25.03.1942
Efri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

55. mál, lækningaleyfi

*Bjarni Snæbjörnsson:

Þegar hitt málið, á þskj. 80, var til umr., sem nú er nýlega á fundinum búið að afgr. til 3. umr., um það að veita nokkurt fé á fjárl. til þess, að læknar gætu komizt úr héruðum sínum um stundarsakir, og eins til þess, að læknar skyldu vera í héruðum, ef héraðslæknir félli frá, þá minntist ég ofurlítið á þetta frv., sem hér er til umr., og hafði það aðallega fyrir augum, að hér í frv., sem fyrir liggur, væri það ákvæði, sem mundi verða kvöð, sem gæti komið læknaefnum mjög illa, þar sem þeir yrðu að bíða máske svo og svo langan tíma eftir því að fá ótakmarkað lækningaleyfi, þar sem ekki væri þörf fyrir þann fjölda lækna, sem útskrifast árlega, í þau læknastörf, sem þarna koma til greina. Ég veit, að aðrar kvaðir, sem lagðar eru á læknaefni, hafa komið sér illa fyrir þá, svo sem t.d. það að vinna á sjúkrahúsum ákveðinn tíma, áður en þeir fá fullkomið lækningaleyfi. Þeir hafa orðið að bíða svo og svo langa tíma eftir því að geta fengið pláss á spítala til slíkrar vinnu. Og ekki batnar fyrir þeim, ef aukið verður á kvaðirnar með þessari breyt. á l. Í öðru. lagi efast ég um það, að þau héruð, sem illa eru sett með lækna og eru rýrustu og erfiðustu héruðin, verði miklu bættari með það, þó að þetta fyrirkomulag verði sett á laggirnar, vegna þess að það kemur héraðsbúum mjög illa að verða alltaf að skipta um lækna með stuttu millibili. Því að búast mætti við, að í þau héruð færu ekki aðrir læknar en þeir, sem skyldaðir væru til þess eftir þessum l., ef samþ. verður þessi breyt. Og þeir yrðu þá sennilegast 4–6 mánuði í þeim héruðum, hver fyrir sig; og alltaf væri skipt um, og nýir menn kæmu; og mundi þetta verða læknishéruðunum til ýmissa erfiðleika. Það er þess vegna, að mínu áliti, mjög lítil bót, þó að þetta yrði að l.; og kæmi það ekki til þeirra nota, sem til er ætlazt af hv. flm. Ég hygg því, ,að þessum málum væri miklu betur borgið, ef veitt væri á fjárl. nokkur fjárfúlga til aukalækna, þannig að það væru stofnuð 2 eða 3 aukalæknisembætti, og mennirnir, sem tækju þau embætti, væru skyldaðir til þess að sinna þessum störfum, sem í þessu frv., sem fyrir liggur, læknaefnum á að vera skylt að gegna, og að það væri sagt þeim læknum, sem þyrftu að fara frá sinum héruðum um tíma, annaðhvort vegna heilsubrests eða til náms, að þeir gætu fengið þessa Iækna fyrir sig um tíma. Einnig gætu þessir læknar skipzt á um að gegna læknislausum héruðum í bili. En þau réttindi, sem slíkir læknar fengju, sem tækju þessi aukalæknisembætti, yrðu vitanlega þau, að þeir gengju á sama skalann eins og aðrir héraðslæknar, þeir fengju betri héruð aftur á eftir og svo stighækkandi, eftir að embætti losnuðu. Því að það verður að segjast, að það, sem aðallega tryggir það, að læknar fáist í lélegri læknishéruðin, er, að þeir hafi víssu um það, að þeim verði ekki gleymt í þessum lélegu héruðum, heldur að þeir fái betri héruð, strax og þau losna, en það hefur veitingavaldið ekki gert á undanförnum árum nema að litlu leyti. Þess vegna fást ungir læknar ekki til að fara í lélegri læknishéruðin vegna óttans við, að þeim verði gleymt þar.

Og svo nr. 2 eru það launal., sem þarf að breyta viðkomandi læknum, sem eru í lélegum héruðum. Það er alveg óhæfilegt og kemur ekki til nokkurra mála að hafa muninn ekki meiri á launum læknanna í lélegustu héruðunum annars vegar og hins vegar þeim fjölmennustu, þegar maður tekur tillit til þess, hve afskaplega mikill munur er á praksís í þeim lélegustu héruðum og hinum beztu. Ég vildi þess vegna beina því til hv. allshn., áður en málið kemur til 2. umr., hvort hún vildi ekki athuga þann möguleika frekar að stofna heldur til auka læknisembætta heldur en fara þá leið, sem í þessu frv. er gert ráð fyrir. Það yrði ekki miklu meiri kostnaður en það, sem fram á er farið með hinum frv. (á þskj. 80). Og ég held, að með því móti yrði meiri trygging fyrir því, að lélegustu héruðin fengju þó að búa að sínum læknum dálítið lengur en 4–6 mánuði hverjum lækni í einu. Og í öðru lagi vil ég beina því til n., hvort ekki væri hægt að koma því fyrir einhvern veginn í l., að farið verði eftir því við veitingar læknisembætta, að þeir, sem hafa verið í fámennum, afskekktum og erfiðum héruðum, komist að betri héruðum, þegar þau losna.

Mér virðist, að hv. allshn. ætti að ræða þetta mál við formann Læknafélags Íslands, því að óneitanlega er í þessu frv. stefnt að því að leggja miklar kvaðir á eina stétt manna. Og mér virðist réttara að leita álits formanns þess félags fremur en einhverra og einhverra einstakra lækna, eins og mér skildist á hv. frsm., að hann hefði gert. Ég hef ekki haft tækifæri til að tala við formann læknafélagsins um þetta atriði, og það, sem ég hef sagt um þetta mál nú, er þess vegna eingöngu frá mínu eigin brjósti.