24.04.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (1471)

73. mál, áfengismál

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti ! Það er ekki meiningin, að ég ætli að fara að blanda mér neitt verulega í þetta mál eða halda um það neina ræðu. En ég hygg, að það hafi komið í ljós við þær umr., sem fram hafa farið, að málið sé ekki eins einfalt eins og mönnum kannske hefur upphaflega til hugar komið, og væri þess vegna þess vert að athuga það eitthvað nánar. Það er nú álit mitt persónulega, að það hefði verið betra, að hafa tvær umr. um þetta mál, en það er náttúrlega dautt mál að tala um slíka úr þessu, og hæstv. forseti hefur litið hér eins á og áður hefur verið gert af hans fyrirrennara um sams konar þáltill., að hún þyrfti ekki að vera til nema einnar umr., og við það situr auðvitað. En það þarf samt ekki að standa í vegi fyrir því, að þáltill. verði athuguð í nefnd. Og ég legg því til, að þessari umr. verði frestað og þáltill. verði vísað til athugunar til hv. allshn.