30.03.1942
Efri deild: 24. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

55. mál, lækningaleyfi

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Út af aths. hv. þm. Hafnf. (BSn) verð ég að taka það fram, að strax þegar n. hafði tekið þá ákvörðun að flytja þetta frv., þá var formanni Læknafélags Íslands sýnt frv. Að vísu hefur n. ekki kallað hann á sinn fund, en hefur þó gefið honum fullt tækifæri til þess að eiga viðræður við n. um málið. Og ég hef talað um það við formann allshn., og það er sjálfsagður hlutur, að formaður læknafélagsins fái viðtal við nefndina. En það stendur nú svo á, að 2. og 3. málið á dagskránni í dag þurfa að fylgjast að. Eftir bendingu frá mér hefur hæstv. forseti tekið 2. dagskrármálið af dagskrá nú, til þess að þessi tvö mál gætu væntanlega fylgzt að út úr d. Ég hef ekkert á móti því, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, verði ekki afgr. frá d., fyrr en formaður læknafélagsins hefur talað við n. En ég vildi beina því til hv. þm. Hafnf., hvort hann sætti sig ekki við, að málið gangi nú til 3. umr. og að á milli 2. og 3. umr. eigi formaður læknafélagsins kost á að tala við n., sem ég hefði þá óskað, að gæti orðið á morgun. Þá þyrfti það ekkert að tefja fyrir afgr. málsins, þó að formaður læknafél. ætti viðtal við n. En það liðkar til að láta málið nú ganga til 3. umr. Þetta viðtal gæti svo farið fram á fundi n. á morgun milli kl. 10 og 11 f.h.