04.05.1942
Neðri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

106. mál, byggingarsamvinnufélög

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Þetta mál var tekið út af dagskrá síðast til þess, að allshn. gæti athugað brtt. á þskj. 274. Að vísu hefur farið svo, að n. hefur ekki getað komið saman til þess, og liggur því ekki fyrir nein umsögn frá henni. En ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 293 við brtt. 274,1. En í þeirri brtt. á 274 er farið fram á, að ákvæðum um sölu íbúða, sem byggðar eru með aðstoð byggingarsamvinnufélaga, sé þannig breytt, að í stað þess, að ekki er heimilt að selja þær nema kostnaðarverði, skuli mega selja þær félaginu því verði, sem um semur, eða matsverði, er dómkvaddir menn meta. Ég legg til, að inn í þá till. sé bætt því ákvæði, að næst á eftir félaginu hafi félagsmenn, sem ekki eiga íbúð, forkaupsrétt við sama verði, enda hafi þeir ekki byggt íbúð með aðstoð félagsins samkvæmt l. um byggingarsamvinnufélög.

Mjög margir, sem búnir eru að vera lengi í byggingarsamvinnufélögum án þess að hafa notið þar neinna hlunninda, mundu óska að sitja fyrir óviðkomandi mönnum um kaup slíkra íbúða, og virðist ekki ósanngjarnt, að þeim sé tryggt það. Að vísu má segja, að félögin geti notað forkaupsrétt sinn í þeirra þágu, en ég hygg það horfi samt nokkuð öðruvísi við.

Ég verð að leggja móti 2. lið brtt. á þskj. 274. Í þeim lið er svo ákveðið, að þegar borguð hafi verið að fullu þau lán, sem, félagi hafa verið veitt eftir þessum l., hverfi viðkomandi húseignir algerlega undan ákvæðum þeirra l., einnig því ákvæði, sem gert er ráð fyrir í 274,1. Þá þarf ekki lengur að bjóða félaginu eignina, áður en hún er seld hæstbjóðanda, og ekki er skylt, að hinn nýi kaupandi gangi í félagið. Endirinn yrði upplausn félaganna, og það var ekki tilgangur löggjafans, hver sem tilgangur þessarar brtt. kann að vera. Mér finnst ákaflega óeðlilegt, að þetta sé samþ. Í l. um verkamannabústaði eru hliðstæð ákvæði, og dettur engum í hug að afnema þau. Ég taldi óþarft að breyta þessum l. En með þeirri breyt., sem ég legg til á þskj. 293, get ég vel fellt mig við brtt. 274,1, en brtt. 274,2 verð ég að mótmæla.