan hafi ekki flutt inn tóbak á sama hátt. Ef það er brot að vera umboðsmaður erlendra vínfirma og annast kannske bréfaviðskipti kannske ekki — fyrir þá, sem hafa leyfi til að kaupa þessa hluti inn í landið, eða við getum ekki ráðið neitt við, þá er það jafnmikið brot að vera umboðsmaður fyrir vínum, sem áfengisverzlunin flytur inn, eða umboðsmaður tóbaksfirma, sem tóbakseinkasalan flytur inn tóbak frá. Og ég vil benda á í þessu sambandi, að það sem er að gerast fjárhagslega, er það, að umboðslaunin af þessum varningi renna í þessu tilfelli í vasa íslenzks manns, en mundu annars hafa runnið í vasa erlendra manna. Og sé ég þá ekki, hvar skaðinn liggur.

Ég skal svo ekki fara beinlínis út í fleiri atriði í ræðu hv. þm., á annan hátt en með því að víkja frekar að því, að ég tel lokunina sízt hafa bætt ástand okkar í áfengismálunum. Ég er algerlega á öndverðum meiði við flm. till. um, að lokun áfengisverzlunarinnar stafi af því, að stj. hafi komizt að raun um, að við værum komnir út á sérstaka spillingarbraut í áfengismálunum, enda er yfirlýst af hæstv. fjmrh., að lokunin er ekki framkvæmd vegna þess, heldur af því, að það voru birgðaþrot hjá áfengisverzluninni. Og það er í rauninni ófyrirgefanlegt vegna þess m.a. — og það ættu flm. till. að skilja —, að sífelldar smálokanir og smábirgðaþrot hafa orðið til þess, að meira var drukkið, þegar opnað var aftur. Og það er sennilega þessi „upprisuhátíð“, sem hv. þm. var að tala um, að hafi mjög svo hneykslað, — en það var víst hvítasunnan, sem hann átti við. Ég býst og við því, að nokkru hafi orkað á ríkissj. um lokunina, að það var gífurleg óánægja meðal fólks um skömmtunina. Og þó að ég telji, að skömmtunin hafi að mörgu leyti verið heppileg, þá álit ég, að eftirlit með skömmtuninni hafi ekki verið eins og hefði verið hægt að hafa það. Sérstaklega álít ég, að erfitt muni vera að hafa skömmtun á áfengi með svipuðu fyrirkomulagi og var, ef útsölustjórar vínverzlunarinnar eiga að hafa laun að verulegu leyti í hlutfalli við sölumagn. Ég er ekki út af fyrir sig að áfellast þessa menn, það er ekki nema mannlegt, að vegna þess arna geti ýmis flaskan farið út án þess að vera beinlínis í fullu samræmi við þær reglugerðir, sem gilda um afhendingu í búðinni.

Ég býst líka við því, að lokunin hafi að nokkru leyti verið til komin vegna þess, að setuliðið muni hafa keypt eitthvað í byrjun af Íslendingum, sem aftur höfðu keypt í áfengisverzluninni. Og þetta var ákaflega slæmt. En ég hygg hins vegar, að þetta atriði sé hvergi nærri eins stórvægilegt eins og flm. þessarar till. og frsm. vildu vera láta, og það hafi verið hægt að bæta hér um að verulegu leyti.

Ég tel í fjórða lagi, að lokun af hálfu ríkisstj. hafi að nokkru leyti stafað frá áróðri þeirra manna, sem telja það einustu lækningu í áfengismálunum að „þurrka landið“, eins og þeir kalla það, og að þeir hafi viljað nota sér það tækifæri, sem hér var um að ræða, setuliðið og vínmeðferð í sambandi við það. En hvaða áhrif sem lokunin kann að hafa haft á áfengismálin í sjálfu sér, þá er mjög vafasamt, eins og hæstv. fjmrh. sagði í sinni ræðu, hvort ríkisstj. hefur haft leyfi til að loka eða ekki. Það er ekki nokkrum blöðum um það að fletta, að það, sem einstaklingar lögðu út til að kaupa áfengisbækur, það var greitt fyrir notin af slíkum bókum. Með lokuninni eru þeir sviptir þessum rétti og þar með gerðir að hálfgerðum ginningarfíflum, ég leyfi mér að orða það svo.

