29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

31. mál, til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar

*Eiríkur Einarsson:

Eins og skýrt hefur verið frá, hefur ekki gefizt tækifæri fyrir hv. flm. til að hafa fund með iðnn. í heild, þó að þeir hafi talað við form. n. Ég vil því sem einn nm. gera grein fyrir minni skoðun á málinu.

Ég tel ekkert því til fyrirstöðu, að heimild um að veita raforku frá Sogsvirkjuninni nái einnig til Hveragerðis. En úr því að fram hefur komið till. um að taka það sérstaklega fram, þá vil ég eindregið mæla með því, að þessi brtt. verði samþ.

Ég vil þá, úr því að þetta hefur ekki verið rætt í n., láta skoðun mína í ljós um þær aths., sem hv. 1. flm. gerði um tvö atriði í brtt. iðnn. Ég vil segja það fyrir mitt leyti um fyrra atriðið, þ.e.a.s. um 5 ára takmörkunina, að eins og hv. meðnm. mínir muna, frá því að þetta var rætt í n., þá var ég á þeirri reiminni að reyna að teygja þetta eins og verða mætti til sem lengsts tíma, og m.a. af því, að ef einhverjar ófyrirsjáanlegar hömlur vegna hernaðar eða annars slíks verða því valdandi, að óhjákvæmilegur dráttur verður á framkvæmdum, þá álít ég, að sérleyfið eigi að gilda áfram. Ég vildi þó ekki gera ágreining í n. út af þessu, úr því að meiri hl. vildi setja þetta 5 ára takmark, vegna þess að ég hugði, að meðan ekkí er öllu rangsnúið í veröldinni og á hæstv. Alþ., þá mundi svo góðu máli sem þessu vera sýndur svo mikill skilningur, að þetta gæti ekki orðið þröskuldur í vegi framkvæmda í málinu beinlínis, þó að þetta takmark sé ekki hærra. En því lengra sem þetta tímatakmark væri haft, því betur álit ég ákveðið um það.

Um síðara atriðið, sem hv. fyrri flm. gat um, þrengingu á ívilnunum fyrir Sogsvirkjunina frá því, sem segir í frv. sjálfu, þá vil ég í raun og veru segja um það atriði alveg í samræmi við orð mín um 5 ára takmarkið, að því rýmri sem þau kjör mega verða, því betur falla mér persónulega þau ákvæði, þótt ég álíti það ekkert höfuðatriði.

Ég vil að síðustu taka það fram, úr því að einn hæstv. ráðh. er hér inni, að ég legg afar mikið upp úr því, sem á að vera ekki hvað sízt lífgjafi þessa málefnis, þ.e. aðstoð ríkisstj. um efni og annað slíkt, sem til framkvæmda heyrir þessa máls. Það var á síðasta hausti, sem farið var fram á það af vissum áhugamönnum, þegar trúnaðarmenn voru sendir af hálfu Reykjavíkurbæjar í fyrrahaust viðkomandi aukningu Sogsvirkjunarinnar, að þeir einnig væru látnir grennslast um verð og útvegun á rafleiðslum fyrir þetta fyrirtæki. Og ég hef það fyrir satt, að þar liggi fyrir tilboð um útvegun á einhverju slíku. En dráttur á þessu er orðinn langur, og þarna eystra bíða menn eftir ljósi og hlýju frá Sogsvirkjuninni. Og það veltur á miklu fyrir það fólk, þegar virkjunin verður aukin fyrir Reykjavík, hvort þeir menn, sem á þeim svæðum búa, sem tiltekin eru í frv., geta siglt í kjölfarið svo sem frekast má, og þá fyrir atbeina hæstv. ríkisstj.