30.03.1942
Efri deild: 24. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

55. mál, lækningaleyfi

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

A þeim óvenjulegu tímum, sem nú eru, verða ýmsar breyt., sem hafa útgjöld í för með sér, og sumum þeirra hefur ríkisstj. ekki séð mögulegt að ráða fram úr. Þá hefur það verið gert í nokkrum tilfellum að skrifa fjvn., þar sem allir flokkar eiga sæti, og biðja hana um álit sitt á málinu. Hvað þessa lækna snertir, þá er það bersýnilegt; að þeir eru verr settir heldur en allir aðrir embættismenn, af því að laun þeirra eru miðuð við miklar aukatekjur af störfum þeirra, en fyrir þau taka þeir greiðslu samkv. gjaldskrá. Þó að þeir fái fulla uppbót á laun sin, fá þeir samt ekki það uppborið, sem aðrar stéttir þjóðfélagsins. Þess vegna hefur komið til tals að hækka. kauptextann og láta þá þannig ná rétti sínum. Menn eru ekki sammála um í ríkisstj., hvaða leið eigi að fara. Ef til vill væri rétt að hækka textann, en þá mætti búast við, að aðrar stéttir risu upp og heimtuðu kauphækkun. Þess vegna var ekki farin sú leið, sem formaður læknafélagsins stakk uppá, heldur bent á þá millileið að greiða úr ríkissjóði í nokkur ár hærri uppbót til þess að komast hjá því að hækka textann. Mundi þetta verða það sama fyrir hlutaðeigandi lækna, og yrði þetta gert með tillit til þess, að þeir læknar, sem hafa erfiðust héröðin, fái mest laun samanlagt. Mál þetta er rökstutt af landlækni. Ég álít, að þegar svo stendur á, að ekki er hægt að ráða fram úr þessum málum á Alþ., geti ríkisstj. tekið til sinna ráða, að fengnum till. fjvn., þegar Alþ. situr ekki. Ég álít rétt á hverjum tíma að leita tillagna fjvn. Hitt er aftur ekki rétt, að venjan hafi skapað fjvn. fjárveitingavald hér á Alþ., og þannig hefur ríkisstj. aldrei litið á. En undir slíkum kringumstæðum, sem verið hafa s.l. ár, hefur ríkisstj. leitað góðra tillagna fjvn., þegar hún hefur ekki náð til þingsins og óvenjuleg vandamál hefur þurft að leysa. Sýna landsreikningarnir fyrir s.l. ár, að mikið hefur verið af óvenjulegum greiðslum, sem stafa af hinu óvenjulega viðhorfi stríðstímanna. Og það er ekki undarlegt, þó að þurfi að grípa til þeirra úrræða, sem óþekkt eru á venjulegum tímum.