24.04.1942
Efri deild: 40. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

13. mál, skemmtanaskattur

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara. Ég lít svo á, að 200% álag á skemmtanaskatt af kvikmyndasýningum sé of hátt, þar eð það mundi ekki koma niður á kvikmyndahúsunum, heldur þeim, er sækja þau. Það vill oftast verða svo, ef skattlagðar eru vörur, að sköttunum er velt yfir á neytendurna í hækkuðu verði varanna, sem þó oftast eru hækkaðar rúmlega um það, er ríkið ætlar í sinn hlut.

Í frv., sem Alþfl. flytur í Nd. um ráðstafanir gegn dýrtíðinni, er í 7. gr. lagt til, að 200% af andvirði seldra aðgöngumiða renni í sjóð, er verja skuli til að halda niðri dýrtíðinni.

Vænta mætti, að það, eins og annað, er miðar að því að halda dýrtíðinni í skefjum, mætti ekki mótstöðu nú á Alþingi, og yrði það samþykkt og skatturinn auk þess innheimtur með 200% viðauka, ætla ég, að aðgöngumiðar yrðu svo dýrir, að almenningur mundi vart geta sótt þessar skemmtanir, er hann hefur helzt átt völ á.

Þá eru, eins og menn vita, kvikmyndahús úti um allt land, sem þessi hækkun nær einnig til. Þó að menn gætu orðið sammála um, að Reykjavík mundi ekki muna mikið um þetta vegna þeirra tekna, sein menn hér hafa, þá hafa tekjur manna víða úti um land ekki vaxið mikið fram yfir það, sem nemur dýrtíðinni. Þess vegna hygg ég, að þessi hækkun gæti haft það í för með sér, að menn neyddust til að hætta að sækja þessar skemmtanir.

Þá má einnig um það deila, hvort þessi skattahækkun öll eigi að renna í þjóðleikhússjóðinn í Reykjavík og hvort ekki væri réttara að verja þessu fé til styrktar leiklistarstarfsemi á hverjum þeim stað, sem þessi skattur er greiddur. Um þetta kom fram brtt. í Nd., en náði ekki samþ. Ég hef ekki enn borið fram brtt. í þessa átt og veit ekki, hvort hún kemur frá hv. meðnm, mínum, 1. þm. Eyf., en ég mun a.m.k. fylgja slíkri brtt., ef hún kemur fram, og mun athuga til 3. umr., hvort ég ber hana fram sjálfur.