04.05.1942
Neðri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

106. mál, byggingarsamvinnufélög

*Sigurður Kristjánsson:

Mér sýnist það alveg auðskilið, að nefndin í heild hefur ekki talið það neitt sérlega athugavert, sem lagt er til í brtt. á þskj. 274, fyrst hún fékkst ekki á fund til að taka til þeirra afstöðu. Um brtt. á þskj. 293 er ég ekki viss, hvernig skilja skal orðin „forkaupsrétt við sama verði“, — líklega þýðir það forkaupsrétt við matsverði. Í brtt. segir: „og hlíti seljandi mati þessu, ef hann þá kýs að selja og félagið vill kaupa“, en síðan er brtt. á þskj. 293 um, að þar bætist við: „Næst á eftir félaginu hafa félagsmenn, sem ekki eiga íbúð, forkaupsrétt við sama verði“ o.s.frv. Eftir sem áður eru aðilar háðir því, hvort eigandi vill þá selja og kaupandi kaupa við matsverði. Ég sé þá ekki, að brtt. á þskj. 293 sé til nokkurs hlutar umfram það, sem þegar er tryggt í l., að félagið getur notað forkaupsréttinn í þágu félagsmanna sinna. Félagið hefur það í hendi sinni, og brtt. okkar á þskj. 274 greiðir fyrir því, að heilbrigðir samningar geti á hverjum tíma orðið um kaupin. Hitt er nokkuð annars eðlis, þegar hv. þm. N: Þ. leggur til, að 2. liður brtt. á sama þskj. verði felldur, af þeim ástæðum, að mér skilst, að í þessum 1. verði að gilda sömu reglur og í l. um verkamannabústaði.

Ég hef ekki tekið eftir því, að það hafi verið véfengt, að það sé eðlilegt, að maður, sem hefur fullnægt öllum skuldbindingum, eigi að fá að vera einráður þessarar eignar sinnar, sem hann hefur leyst úr öllum skuldbindingum gagnvart öðrum.

Ég held, að ég þurfi ekki að endurtaka það, sem ég sagði við 2. umr., en eins og nú er komið, þá væri það með öllu óviðeigandi og ósamrýmanlegt venjulegum réttindum manna, að umráðaréttur þeirra yfir eignum sínum væri ekki skýrt ákveðinn. — Af því að það er vitað, að nú er gildi peninganna fallið það mikið, að þessar eignir þurfa að seljast margfalt hærra verði en kostnaðarverð þeirra var í upphafi, þá er ekki hægt að telja, að eigendur þeirra sleppi skaðlausir, ef þeir verða nú að selja hús sín fyrir upphaflegt verð þeirra, sem er ekki nema 1/4 af því, sem þau mundu seljast nú. En eins og ég tók fram við 2. umr., þykir mér sennilegt, að dómstólarnir mundu úrskurða, að eignin væri frjáls, og þar af leiðandi er kannske óþarfi að taka þetta fram, en það er þó öryggi í því og það fyrirbyggir nokkurn málarekstur út úr því, ef vafi léki á því, hver væri réttur húseigandi. Það er ekki rétt að bera þetta saman við l. um verkamannabústaði, því að það er vitað, að bæjarfélagið, en ekki ríkissjóður, leggur mikið fé fram til þeirra bygginga, og þess vegna er eðlilegt, að það séu frekari skilyrði fyrir eigendaskiptum í þeim íbúðum heldur en hjá húseigendum í byggingarsamvinnufélögum. Ég skal segja álit mitt um það, hvað ég tel eðlilegt í þeim efnum. Ég hef ekki þau gögn fyrir mér, að ég geti um það sagt, en hitt sé ég, að þarna er ekki líku saman að jafna. Ég vil þess vegna halda fast við þessa brtt. Ég tel, að hún gangi í samningsátt og sé nauðsynleg. Brtt. hv. þm. N.-Þ, er aftur á móti, að minni hyggju, staðfesting á því, sem dómstólarnir mundu úrskurða, og tekur hún af allan vafa í þessum efnum.