Það er líka mjög vafasöm stefna hjá ríkisstj. að loka áfengisverzluninni án nokkurs tillits til, hvaða fjárhagslegan hagnað ríkið hefur haft af henni undanfarin ár. Því að það er á fyllsta hátt ástæða til að ætla, að í staðinn fyrir mikinn tekjuafgang af verzluninni muni koma halli. Og það er áreiðanlega skoðun meiri hl. þjóðarinnar, að þeir, sem vilja borga af frjálsum vilja skatt af víni, eigi að fá að gera það, og hinir eigi að fá að losna. Hv. flm. þessarar till. og frsm. hélt því fram, að það hefði yfirleitt verið sú hin gullna paradís í þessu efni hér á landi, meðan lokunin hélzt. Það átti varla að hafa sézt drukkinn maður, enginn að hafa verið tekinn úr umferð og yfirleitt ómögulegt að ná í áfengi. Ég leyfi mér að fullyrða, og þykist hafa meiri reynslu hér í bænum — og líka persónulega — í þessu efni en hv. frsm., að þetta er mjög mikið orðum aukið og að verulegu leyti skakkt. Ég leyfi mér að halda fram, þó að erfitt sé að fá um það tölur, að það hafi verið alveg jafnmikið drukkið í landinu nokkrum mánuðum eftir lokunina eins og meðan áfengisverzlunin var opin. Það er í raun og veru ekkert annað en það, sem „statistik“ alls staðar í heiminum sýnir, að þrátt fyrir bönn, lokanir og höft í áfengismálum, þá er einhvern veginn jafnmikils neytt af áfengi eftir sem áður. (SÁÓ: Hvar er þessi „statistik“?) Ég get lofað hv. þm. að sjá „statistik“ ágætra manna, sem hann getur ekki á nokkurn hátt véfengt, sérstaklega frá Ameríku. Að færri hafi verið teknir úr umferð, kann vel að vera. En mig minnir þó, að í blöðum bæjarins hafi verið birtar skýrslur í fyrra um, hvað margir hafi verið teknir úr umferð frá nóv. 1940 til 1941, og einnig frá 1939 til 1940, yfir þá mánuði, sem gátu komið til samanburðar um það, hvenær verzlunin var opin og lokuð það ár. Og ég held, að eitthvað 2 eða 3 fleiri hafi verið teknir úr umferð einmitt þann tímann, sem áfengisverzlunin var lokuð. Þetta skilst mér ekki sanna beinlínis, að menn hafi ekki getað náð sér í vín, meðan þessi ímyndaða paradís stóð.

Að það sé erfiðara að ná sér í áfengi, er að sumu leyti rétt; það kostar meiri peninga. Það er hægt að ná á flestallar tegundir af áfengi í þessum bæ og þessu landi, sem áður fengust, ef maður bara vill borga nógu mikið fyrir. Og eins og fjárhagsafkomu landsmanna er nú komið, eru margir, sem leiðast því miður út í að borga fyrir vín svo óhæfilega hátt verð, að það nær ekki nokkurri átt frá því sjónarmiði að leyfa þeim ekki á löglegan hátt að eignast það vín fyrir sæmilegt verð. Þeir, sem fylgjast með þessum málum, sérstaklega hér í Reykjavík, því að þar eru dæmin augljósust, geta ekki komizt hjá því að verða þess varir, að það er hægt að ná í vín í Reykjavík svo að segja hvenær sem er, og það vín er allt ólöglegt. Vínsmygl hefur aukizt gífurlega síðan áfengisverzluninni var lokað. Ég býst við, að tollverðir og þeir, sem fylgjast vel með því, sem skeður hér við höfnina, verði verulega vel varir við, að vínsmygl hefur margfaldazt einmitt síðan lokunin átti sér stað. Og þetta stafar af ákaflega eðlilegum hlut. Höfnin í Reykjavík er að tiltölu nú orðið einhver langstærsta höfnin í heimi. Skipakomur eru orðnar svo margar og svo mikill fjöldi þeirra manna, sem hér stíga á land, en koma þaðan, sem vínföng eru frjáls, að það er bókstaflega ómögulegt að hafa hemil á því, að smygl eigi sér ekki stað, þegar þessum útlendu mönnum verður ljóst, að fyrir 2–3 flöskur, sem kostaði þá sáralítið í heimalandinu, geta þeir fengið jafngildi mánaðarlauna á skipinu. — Ég heyri, að einn flm. efast um, að þetta sé rétt, og ég skil það ákaflega vel, vegna þess að hann hefur ekki hugmynd um, hvað er að gerast í þessu máli hér í Reykjavík. Svo fylgir í kjölfarið vaxandi leynisala vína, sem ólöglega eru flutt inn. Áður var það aðallega vín frá áfengisverzluninni. Þeim, sem stundum horfa í skildinginn hér á Alþingi, ætti kannske að renna til rifja, að þetta vín allt er skattfrjálst, — af því fær ríkið ekki einn einasta eyri. Ég ætla ekki að verja leynisöluna með vín áfengisverzlunarinnar, en þar er þó um að ræða vín, sem ríkið hefur fengið sinn lagalega innflutningstoll af.

