22.04.1942
Sameinað þing: 7. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (1506)

82. mál, brúargerð á Hvítá hjá Iðu

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta um að vera stuttorður um þetta mál, enda þarf ég fáu að bæta við það, sem tekið er fram í grg., og því betri rök og meiri nauðsyn sem fyrir hendi eru um framgang máls, því óþarfari eru umræður um það. Ég vil einungis taka það fram til viðbótar, að samkvæmt brúarlögum er Iðubrú ein þeirra brúa, sem ekki er komin til framkvæmda, en nú, þegar Skálholtsbrautin er komin í þjóðvegatölu, verður þessi brúargerð enn meir aðkallandi. Ég tek það aftur fram, að það er því ónauðsynlegra að hafa langt mál um þetta, sem allir, er til þekkja, vita, hve nauðsynlegt er að hafa brú þarna, og vísa að öðru leyti til þess, sem sagt er í grg.

Hér er ekki um neitt kapp við aðra að ræða, en beina nauðsyn á því að fá þarna brú, er tengi saman hin stóru héruð báðum megin Hvítár.

Yfir ána þarf líka fjöldi manns að sækja héraðslækni að Laugarási.

Ég óska eftir því, að till. þessari verði að lokinni þessari fyrri umr. vísað til nefndar, sem sjálfsagt er fjvn.