29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

31. mál, til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar

*Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins örfá orð. Það má vera, að ég hafi ekki komizt heppilega að orði, þegar ég minntist á, að þessar brtt. hefðu ekki verið ræddar. Ég átti þar við umr. um þær, en ekki, að þeim hefði ekki verið lýst, því að hv. frsm. gerði það. Og ég gat þess, að það hefði verið fyrir ósk flm., að brtt. voru geymdar. Og við þessa umr. var það ekkert hættulegt gagnvart þeim, þótt ekki yrðu umr. um brtt. við 2. umr.

Ég heyri á hv. frsm., að okkur ætlar ekki að koma saman um þessa brtt. viðkomandi því að binda sérleyfistímann við 5 ár og að sérleyfið falli niður, ef það er ekki notað á því árabili. Undir venjulegum kringumstæðum hefði svona ákvæði mátt vera í l. En þetta mál er nokkuð annars eðlis heldur en ýmis mál, þar sem slík sérleyfi koma til greina. Þetta mál hefur ríkisstj. mjög mikið í sinni hendi, bæði hvað skilyrði snertir viðkomandi framkvæmd verksins og eins um framkvæmd þess, því að það má að mörgu leyti telja, að hún hafi langmest vald á málinu, eins og ég líka álít, að eigi að vera um slik mál sem þetta. Þörf almennings er mjög rík um það, að málið verði framkvæmt sem fyrst. Og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef haft um þetta mál, býst ég við, að viðkomandi sveitarfélög ætli að mynda félagsskap um að koma þessu máli í framkvæmd. Og með þeim tökum, sem ráðuneytið hefur á þessu máli, ætti það að vera nóg trygging fyrir því, að verkið verði framkvæmt, svo framarlega að nokkrir möguleikar verði á að framkvæma það. En þeir tímar eru nú, og enginn veit, hve lengi þeir muni vara, að það eru engir möguleikar nú í augnablikinu á að sjá, hvort tök verða á eða, réttara sagt, hvenær verður hægt að leysa þetta af hendi.

Hv. 6. landsk. þm. (EmJ) sagði, að ef ekki verði unnt að leysa þetta verk af hendi næstu 5 ár eftir að sérleyfið væri veitt, þá sé hægt að koma með það til þingsins. Þetta er rétt. En ég held, eins og þetta mál er í pottinn búið, þá sé það óþarft að búa svo um, að það þurfi í því tilfelli að koma til þingsins, því að það kæmi ekki til greina nema tímarnir væru þannig, að þess vegna væri ekki hægt að framkvæma málið.

Hitt atriðið, viðvíkjandi innflutningsgjöldunum, er minna um vert. Ákvæði frv. um þetta efni segja alveg til um það, hvaða efni og tæki þetta eru, þ.e. sem snertir framkvæmd þessa verks, sem bundið er við þetta árabil. En hvort þessi innflutningsgjöld falla niður eftir ákvæðum frv. eða brtt., ræður ekki miklu um örlög málsins.