Síðan áfengisverzluninni var lokað, hefur bruggið farið vaxandi, enda hefur það víst ekki komið fyrir áður, að bruggari var tekinn hér, sem hafði hálfgert eða algert heildsölusnið á áfengissölu sinni. Mér er líka sagt, að uppi í sveit sé hægt að fá heimabrugg sums staðar á öðrum hverjum bæ. Í mannfagnaði á Norðurlandi nýlega kepptust menn um að láta út í kaffibollana hver hjá öðrum, af því að allir vildu láta prófa sína framleiðslu. Allt er að fara í sama fenið og áður en gildandi áfengisl. voru sett. Í þessu efni er verið að vekja upp gamlan draug, sem hefur verið oss til smánar.

Menn munu spyrja: hvaðan fæst sykurinn í allt þetta brugg? Þessir menn ná í hann á marga vegu, og eru a.m.k. ein eða tvær leiðir, sem hægt er að stemma stígu fyrir, en eina leið er ekki hægt að hindra, nefnilega þá, að þeir fá sykur frá setuliðinu. Maður, sem er í Bretavinnu hér og ég þekki vel, tjáði mér, að hann hefði verið tekinn tali og spurður að því, hvort hann ætti ekki bruggunaráhöld. Ef hann treysti sér til að destillera, gæti hann fengið sykurinn. Þetta verða þeir, sem halda, að hægt sé að þurrka landið, að horfast í augu við.

Þá er það eitt í þessu máli, sem alþm. ættu að athuga vel. Vegna allra þessara hafta er óhætt að fullyrða, að viðskiptin við setuliðið fara vaxandi. Ég er ekki einn af þeim mönnum, sem álíta, að öll kynni við setuliðið séu okkur til smánar. Við eigum að umgangast það sem gesti, eins og hæstv. forsrh. sagði við komu þess hingað. En ekkert í þjóðlífi voru verður eins mikið til þess og áfengishöftin að spilla framkomu margra manna gagnvart setuliðsmönnum. Þeir eru blátt áfram lausnarar í augum sumra manna, og það er fátt, sem getur gert viðkynninguna jafnháskasamlega og þetta.

Það er undravert, hversu spillingin hér í áfengismálunum hefur þrætt sömu götu og í Ameríku, þegar búið var að skella á banninu þar. Svo vilja menn ekki trúa því, að þessi spilling sé til. Hér er þjóð í landinu, sem sjálf hefur lifað þetta og er reiðubúin að miðla af sinni þekkingu um það, hvernig á að fara í kringum áfengislögin.

Það, sem ég hef nú talið upp, eru sterk rök í þá átt, að ríkisstj. eigi að endurskoða allt þetta mál á ný og sleppa þeim grundvelli, sem þjóðin er búin að leggja sinn dóm á, að hægt sé að þurrka landið. Það þarf að endurskoða l. með það fyrir augum, að Íslendingar fái tækifæri til að menntast í þessum efnum og læra að fara með áfengi eins og siðaðri þjóð sæmir. Aðrar þjóðir hafa sýnt, að það er hægt. Ekkert er verra en hin sífelldu bönn, enda eru áfengisl. mest lítilsvirt allra laga í þessu landi. Þjóðarmeðvitundin um þau er slík, að það fellur enginn smánarblettur á þann, sem brýtur þau. Það, sem á að gera, er að setja þær reglur, sem þjóðarmeðvitundin skilur sjálf.

Ég skal ekki fara út í það, hverjar leiðir við Íslendingar eigum nú að fara. Það er ærið rannsóknarefni, sem ríkisstj. á að velja til hina færustu menn, ekki aðeins þá, sem álíta, að vín og áfengi sé eitur og bölvun, heldur líka hina, sem halda því fram, að áfengi þurfi ekki að vera bölvun, og að Íslendingar eigi að keppa að því að læra að fara með vin, en ekki afneita því. En oft þegar um áfengismálin er talað, fjalla þar um menn, sem eru á þeirri skoðun, að hægt sé að girða fyrir, að hér sé nokkurt áfengi.

Að þessu athuguðu verð ég að segja það, að mér finnst ekki ástæða til að áfellast ríkisstj. fyrir það, að hún hefur slakað á lokunarákvæðunum. Það er tilraun ríkisstj. til þess að leysa málið án þeirrar blindni, sem vill varna því, að áfengi sé til í landinu.

Ég vil, að lokum afhenda hæstv. forseta svo hljóðandi till. til rökst. dagskrár:

Þar sem Alþingi lítur svo á, að lokun áfengisverzlananna hafi, meðal annars, haft í för með sér aukið vínsmygl, aukna leynisölu smyglaðs víns, bruggun í stórum stíl, stóraukin kynni og viðskipti landsmanna og setuliðsins og neyzlu ýmissa bannvænna vökva, telur það ekki ástæðu til, að hert verði frekar á lokunarákvörðununum, og í fullu trausti þess, að ríkisstjórnin taki nú þegar til rækilegrar athugunar, á hvern hátt er hægt að koma í veg fyrir, að landsmenn neyðist til að afla sér áfengra drykkja ólöglega, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.