07.04.1942
Efri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

55. mál, lækningaleyfi

Bjarni Snæbjörnsson:

Við umr. um þessi mál hefur það farið svo, að bæði málin hafa verið rædd jöfnum höndum, (50–55. mál). En af því að ég hygg, að gætt hafi nokkurs misskilnings, þegar umr. fóru fram um hitt málið, þá hef ég leyft mér að bera fram brtt. við það frv. nú, og geri ég það með skírskotun til þess, að bæði frv. hafa verið rædd jöfnum höndum.

Ég vildi gera grein fyrir þessum till., ef hæstv. forseti vildi úrskurða, að till. mættu koma til atkv., þegar atkvgr. fer fram um seinna málið.

Þar sem misskilnings hefur gætt um meðferð málsins og þm. hafa lagzt á móti því, að málinu yrði frestað, svo að hægt væri að koma með brtt., þá hef ég talið rétt að freista þess að fara þessa leið. Það er vitanlegt, að það frv., sem hér um ræðir og sem er skoðað af læknanemum, sem nokkurs konar kúgunarfrv., er fram komið af því, að n. bjóst ekki við því, að frv. yrði breytt frá því, að allshn. hafði gengið frá því. — Brtt. mín er á þá leið, að í stað 300 kr. komi 500 kr. Eins og þetta er í frv. allshn., hef ég skilið það svo, að á þessar 300 kr. eigi ekki að greiða fulla dýrtíðaruppbót, heldur eigi þetta að vera nokkurs konar trygging fyrir því, að þessir læknar eigi að hafa a.m.k. 300 kr. í laun, en að það mundi verða samkomulagsatriði við viðkomandi héraðslækni, hvort hann greiddi þetta eða ríkissjóður. Þess vegna er það, að þó að farið sé upp í 500 kr., er ekki þar með sagt, að það verði hrein útgjöld fyrir ríkissjóð, heldur dragi viðkomandi héraðslæknir þetta. úr sínum vasa. Nú vil ég í annan stað geta þess, að það er ekki nema sanngjarnt að hækka þessa upphæð, þar sem vitanlegt er, að sendisveinar bera úr býtum 300 kr. á mánuði og í öðru lagi, að þau embætti, sem stj. hefur skipað í, þau hafa verið launuð með 600 kr. á mánuði auk uppbótar og þar að auki mánaðar sumarfri, svo að í sjálfu sér er ekki farið langt, þó að miðað sé við 500 kr. Í öðru lagi hef ég í brtt. mínum bætt lítils háttar við gr., og skoða ég það einungis sem framkvæmdaratriði, sem landlæknir yrði að skera úr. En ég álít, að einmitt þetta atriði gæti orðið mjög til þess að gera þessa menn fúsari til þess að takast þessi embætti á hendur.

Ég skal að lokum geta þess, að ég hef í dag rætt við allshn. um þessar brtt. minar, þannig að öllum nm. eru þær kunnar. Ég vil svo að lokum mælast til þess við hæstv. forseta, að hann verði við þeirri ósk minni að taka brtt. mínar til umr. hér í deildinni.