24.04.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (1473)

73. mál, áfengismál

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Það er ekki gott að segja, hvað um þessa till. verður, en vegna umræðnanna, sem fram fóru í fyrradag, vil ég segja nokkur orð, ef ske kynni, að málið verði útrætt við þessa umr. Ég vil taka það fram, að ég hygg, að það sé óþarft að vísa því til n. Ég hugsa, að hver þm. hafi gert sér ljóst, hvað hér er á ferðinni, og þó að n. fjalli um málið og það tefjist af þeim sökum, verði menn litlu nær og breyti ekki um skoðun. Frsm. okkar fjórmenninganna hefur gert mjög ýtarlega grein fyrir því, sem í till. felst, en síðan hefur ýmislegt komið fram, sem mér þykir hlýða að gera aths. við.

Ég vil víkja að hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, en ég sé engan þeirra við og vænti, að einhverjir þm. vilji taka að sér að bera þeim orð mín.

Hæstv. ráðh. hafa talið, að ríkisstj. hafi brostið heimild til þess að taka upp algerða lokun og hafa vitnað í l. um innflutning og sölu áfengis í því sambandi. Þeir hafa líka skýrt frá því, að það hafi orðið að loka áfengisverzluninni í júlí s.l. vegna þess, að þurrð var á birgðum, svo að að því leyti hafi þetta verið óhjákvæmileg ráðstöfun. Hæstv. forsrh. gat þess einnig, að af lögregluástæðum hefði orðið að halda áfram lokuninni.. En ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort ekki væri ein leið til í málinu, þó að lagaheimild brysti, nefnilega sú að gefa út bráðabirgðalög. Ég rykist hafa orðið þess var, að ekki eru hömlur á að gefa út bráðabirgðal., ef ríkisstj. telur það nauðsynlegt. Ég skal vitna í hinn fræga gerðardóm, sem settur var þvert ofan í gildandi l. Nú hefur ríkisstj. ekki gert það sama í þessu máli, og af hverju? Ég þykist vita, að hana hafi skort til þess vilja og ekki séð þá nauðsyn, sem við bindindis- og bannmenn teljum, að sé til lokunar. Og í seinni tíð hefur hæstv. ríkisstj. farið krókaleiðir í þessu máli með því að veita mönnum undanþágur, en þessar undanþáguveitingar gefa okkur nú tilefni til að reyna að fá hert á ákvæðunum. Og ég verð að segja, að það þarf ekki bindindismenn til að láta sér renna kapp í kinn, þegar farið er að veita undanþágur til að halda fermingarveizlur og kenna börnunum að neyta víns. Ég tala ekki um, ef einhver góður borgari á afmæli. Þá er talið sjálfsagt, að hann fái tækifæri til að kaupa vín.

Um hv. 6. þm. Reykv. og hans ræðu skal ég vera fáorður. Hann leyfir sé að slá fram alls konar fullyrðingum, hverra sannleiksgildi ég dreg mjög í efa, eins og t.d. þeirri, að til séu sveitir, þar sem bruggað sé á öðrum hverjum bæ. Ef ég væri fulltrúi sveitanna, mundi ég vilja fá slíku ámæli hrundið og heimta, að hv. þm. sannaði sitt mál. Hv. þm. heldur því líka fram, að við höfnina sé mikið flutt. inn af ólöglegu áfengi, sem tollvörðum og lögregluþjónum sé kunnugt um, án þess að þeir hafist að. En sá stimpill, sem hv. þm. setur á opinbera trúnaðarmenn ríkisins ! Mér er vel kunnugt um, að hugarfar tollvarðanna hér en annað en það, að þeir vilji láta slíkt fara fram hjá sér. Slíkt ætla ég ekki heldur lögreglumönnum vorum. Þetta er ómaklegur áburður, fram borinn á sjálfu Alþ.

Skýrsla hv. þm. ber vott um, að hann er kunnugri undirdjúpum borgarlífsins en margur annar. Ég þykist nú vera nokkuð kunnugur hér í bæ, en hef aldrei heyrt nokkurn mann lýsa slíku ástandi. Hitt veit ég, að alltaf eru til menn, sem hafa tilhneigingu til að brjóta l. En ég verð að ætlast til, að framkvæmdarvaldið í landinu geri sitt ýtrasta til að taka hart á öllu slíku. En er það gert? Eru ekki einmitt þeir menn að verki, sem ríkisstj. og önnur yfirvöld telja, að ekki eigi að taka eins hart á og sumum öðrum þegnum þjóðfélagsins? Ég er þess fullviss, að þó að mörg séu brotin á áfengislöggjöfinni, eru þau samt ekki meiri en svo, að hægt er að koma í veg fyrir þau með einlægum vilja og framtakssemi.

Innflutningur áfengis vegna setuliðsins er vandamál, en ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Hefur nokkuð verið gert af hálfu ísl. stjórnarvalda til þess að ræða við setuliðsstjórnirnar og reyna að hafa áhrif á þær í þá átt að hafa hemil á þeim innflutningi? Ég veit ekki til, að það hafi verið gert, en það er engu að síður nauðsynlegt að fara fram á að fá samninga við þær um þetta atriði ekki síður en annað, sem verið er að leita samninga um. Það eru allir sammála um, að ef sambúðin á að vera með nokkrum siðmenningarbrag, verður að þurrka út allt, sem torveldar hana, en þar má fyrst og fremst nefna notkun áfengis. Það væri fróðlegt að sjá í skýrslum um alla þá árekstra, sem orðið hafa, hvað áfengið á mikinn þátt í þeim. Það er áreiðanlega ekki meiri nauðsyn á neinu en að loka fyrir áfengisstrauminn og semja við herstjórnirnar um að takmarka innflutning áfengis til setuliðsins. Ef þessi leið væri farin, hygg ég, að ástandið yrði stórum betra en verið hefur. Ég skal ekki fullyrða, hvað langt væri hægt að komast í þessu efni, en ég vil láta reyna það, sem hægt er.

Lögreglan hefur gefið upplýsingar um þann mikla mun, sem varð um áfengisnautn, strax og búið var að loka verzluninni. Ég sá líka greinilega muninn við höfnina. — Ég er ekki einn um þessa skoðun. Ég hef ekki talað við nokkurn mann, sem ekki viðurkennir, að vegna ástandsins sé nauðsynlegt að hafa áfengisverzlunina lokaða. Ég geri ekki ráð fyrir, að andbanningarnir vilji líta sömu augum á þetta mál og við bindindismenn í öllum atriðum. En eitt ættum við að geta verið sammála um: að vegna þeirra tíma, sem nú standa yfir, verðum við að loka fyrir áfengið.

Mér fannst ræða hv. 6. þm. Reykv. svo fjarstæðukennd, að ég held, að hún dæmi sig sjálf. Ég held, að ekki verði margir til þess að trúa öllum fullyrðingum hans. En þó að einhver sannleikur kunni í þeim að vera, fullyrði ég, að ástandið sé ekki verra en svo, að það megi laga.

Ég sagði það í upphafi, að ég teldi ekki þörf á að tefja málið með því að vísa því til n. Málið er ekki nýtt, og hver þm. er búinn að gera upp með sér, hverja afstöðu hann tekur. N. mundi ekki afla neinna nýrra upplýsinga, sem breyttu afstöðu manna. Vitanlega má á það líta, að um fjárhagsmál er að ræða. En við erum ekki í neinni fjárþröng og þurfum ekki á þessum blóðpeningum að halda.

Ég mun ljúka máli mínu. Ég vildi aðeins segja mína skoðun, af því að ég hélt, að umr. væru að fjara út.